Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vinstrihreyfingin grænt framboð blæs til sóknar gegn fátækt

Í gær kynnti Ögmundur Jónasson ásamt fríðum flokki frambjóðenda VG áherslur flokksins í baráttunni gegn fátækt. Fjallað var um málið út frá heilbrigðisþjónustu, húsnæði, menntun og barnafjölskyldum.

Fram kom meðal annars á fundinum:

* Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk telur gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu hafa í för með sér að efnalítið fólk veigri sér við að leita læknis og lyfjakostnaður sér því ofviða.

* Um 8550 börn á aldrinum 3-17 ára höfðu ekki farið til tannlæknis í þrjú ár árið 2005 og að 10-20 af hundraði grunnskólabarna fara á mis við forvarnarstarf í tannheilsu.

* Skólatannlækningar voru lagðar af árið 1998 "af samkeppnisástæðum". Ríkið niðurgreiðir ekki tannlækningar á sama hátt og aðra læknisþjónustu. Þetta bitnar á tannheilsu barna.

* Það er erfiðara nú en fyrir tólf árum að vera tekjulítill og standa straum af kostnaði vegna húsnæðis.

* Kannanir sýna að tilkostnaður við að senda ungling í framhaldsskóla á heimavist nemur 600-700 þúsund krónum á ári. Ef um dvöl námsmanns af landsbyggðinni í Reykjavík er að ræða nemur þessi kostnaður 1100 þúsund króna á ári.

* Barnabætur hafa verið skertar í tíð þessarar ríkisstjórnar.

* Samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði í desember 2006 kom fram að yfir 64% eldri borgara voru með undir 110 þúsund krónum í ráðstöfurnartekjum á mánuði.

JB

 


Bætum kjörin burt með fátækt

 

Í dag kl. 16.00 mun Vinstrihreyfingin grænt framboð opna kosningaskrifstofu í Hamraborg í Kópavogi og um leið halda fréttamannafund þar sem Ögmundur Jónasson og fleiri frambjóðendur VG munu ræða fátæktina í landinu.

JB


Aukinn ójöfnuður, þennsla og kjarnorkuver. Er það þetta sem kjósendur vilja?

Forystumenn stjórnmálaflokkanna ræddu málin og gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum í sjónvarpinu í kvöld. Áherslur forystumannanna voru kynntar og það sem stóðu uppúr var þetta:

Jón Sigurðsson hefur ekki tekið eftir því að ójöfnuður í samfélaginu hefur aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar þrátt fyrir fréttir af því að margir eru farnir að trassa það að láta börnin sín fara til tannlæknis og þrátt fyrir matargjafir mæðrastyrksnefndar sem talað hefur verið um í fréttum að undanförnu.

Ómar Ragnarsson vill byggja kjarnorkuver.

Guðjón Arnar vill hið ómögulega, annarsvegar að halda þennsluhvetjandi aðgerðum áfram t.d. byggingu álvers á Húsavík og á sama tíma vill hann ekki fleiri útlendinga til landsins. Hverjir eiga þá að vinna við álversframkvæmdirnar?

Geir Haarde ætlar að sjálfsögðu að passa vel upp á fjármagnseigendur og helst að láta þá hagnast sem mest og best og virðist það vera í lagi að leyfa þeim að sleppa við að greiða til samfélagsins en þiggja engu að síður alla þá þjónustu sem veitt er á samfélagslegum grunni eins og skóla, sjúkrahús, löggæslu, gatnakerfi ofl ofl.

Ingibjörg Sólrún kom ekki á óvart heldur staðfesti þann grun minn að enginn veit hvað Samfylkingin vill í stóriðjumálum.

Er þá ekki bara ráð að kjósa Vinstrihreyfinguna grænt framboð?

Jú engin spurning.

JB


Hvað má maður gera og hvað ekki á föstudaginn langa? (og hversvegna?)

Fyrir um áratug stundaði ég nám við skóla í Belgíu sem heitir Katholieke Universiteit Leuven. Skóli þessi hefur frá árinu 1425 verið eitt helsta fræðasetur kaþólskra manna í heiminum þar sem kaþólikkar hvaðanæva að úr heiminum sækja nám.

Ég er ekki kaþólikki og reyndar ekki kristinn en hafði engu að síður gott af náminu hjá kaþólikkunum. Ástæðan fyrir því að ég er að rifja upp þennan tíma minn í Belgíu kemur til af þeim ágreiningi sem birtur var á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Þar telja prestarnir Geir Waage og Hjálmar Jónsson það alveg út í hött að keppni um fyndnasta mann landsins sé haldin á föstudaginn langa. Hjálmar segir fólk vera að skjóta sig í fótinn með athæfinu og Geir þetta fáránlegt þar sem þetta sé einn af örfáum helgidögum sem eru lögvarðir, en bannað er að halda skemmtanir á opinberum veitingastöðum á þessum degi þó að kvikmyndasýninar, tónleikar og leiksýningar séu heimilar.

En aftur að Belgíu. Þótt stjórnendur og starfsmenn háskólans hafi verið kristnir  og tækju trú sína afar hátíðlega þá var nú ekkert stress í mannskapnum vegna ýmissa daga kirkjuársins. Ég man nefnilega sérstaklega eftir föstudeginum langa þarna úti. Þá var bara ósköp venjulegur skóladagur eins og flesta aðra daga. Þrátt fyrir föstudaginn langa þótti ekki ástæða til þess að taka frí og leggja lífið til hliðar. Eitthvað myndu þeir Geir og Hjálmar væntanlega segja ef háskólamenn á Íslandi gerðu tilraun til að reyna eitthvað í líkingu við það sem belgísku kaþólikkarnir (sem margir voru einnig starfandi prestar) gerðu.

En burtséð frá því hvernig þetta er í Belgíu þá vakna  óneitanlega áleitnar spurningar þegar svokallaðir helgidagar eru til umræðu. Sú spurning sem ég tel að sé brýnast fyrir menn að svara er þessi:

Samkvæmt lögum er föstudagurinn langi einn af helgidögum Þjóðkirkjunnar hversvegna þurfa þá þeir sem ekki eru í Þjóðkirkjunni að beygja sig undir þá reglu að mega ekki taka þátt í eða standa fyrir skemmtunum á opinberum stöðum?

Er ekki kominn tími til að rúm verði fyrir fleiri en einn sið í landinu?

JB


Laufskálinn

Ég var í spjalli í Laufskálanum á Rás 1 í síðustu viku. Hægt er að hlusta á þáttinn á netinu. Slóðin er http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4341242

JB


Er ekki bara kominn tími á skólatannlækningar?

Fram kom núna um helgina að 8500 börn höfðu ekki farið til tannlæknis í þrjú ár árið 2005 hér á landi. Tannheilsu íslenskra barna hefur verið að hraka undanfarin ár og er mun verri en gerist hjá börnum á Norðulöndunum. Heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttir segist vera að vinna í málinu en hún taldi ástæðu til þess að minna á að ábyrgðin lægi fyrst og fremst hjá foreldrum. En þá vil ég minna á þetta:

Eins og við sem störfum að barnaverndarmálum fáum svo oft að upplifa þá þrá öll börn vissulega að lifa heilbrigðu lífi þar sem þau njóta bæði réttinda og velferðar en vandinn er bara svo oft sá að börnin velja sér ekki foreldra. Það er sama hversu mikið við minnum á ábyrgð foreldra þá er málið bara þannig að það eru ekki allir foreldrar jafnábyrgir og því bitnar slæm tannheilsa á of mörgum börnum.

Ég spyr því bara að því hvort ekki sé ástæða til þess að taka upp skólatannlækningar? Ég held að það sé engin spurning því öll börn eiga rétt á tannheilbrigði rétt eins og annarskonar heilbrigði.

JB


Hvað ætlar formaður Íslandshreyfingarinnar að gera við rúntinn?

Forystusveit Íslandshreyfingarinnar hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sinnum haldið því fram opinberlega að hreyfingin sé eina stjórnmálaaflið sem er "grænt í gegn". Að vera "grænn í gegn" skilst mér að einkenni þá sem séu mestu umhverfis- og náttúruverndarsinnarnir. Vissulega ber að fagna þeim sem ákveðið hafa að láta umhverfismálin til sín taka en eitt get ég ekki áttað mig á og þætti vænt um að fá svör við og það er þetta:

Hvað ætlar Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar að gera með "rúntinn" svokallaða?

Fyrir ekki svo mörgum vikum var langt viðtal við Ómar Ragnarson í sjónvarpinu þar sem hann lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að hægt væri að rúnta í miðborg Reykjavíkur. Taldi hann ástæðu til þess að "gamli rúnturinn" í miðborginni yrði opnaður eins og hann var þannig að allir gætu ekið hring eftir hring, fram og til baka til þess að allir sem væru að rúnta gætu nú séð alla aðra sem væru á sama rúnti.

Í ljósi þess að loftmengun vegna bifreiðaaksturs er að aukast í borginni er það óumflyjanlegt að hreyfingin sem telur sig grænni en allar aðrar hreyfingar svari því hvað gera skuli við þessa loftmengandi hugmynd formanns Íslandshreyfingarinnar.

Hreyfing sem er með "rúntinn" hans Ómars innanborðs getur ekki talist svo "græn í gegn".

JB


Útrunnin matvæli og hundruðir þúsunda fyrir einn fund á mánuði

Mikið hefur verið deilt um það á undanförnum vikum hversu mikill ójöfnuðurinn er í landinu. Ég held að það sé alveg óþarfi að fara í einhverjar fræðimannsstellingar til þess að deila um hvort ójöfnuðurinn sé meiri eða minni en áður hefur verið. Kjarni málsins er að ójöfnuðurinn hér á landi er gríðarlegur. Nægir að rifja upp fréttir liðinna daga af kjörum fólks því til staðfestingar. Annarsvegar höfum við fengið að heyra af fólki sem er svo fátækt að það þarf að og þiggja matargjafir reglulega. Fátæktin er slík að útrunnin matvæli eru vel þegin, jafnvel þau matvæli sem runnu út fyrir þremur árum.


Á sama tíma berast fregnir af stjórnarmönnum bankanna sem voru rétt í þessu að hækka við sig launin. Það er semsagt ekki nóg að keppa í bruðli og flottræfilshætti með nýársveislum sem kosta svo mikið að ég efast um að ég kunni að nefna slíkar tölur. Nei, nú eru það launin enn og aftur. Fram kom í fréttum Stöðvar tvö þann 1. mars að laun stjórnarmanna bankanna geta numið 350.000 krónur á mánuði fyrir einn einasta fund. Í sömu frétt kom einnig fram að nokkrir stjórnarformenn eru komnir með yfir eina milljón á mánuði. Þetta er samfélagsgerðin sem sköpuð hefur verið undanfarin ár og geri ég ráð fyrir því að stjórnarflokkarnir séu sælir með þennan árangur sinn.


Við sem stöndum að framboði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs erum hinsvegar ekki sátt við þessa misskiptingu. Í æ ríkari mæli er verið að skipta þjóðinni upp eftir efnahag og breikkar bilið svo mikið að hæglega má tala um siðleysi í þessu samhengi. Að taka dæmi af börnum er nærtækt: Hvernig blasir þessi misskipting við börnum? Hvað halda þau börn sem lifað hafa á kornflexi sem rann út fyrir þremur árum að þau og fjölskyldur þeirra séu þegar þau heyra af börnum sem eiga foreldra sem fá 350.000 krónur fyrir að mæta á einn fund á mánuði og eru þá ekki aðrar tekjur taldar með?


Er það virkilega svona samfélag sem Íslendingar vilja byggja? Er einhver hér á landi sem á það skilið að borða útrunnar matvörur frá hjálparsamtökum á meðan hægt er að borga öðrum 350.000 kr fyrir einn fund? Svari nú hver fyrir sig. Ég veit hvert svar Vinstri grænna er.

JB

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


Þegar tískulöggan mætti kommagrýlunni skælbrosandi í fjólublárri skyrtu og ráðherrajakkafötum nýkominni úr litgreiningu

Ég man alltaf þegar ég var að að alast upp í Keflavík þá heimsótti ég ömmu mína a.m.k. einu sinni í viku, enda vorum við hinir bestu vinir. Amma hafði sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálunum og hélt oftar en ekki þrumu ræður á stofugólfinu eða við eldhúsvaskinn, allt eftir því hvar hún stóð hverju sinni þegar hinn pólitíski andi kom yfir hana. Amma var sósíaldemókrat og hafði alla tíð litið mikið upp til Hannibals.

En amma átti sér líka mikla fjandmenn í pólitík, menn sem hún óttaðist meira en nokkuð annað og hlustaði ég af athygli þegar hún talaði um þessa pólitísku andstæðinga sína en það voru kommúnistarnir. Hún lísti kommúnistunum sem því allra versta sem hægt væri að hugsa sér og voru þeir verri en nokkur grýla. Einu sinni man ég eftir því að í Dagblaðinu var mynd af Svavari Gestssyni þáverandi formanni Alþýðubandalagsins. Amma tók upp blaðið og sýndi mér myndina af þessum skelfilega manni og sagði eitthvað á þessa leið: "sjáðu skeggið á honum, það er algjör hörmung." Þannig var illa snyrt skeggið á Svavari álitið tákn um þá grýlu sem hann hafði að geyma, kommagrýlu eins og það var oft kallað suður í Keflavík. Ég hlustaði skelfdur á ömmu.

Síðan líða árin og heimsmyndin breytist og kommagrýlan sem svo oft var á sveimi hverfur svo að segja algjörlega. Amma jafnaði sig á þessu öllu með þýðu í alþjóðasamskiptum og sætti sig vel við það að ég hafi ákveðið að ganga til liðs við þá sem hún áður taldi holdgervinga kommagrýlunnar. Ég held meira að segja að hún hafi farið að kjósa okkur kommana í bæjarstjórnarkosningum.

Síðan hverfur amma á vit forfeðra sinna og ég heyri ekki meir af kommagrýlunni..... fyrr en núna nýlega.

Þá er það svo að Sigurður nokkur Kári rifjar upp á heimasíðu sinni að kommagrýlan er ekki alveg dauð. Honum er nú heldur brugðið enda er kommagrýlan sem hann mætti niðri á Alþingi hvorki skapill, ljót né heldur hefur hún  neitt illt í huga og því síður hefur hún illa snyrt skegg. Nei Sigurður hefur þvert á móti áhyggjur af því að kommagrýlan sem nú er komin fram er skemmtileg, jákvæð, hugmyndarík, vinsæl í skoðanakönnunum, kemur vel fyrir, er málefnaleg, brosmild og er óhrædd við að máta ráðherrabúninga og búning landsföður og fara í diskógalla og lesa Jónas Hallgrímsson og ég veit ekki hvað og hvað.

Kommagrýla nútímans er nefnilega bara mjög flott og til í að taka við stjórn landsins og rétta af ruglið sem núverandi stjórn hefur komið af stað. Og hún er ekkert að þykjast vera eitthvað annað en hún er og þó að Sigurður Kári segi að hún þykist vera græn til að fela sósíalismann þá hefur hún ekkert að fela. Kommagrýlan sem hann talar um er nefnilega í rauninni græn og hún er ekki bara græn, hún er líka rauð og róttæk og skammast sín ekkert fyrir það og það sem meira er, hún er líka bleik og kvenfrelsissinnuð.  Og þegar allt þetta er lagt saman þá gerir þetta hana að flottum valkosti fyrir kosningarnar í vor.

Því er ekki að ástæðulausu sem ég spyr hvort að ég hafi fundið fyrir ótta í skrifum Sigurðar Kára?

Dæmið sjálf með því að kíkja á www.sigurdurkari.is  greinin heitir Fóru Vinstri grænir í litgreiningu.

JB

 


Gleymum ekki afstöðu ríkisstjórnarinnar til innrásarinnar í Írak

Í dag var þess minnst að fjögur ár eru liðin síðan ráðist var í Írak með stuðningi ríkisstjórnar Íslands. Þjóðin var ekki spurð. Minnumst þess að það var ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem studdi innrásina og hafa staðið þétt við bakið á stríðsherrunum.

Í ljósi allrar þeirrar þjáningar sem lögð hefur verið á Írösku þjóðina og lágstéttarkrakkana frá Ameríku sem send hafa verið í stríðið hvet ég alla til þess að greiða þessum stríðsflokkum ekki atkvæði sitt í kosningunum 12. maí næstkomandi.

Maður veit svo sem aldrei upp á hverju þessir Haukar, hvort sem þeir heita Davíð eða Halldór, Geir eða Jón, taka upp á næst. 

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband