Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.3.2007 | 21:36
Rætt um siðfræði í skólastarfi
Siðfræði í skólastarfi
Erindi flutt við Háskóla Íslands í mars 2007 (Hér er aðeins um stutt ágrip að ræða þar sem ég talaði án þess að hafa skrifaða ræðu)
Föstudaginn 2.mars ræddi ég í Háskóla Íslands hugmyndir mínar um siðfræði- og heimspekikennslu á unglingastigi. Ég fór að stunda heimspeki og siðfræði með unglingum fyrir rúmum 10 árum þegar ég hóf að kenna á undirbúningsnámskeiðum Siðmenntar fyrir borgaralegar fermingar. Síðan hef ég jafnframt lagt stund á þessar greinar með nemendum í Réttarholtsskóla ,en þar hef ég unnið að þróunarverkefni í siðfræði undanfarna mánuði. Þar sem ekki allir sem áhuga höfðu á að hlusta höfðu tök á að koma fara nokkur atriði úr spjalli mínu hér á eftir.
Markmið Siðfræðiástundunar með unglingum
Hvert er markmiðið með því að stunda siðfræði með nemendum? Yfirmarkmiðið er að þjálfa nemendur í að koma auga á það sem getur talist á einhvern hátt siðferðilega athugavert og fá þá til þess að bregðast við. Þannig að það er verið að leitast við að efla siðferðilegt sjálfræði nemenda sem þýðir að þau komi auga á og bregðist á gagnrýnin og meðvitaðan hátt við siðferðilegum vanda í þeirra hversdagslega lífi.
Hvernig er farið að?
Verkefninu er skipt niður í fjóra meginþætti: A) Gagnrýna hugsun og mikilvægi gagnrýnnar hugsunar í siðfræði. B) Uppbyggileg og heiðarleg rökræða og mikilvægi hennar í siðfræðiástundun. C) Hvernig lífi er best að lifa (hér er vísað til siðfræðinnar sem leið til þess hafa áhrif á lífsstíl). D) Að vakna til vitundar um siðferðileg álitamál og ígrunda leiðir til að bregðast við þeim. (hér fæst ég fyrst og fremst við nánasta umhverfi nemenda og reyni að halda skálduðum dæmisögum (svokölluðum klípusögum) í lágmarki þar sem nemendur átta sig vel á því að þær eru mjög oft óraunverulegar og jafnvel óraunsæjar). Þess í stað nota ég mikið raunverulega reynslu fólks sem ég finn í frásögnum og fréttum.
Það er vel mögulegt að taka fyrir einn lið þessarar heildar og ekki annan og stundum gerir maður það, en það fer eftir hópum og samhengi kennslunnar. Það sem maður þarf einnig að hafa í huga er að viðfangsefnin höfði til nemenda og kveiki frekari áhuga eða forvitni á að bregðast við lífinu á siðferðilegan hátt. Ef við skoðum hvern lið fyrir sig þá erum við að gera eftirfarandi hluti í tímum:
A) Gagnrýnin hugsun: Hefðbundin útlistun á því hvað gagnrýnin hugsun er og mun á gagnrýninni hugsun og ógagnrýninni. Þetta geri ég t.d. með því að láta nemendur velta fyrir sér auglýsingum, fréttum og stuttum greinum. Þeir fá tækifæri til þess að greina rökfærslur sem fram koma og bregðast við þeim Einnig leyfi ég nemendum að virkja hugsun sína með rökþrautum, gátum sem er þá einnig til þess fallið að gera eitthvað skemmtilegt saman um leið og þau þurfa að virkja hugsun sína.
B) Uppbyggileg og heiðarleg rökræða: Flest ungmenni eiga ekkert sérstaklega auðvelt með að rökræða en þau eiga auðveldara með að kappræða og vera í einhverju þrasi. Það er því mjög mikilvægt að kynna fyrir þeim rökræðuna og kosti hennar og muninn sem er á rökræðu annarsvegar sem leið til þess að komast að því sem er satt og rétt og kappræðu hinsvegar sem leitast við að sigra andmælandann burtséð frá réttmæti málstaðarins og gæði röksemda. Þegar við förum að takast á við álitamál þá er þess gætt að umræðan lendi ekki í einu allherjar þrasi sem leiðir okkur ekki að neinni niðurstöðu. Því er lögð áhersla á 1) Virka hlustun 2) Gefa sér tíma til að vega og meta eigin skoðanir og rök sem og annarra. 3) Tjá sig á skipulegan og yfirvegaðan hátt. 4) Að vera reiðubúin að skipta um skoðanir án þess að það þyki nokkuð skammarlegt.
C) Rökræðan um hið góða líf: Siðfræðinni var í árdaga ætlað það hlutverk að fást við það í hverju hið góða líf væri fólgið. Ég tel það mjög mikilvægt að halda því inni hér vegna þess að nemendur kjósa sér einhvern lífsstíl, ýmist á meðvitaðann hátt eða ómeðvitaðan sem er misjafnlega góður. Að rökræða lífstílinn á gagnrýnin og yfirvegaðan hátt er því ákveðinn lykill að því að móta líf sitt á ábyrgan hátt. Hvernig líf er gott líf? Hvaða áhrif á hefur lífstíll minn á aðra? Hvaða áhrif hefur lífstíll minn á sjálfan mig, er þetta eitthvað sem mun færa mér gæfu eða þvert á móti verða mér til bölvunar?
D) Að átta sig á siðferðilegum álitamálum: Hér erum við væntanlega komin að veigamesta þætti þessa þróunarverkefnis, það er að fást við siðferðileg álitamál sem slík. Ég skipti umfjölluninni í þrjá meginflokka en það er útfærsluatriði hvernig þeir eru teknir, kannski saman eða í sitt hvoru lagi. a) Mál sem snerta lífstíl og afstöðu einstaklingsins til eigin lífs b) Mál sem snerta samskipti við annað fólk c) Mál sem snerta umhverfið, bæði nánasta umhverfi sem og umhverfið hnattrænt.
Hvað svo?
Hvernig fer maður að því að fá nemendur til þess að koma auga á siðferðileg álitamál og efla siðferðilegt sjálfræði sitt? Ég nota stef úr klassískri siðfræði í umræðum eins og:- Hvað ef allir .? Hvað ef allir gerðu eins og ég? Hvernig væri þá samfélagið, skólinn, bekkurinn osfrv?- Hvað ef maður væri í sporum hins. Hvernig vildi maður þá hafa hlutina? - Og einnig stef frá Epíkúrusi með ánægjuútreikning.Veitir ákveðin breytni manni ánægju þegar til lengri tíma er litið eða er um skyndiánægju að ræða sem verður síða að gríðarlegri óánægju stuttu síðar? (Sjá nánari útlistun á þessari hugmynd í: Lucretius De rerum natura eða On the nature of things)- Og einnig stef frá Aristótelesi um að rata meðalhófið á milli tveggja öfga. - Og líka dreg ég fram hamingjuhugsun ef við á sbr. Er umrædd breytni þess valdandi að fólk verði hamingjusamt eða óhamingjusamt. Þannig má segja að ég noti mismunandi stef úr siðfræðikenningum eftir því hvað ég tel best eiga við hverju sinni, allt eftir því hvernig viðfangsefnin eru og leyfi ég nemendum að velja hvað þeir telji styrkja sjónarmið sín.
Hvað nota ég í tímum:
· Atburði úr hversdagsleikanum: Til dæmis; Þekkir þú einhvern sem hefur svindlað á prófi, hnuplað úr búð, skemmt eigur osfrv?
· Nota greinar og fréttir úr blöðum þar sem siðferðileg álitamál koma fyrir. (Finna má slíkt nánast daglega og hef ég vart undna að klippa út úr blöðum fréttir af einhverju sem skoða má betur með gleraugum siðfræðinnar)
· Nota einnig en þó frekar lítið tilbúnar siðklemmur eða klípusögur (er nemendum frekar óraunverulegt nema ég hafi eitthvað sem hefur í raun gerst.
Þetta er grunn stefið í siðfræðikennslunni en síðan í fyrirlestri mínum við HÍ sýndi ég þau gögn sem ég nota í kennslustundum, greinarnar, myndirnar, fréttirnar og frásagnirnar. Þannig fengu áheyrendur að setja sig í stutta stund í spor nemenda minna. Ég vona að þetta skýri að einhverju leiti það sem ég er að gera með nemendum mínum í siðfræði.
Skúli Pálsson kennari og heimspekingur var á meðal áheyrenda og skrifaði á vefsíðu sína það sem hann upplifði á fyrirlestri mínum. Sjá nánar: http://www.123.is/skulip/
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.3.2007 | 22:45
Útrunnið kornflex og græðgisvæðing í bönkunum
Nýjustu fréttir af gangi mála í samfélaginu eru þær að sumir borða kornflex sem þeir fá gefins og rann út fyrir þremur árum. Á sama tíma mæta gæðingarnir sem eru í stjórnum bankanna kannski bara á einn fund í mánuði og fá 350.000 kall fyrir vikið.
Hversu langt getur siðleysið gengið? Svari hver fyrir sig.
JB
25.2.2007 | 20:22
Ég kom hjólandi á landsfund Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs
Í Morgunblaðinu í dag á bls. 2 er sagt frá því að aðeins einn þátttakandi hafi komið hjólandi á landsfund VG sem haldinn var núna um helgina. Magnús Bergsson spurði landsfundarfulltrúa að því hvernig þeir hafi komið sér á staðinn og þegar hann lagði spurningu sína fyrir fundinn var hann sá eini.
Þetta er kannski pínulítið "nördalegt" af mér að vera að koma með leiðréttingu á þessari frétt en ég mætti alla dagana á landsfundinn á reiðhjóli. Svo óheppilega vildi til að ég var ekki á svæðinu einmitt á því augnalbliki sem Magnús lagði spurninguna fyrir fundarmenn. Þannig að við voru a.m.k. tveir.
En hvað um það ,Magnús á hrós skilið fyrir að hafa lagt þessa samviskuspurningu fyrir félagana í umhverfisvæna flokknum. Árangurinn í þessu efni er ekki nógu góður en ég er sannfærður um að flokksfélagar eigi eftir að bæta sig
JB
24.2.2007 | 21:11
Hundasúrur og fjallagrös eða álver í hverja sveit?
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs stendur yfir núna um helgina og hefur umræðan þar verið mjög frjó. Í dag var málþing um atvinnulíf sem var virkilega spennandi. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur alloft verið sökuð um að vilja byggja atvinnlíf þjóðarinnar á því að senda landsmenn á fjöll til að tína fjallagrös og hundasúrur. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti hundasúrum og fjallagrösum en þetta skot á VG kemur fyrst og fremst til af þeirri gagnrýni sem við höfum haft á núverandi stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar sem vill að því er virðist álver helst sem víðast.
Ríkisstjórnin og allnokkur fjöldi fólks lítur svo á að atvinnulífið eigi að vera þess eðlis að ríkið skammti fólki verksmiðjur sem það vinnur síðan í til æviloka. Þegar ég ólst upp í Keflavík þá var þessi hugsunarháttur ríkjandi. Okkur krökkunum sem og öðrum var talið trú um að ef herinn færi yrði ekki um aðra atvinnu að ræða. Mikill fögnuður greip iðulega um sig þegar tilkynnt var um aukinn hernaðarumsvif en að sama skapi greip um sig mikil skelfing ef útlit var fyrir að ekki væri þörf á frekari hernaðarumsvifum. Gott ef frjálst hugarflug og tillögur um annarskonar atvinnustarfsemi hafi ekki verið álitið hálf vafasamt á þeim tíma.
Þetta er rangur hugsunarháttur þegar rætt er um atvinnulíf. Það er atvinnulífinu ekki hollt að ríkið eitt komi með stórar lausnir sem allir verða að trúa á. Slíkt slævir skapandi hugarflug um þá möguleika sem kunna að vera fyrir hendi og gætu allt eins verið mun arðbærari er stór mengandi verksmiðja í boði ríkisins.
Á málþinginu í dag kom fram mikilvægi þess að leggja rækt við sköpunarkraftinn, virkja hugann til þess að sjá tækifærin sem við höfum. Þegar það er lagt til að við könnum þá möguleika sem við höfum til fjölbreytts atvinnulífs erum við oft og iðulega krafin svara um hvað það er nákvæmlega sem við ætlum að bjóða upp á í atvinnumálum. Við viljum meira af smáum og meðalstórum fyrirtækjum, en það væri ekki rétt af VG að skipa svo fyrir um að svo og svo mörg smá trésmíðaverkstæði væru við þessa götu og svo væri plastpokagerð við hina götuna og kannski væri kjötvinnsla í næstu götu osfrv.
Ef við gerðum það værum við búin að negla atvinnulífið allt niður í einhverskonar gamaldags Sovétskipulag. Það sem við þurfum að leggja áherslu á er að vera hvetjandi til þess að þeir sem áhuga hafa á fyrirtækjarekstri greini tækifærin í sinni heimabyggð og fái stuðning til þess að koma hugmyndum sínum af stað. Þannig byggjum við upp fjölbreytt og spennandi atvinnulíf. Við megum nefnilega ekki gleyma því að fólk er í síauknum mæli farið að vilja vinna við störf sem það telur spennandi. Vinna er víst ekki lengur bara vinna.
JB
Sjá einnig http://blog.central.is/johannbj
22.2.2007 | 20:38
Siðmennt tilnefnd til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins
Það kom mér ánægjulega á óvart að Siðmennt hafi verið tilnefnd til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins sem veitt voru í dag. Í frétt Fréttablaðsins segir um tilnefningu félagsins: Félagið hefur byggt upp borgaralegar fermingar á Íslandi. Fermingarundirbúningurinn hefur vakið sérstaka athygli, ekki síst vegna þeirrar siðfræðikennslu sem ungmennin hljóta."
Í 11 ár hef ég starfað að fermingarundirbúningi fyrir Siðmennt. Það var árið 1996 þá nýkomin úr námi frár Belgíu sem ég sá auglýsingu frá Siðmennt þar sem óskað var eftir kennara á undirbúningsnámskeiðin. Ég man alltaf eftir símtali mínu við Hope Knútsson formann og stofnanda Siðmenntar hversu jákvæð hún var gagnvart reynslu minni. Ég hafði alllengi reynt að fá vinnu en með litlum árangri þar til ég heryði í Hope. Samstarf okkar hefur staðið yfir síðan og verið mjög gott og ánægjulegt í alla staði.
Hope er frumkvöðull að borgaralegum fermingum hér á landi sem hafa gefið fjölmörgum unglingum tækifæri til þess að fermast án þess að þurfa að strengja trúarheit. Þessi siður hefur tíðkast erlendis og er einna þekktastur í Noregi. Þekktasti norski einstaklingurinn sem fermst hefur borgaralega er án efa Gro Harlem Bruntland fyrrverandi forsætisráðherra.
Á undirbúningsnámskeiði því sem ungmenning sækja fyrir fermingarathöfnina fá unglingarnir ýmislegt að hugsa um sem ætlað er að efla siðvit þeirra og gagnrýna hugsun. Námskeið þetta er þannig úr garði gert að allir geta sótt það burtséð frá trúar eða lífsskoðunum.
En Siðmennt gerir meira heldur en að standa fyrir borgaralegum fermingum. Siðmennt er er einnig baráttuvettvangur fyrir almennum lýðréttindum. Eitt stærsta málið sem Siðmennt berst fyrir nú er að félagið fái sömu réttarstöðu og trúfélög hafa í þeim skilningi að félagsmenn geti greitt sóknargjöld til félagsins í stað þess að greiða þau til Háskóla íslands. Ef það gengi í gegn myndi Siðmennt geta veitt félagsmönnum sínum þá þjónustu sem trúfélög veita sóknarbörnum sínum en Háskóli Íslands veitir hinsvegar ekki þeim sem greiða sín "sóknargjöld" þangað.
Þetta er meginbaráttumálið sem unnið er að um þessar mundir. Því miður hafa stjórnmálamenn tekið þessu réttlætismáli fálega og því mjög brýnt að á næsta þingi sitji umburðarlyndari einstaklingar en nú gera.
En hvað sem því líður þá er viðurkenningin að hafa fengið tilnefningu til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins mikilvæg starfi félagsins. Ég óska samstarfsfólki mínu í Siðmennt innilega til hamingju með þennan áfanga.
Nánar um Siðmennt má lesa á www.sidmennt.is
JB
20.2.2007 | 21:19
Væri ekki ráð að koma á fót kennaraeftirliti ríkisins?
Nýverið sendi Félag grunnskólakennara bækling inn á hvert heimili þar sem reynt er að sannfæra almenning um að kennarar séu nú eitthvað að vinna. Ástæða þótti til að prenta sérstakan bækling þar sem ýmsir hafa gefið sterklega í skyn og jafnvel sagt það berum orðum að það eina sem kennarar geri í vinnunni sé að vinna ekki vinnuna sína. Bæklingur þessi ber þess nokkur merki að vera innlegg inn í kappræðu við þá sem halda því fram að kennarar yfirhöfuð vinni ekki. Víst segja kennarar og hinir meintu viðmælendur segja þá nei og kennarar segja þá aftur víst og svona er karpað endalaust um skólamál nei, víst, nei, víst, nei, víst, nei, víst....... Þarna er komin dæmigerð lýsing á skólamálaumræðunni hér á landi. Sú umræða snýst nær eingöngu um það hvort kennarar séu í raun eitthvað að vinna yfirhöfuð. Síður er spurt um námsárangur, líðan nemenda, þroska þeirra og færni. Jú rétt er að taka fram að af og til er tekin umræðusyrpa um samræmdu prófin.
Í áðurnefndum bæklingi er því haldið fram að kennarar fái ekki meira frí en aðrir, því er einnig haldið fram að kennarar vinni líka þegar þeir eru ekki í kennslustofunni. Og nú klóra margir sér í höfðinu og spyrja: "Hvernig getur kennari verið að vinna þegar hann er ekki að kenna beinni kennslu?" Mörgum er það lífsins ómögulegt að skilja það að hægt er að vinna við kennslu án þess að vera alltaf að kenna.
Ég fór til dæmis með hóp af nemendum í dag í heimsókn niður á Alþingi. Ég var ekkert að kenna á meðan við sóttum þingið heim en var ég í vinnu? Það hvarflar ekki að mér að svara þeirri spurningu heldur er þetta fínt verkefni til úrlausnar fyrir þá sem vilja koma á fót einhverskonar "vistaskyldu" kennara inni í lokaðri kennslustofu þar sem viðvörunarbjöllur hringja leggi þeir krítina frá sér eitt augnablik.
Það er athyglisvert hversu mörgum er mikið í mun með að vilja binda kennarana við borðfæturna á kennaraborðunum í skólastofunum helst frá kl. 08.00-17.00 alla virka daga. Magn viðverustunda er þannig álitið tákn um gæði í skólastarfi en er það svo? Ég dreg það stórlega í efa. Þeir hinir sömu sem vilja tjóðra kennara við stólinn hefðu þá væntanlega viljað að ég væri með staðsetningartæki um ökklann þegar mér dettur annað eins í hug eins og að fara út úr skólastofunni og heimsækja Alþingi og taka nemendur með. En málið er bara það með starf kennarans eins og Félag grunnskólakennara hefur því miður þurft að útskýra, svo miklu meira heldur en skólastofa og rígbundin viðvera.
Þó að öllum kennurum sé þetta fullljóst held ég að það sé ekki til neins að gefa út bækling um málið, það eru svo margir sem vilja ekki skilja eðli starfsins.
En aftur af ferðinni í dag niður á Alþingi. Krakkarnir vildu náttúrulega vita af hverju svona fáir þingmenn væri við í þingsalnum og héldu sumir því fram að þingmennirnir væru ekkert að vinna vinnuna sína. En konan elskulega sem tók á móti okkur var svona eins og Félag grunnskólakennara og sagði að það væri margt annað vinna hjá alþingismönnum heldur en að sitja í þingsalnum. Þannig að þingmennirnir áttu alla mína samúð við þessari gagnrýni nemenda minna.
JB
18.2.2007 | 22:45
Dekrið við einkabílismann rýrir lífsgæði
Athyglisverðar eru þær upplýsingar sem fram hafa komið um mengun í Reykjavík af völdum bifreiða. Mælingar hafa sýnt að mengunin er yfir heilsuverndarmörkum við 20 leikskóla í borginni. Þetta eru sláandi upplýsingar sem ber að bregðast við. Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að 73% svarenda í könnun í lok síðasta árs óku sjálfir til og frá vinnu og kom einnig fram að einkabíllin er langmest notaðaður í Reykjavík af sjö stórum borgum á Norðurlöndunum miðað við íbúafjölda.
Á sama tíma og þessar upplýsingar eru borðleggjandi ákveður borgarstjórnarmeirihluti Framsóknar - og Sjálfstæðisflokks til að ráðist verði í gerð mislægra gatnamóta við Kringlumýrabraut væntanlega til þess að koma til móts við einkabílismann í stað þess að efla vistvænni ferðamáta eins og fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í umhverfisráði hefur lagt til. Fulltrúi VG lagði til að forgangur strætó yrði stórelfdur í borginni t.d. með því að leggja forgangsakreinar fyrir strætó. Markmið slíkrar tillögu er að sjálfsögðu sú að fólk kæmist hratt á milli staða á umhverfisvænni hátt í stað þess að borgarbúar væru hver um sig einir í bíl sínum með tilheyrandi sóun og mengun.
Þetta er tillaga sem hreinlega stuðlar að bættum lífsgæðum borgarbúa. Hvernig má færa rök fyrir því í ljósi nýjustu loftmælinga að aukið dekur við einkabílinn sé til þess fallið að auka lífsgæði borgarbúanna? Hvort er hreinna loft eða greiðari leiðir fyrir einkabílinn meiri lífsgæði?
Þegar allir íbúar borgarinnar eru teknir með í dæmið og líka börnin á leikskólunum 20 sem áður voru nefndir er engin spurning að það er mjög brýnt að minka þá mengun, bæði loftmengun og hávaðamengun sem stafar af óhóflegri notkun einkabíla.
Svör borgarstjórnarmeirihlutans við tillögu VG í umhverfisráði voru á þá leið að tillagan lýsti "ótrúlegum kreddum".
Þetta eru svör þeirra við mengunarvandanum í borginni sem kallast í dag "hægrigrænir". "Hægrigrænir" villja semsagt bæta aðgengi fyrir mengandi einkabíl þannig að allir geti nú ekið, hver á sínum bíl til og frá vinnu en það er helst á slíkum stundum sem ástæða er til að nota strætó á forgangsakgreinum. Það er að þeirra mati "ótrúleg kredda" að leggja til að umhverfisvænni samgönguleiðir.
Já maður spyr sig bara hverjir eru með kreddur þegar upp er staðið?
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.2.2007 | 22:38
Kannski eiga íslenskir dóparar eftir að dúsa í klefa með Osama Bin Laden
Orðræða stjórnmálanna er oft æði undarleg í samanburði við daglegt mál og málvenjur almennings. Stjórnmálamenn virðast margir hverjir telja sig geta sagt hvað sem er og ef fólk skilur þá ekki þá hika þeir ekki við að gefa orðum sínum þá merkingu sem þeim dettur í hug hverju sinni. Skiptir þá engu hvort merking sú sem þeir gefa orðum sínum er vitræn eða ekki.
Nýjasta dæmið um athyglisverða orðræðu í stjórnmálum eru ummæli Valdimars L. Friðrikssonar þegar hann hélt því fram að þekktir hryðjuverkamenn hefðu verið handteknir í Keflavík. Þegar farið var að kíkja í tugthúsið fannst enginn hryðjuverkamaður og kannaðist enginn lögregla við að hafa nokkurntíman tekið hryðjuverkamann fastann.
En Valdimar og samflokksmenn hans í Frjálslyndaflokknum voru ekki að tala um hryðjuverkamenn eins og flestir gera heldur hafa þeir útvíkkað orðið allverulega þannig að það kann fljótlega að verða með öllu merkingarlaust ef frjálslyndir halda áfram að setja ýmsa hópa þjóðfélagsþegna í hópinn "hryðjuverkamenn".
Þessir þekktu hryðjuverkamenn sem Valdimar og félagar eru að tala um sprengja hvorki brýr né bíla heldur eiga það til að flytja inn fíkniefni þegar vel liggur á þeim. Hryðjuverkamennirnir eru því þeir sem í eina tíð voru kallaðir smyglarar eða fíkniefnainnflytjendur. En nú fyrir tilstuðlan frjálslyndra kallast þeir hryðjuverkamenn. Það skyldi þó aldrei vera að íslenskir dópsmyglarar eigi eftir að sitja í steininum með mönnum á borð við Osama Bin Laden og fá jafnframt sömu málsmeðferð?
Það verður ekki annað sagt en að frumleikinn sé í fyrirrúmi hjá þeim frjálslyndu en hvort að það verði ekki flókið að útskýra fyrir almenningi muninn á hryðjuverkamanni og hryðjuverkamanni veit ég ekki. Frekar hallast ég þó að því að með þessu sé Valdimar og félagar heldur að flækja orðræðuna. Ég tala nú ekki um ef þeim skyldi detta í hug að fara að kalla landabruggara líka hryðjuverkamenn.
JB
15.2.2007 | 20:22
Ef maður skuldar þá er maður góður viðskiptavinur en ef ekki þá getur maður étið það sem úti frýs
Umræðan í dag sem þau Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson hafa haldið upp fyrir hönd almennings með gagnrýni á græðgisvæðingu bankanna fékk mig til þess að rifja upp póst sem ég fékk nýverið. Það var kort frá fjölskylduþjónustu banka nokkurs sem ég hef átt viðskipti við í áratugi. Bankinn var bara að láta mig vita að ég ætti ekki rétt á neinum glaðningi frá þjónustunni s.s. í formi endurgreiðslna á debetkortafærslun né öðru þar sem ég hefði ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett eru af hálfu bankans.
Þetta koma mér að sjálfsögðu ekkert sérstaklega á óvart og þó. Ég fékk svo "gamaldags" uppeldi í peningamálum að mér var kennt að skulda helst aldrei neinum neitt, kaupa bara það sem ég ætti fyrir og ef ég ætlaði að kaupa eitthvað dýrt að leggja þá fyrir þar til ég hefði safnað fyrir því sem ég vildi kaupa. Að sjálfsögðu var lögð rík áhersla á að greiða alla reikninga á tilsettum tíma. Þetta hef ég gert alla ævi og einu skuldirnar sem ég hef átt er af íbúð og námslán.
En svona viðskiptavinir sem haga sér eins og ég eru greinilega slæmir viðskiptavinir að mati bankans míns, enda eins og fyrr segir fæ ég enga umbun fyrir viðskipti mín. Málið er að bankinn getur lítið sem ekkert grætt á mér. Ég var líka ekki titlaður "betri viðskiptavinur" í þessu bréfi. En mjög oft fæ ég samt bréf frá bankanum þar sem ég er titlaður "betri viðskiptavinur" en ég hef tekið eftir því að sá titill á eingöngu við þegar bankinn er að bjóða mér skuldir. Semsagt, ef maður vill skulda þá er maður betri viðskiptavinur en ef maður vill hvorki skuldir né yfirdrátt þá er maður eiginlega bara einhverskonar olnbogabarn í íslenska bankakerfinu.
Hvernig væri nú eins og Ögmundur hvatti til í Kastljósinu í kvöld að bankarnir færu að skoða sjálfa sig með augum almennings? Þeir gætu orðið margs vísari um eigið "ágæti".
JB
Manni finnst nú eins og það sé að bera í bakkafullann lækinn að fara að nefna bullið í Byrginu eina ferðina enn. En reyndin er nú sú að það virðist ekkert lát vera á subbuganginum sem fram er að koma og í ljósi aðstæðna þá get ég ekki komist hjá að nefna örfá atriði.
Fram hefur komið að starfsmenn misnotuðu aðstöðu sína grimmt og stunduðu kynferðislega misbeitingu af miklu kappi með vistmönnum Byrgisins. Það er eitt. Annað er að þeim konum sem urðu barnshafandi var bannað að fara í fóstureyðingu ef þær svo vildu, enda talið brjóta gegn kærleiksboðskap trúarinnar sem þarna átti að vera unnið eftir. Maður deyðir ekki fóstur segja þeir en hinsvegar má maður samkvæmt öllu misnota skjólstæðinga kynferðislega.
Í þriðja lagi voru viðbrögð við þungunum þau að þau sem í hlut áttu urðu að trúlofa sig eða eins og segir orðrét í frétt DV: "Yfirleitt var fólk látið trúlofa sig þegar þetta gerðist (þungun innsk JB) því annað væri synd, það væri synd að búa saman ólofuð. Þá var fólki skaffaður bústaður eða það gat búið saman."
Ég tek eftir orðalaginu hér að sögnin að láta er notuð í samhenginu að fólk var látið búa saman. Skyldi það hafa verið spurt? Ég bara spyr í ljósi nauðungarhjónabanda sem tíðkast víst víðsvegar um heiminn.
Mál þetta er eiginlega of fjarstæðukennt allt saman til þess að ég geti áttað mig á þessu og eru hugmyndirnar um syndina ekki til þess að auðvelda skilning minn á því. En ætli þetta mál sé ekki bara til vitnis um það að vitsmunalíf manneskjunnar er ekki eins langt komið og við höfum viljað halda fram ? Hver veit?
JB