12.1.2007 | 22:21
Hvar eru allar bækurnar? Smá pæling um heimsins besta háskóla
Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðunni um metnaðarfull áform háskólafólks um að koma Háskóla Íslands í röð 100 bestu háskóla heims. Ég yrði að sjálfsögðu eins og eflaust allir landsmenn afskaplega ánægður ef HÍ yrði í þeim hópi. Þrátt fyrir að vera ekki í hópi þeirra bestu getum við að mörgu leyti vel við unað því við erum að keppa við mjög öfluga skóla úti í heimi sem hafa margra alda sögu.
Fyrir um 11 árum kom ég heim úr MA námi úr skóla í Belgíu sem var stofnaður árið 1425. Sá skóli er síður en svo sá eini í heiminum sem er svo gamall. Við getum því auðveldlega séð í hendi okkar að skólar sem hafa svo langa sögu hafa mjög mikið forskot á okkur sem við náum kannski ekki endilega á svipstundu. Því yrðum við nokkuð góð ef við kæmumst í hóp 500 bestu á næstunni.
Forskot svona gamalla skóla felst ekki síst í rita og gagnakosti. Ég man þegar ég var nýkomin úr námi að utan og fór í fyrsta sinn í Þjóðarbókhlöðuna, en hún hafði verið tekin í notkun meðan ég var úti við nám. Ég gekk inn og á milli hæða og sá nokkra hálftóma bókarekka hér og þar og mér fannst þetta eitthvað skrítið svo ég vatt mér að starfsmanni og spurði hvar bækurnar væru geymdar. Mér var bent á það sem ég hafði séð. Í sambanburði við bókakost Leuvenháskóla í Belgíu fannst mér þetta afskaplega rýrt. Mér sýndist í fljótu bragði allur sýnilegur bókakostur Þjóðabókhlöðunnar vera svipaður að magni og allur bókakostur bókasafns heimspekiskorar Leuvenháskóla. Eru þá bókasöfn allra annarra deilda þar úti ótalin.
En varðandi það að meta skóla í heild sinni að gæðum og raða upp þá verð ég að viðurkenna að ég skil þetta ekki alveg til fulls. Vissulega eru einhverjir staðlar notaðir en ég held að háskólar sem hafa margar deildir og margar skorir sem eru ólíkar hljóta að vera misjafnar að gæðum. Sérhæfing háskólanna innan greinanna er líka mikil og sem dæmi get ég nefnt heimspeki sem er mín grein. Heimspekin greininst í ýmsar undirgreinar og það er eflaust erfitt að meta hvaða deild er sú besta. Ein kann að vera í hópi 10 bestu deilda í fyrirbæraræði á meðan önnur er á meðal 10 bestu í stjórnmálaheimspeki og sú þriðja best á sviði fornaldarheimspeki og svona mætti áfram telja.
Spurningin sem eftir stendur varðandi Háskóla Íslands er því sú hvort skólinn ætlar sér að verða í hópi 100 bestu skóla í tannlæknakennslu, sagnfræðikennslu, dönskukennslu og öllum hinum greinunum sem kenndar eru auk rannsókna eða ætlar skólinn að einbeita sér að einhverjum ákveðnum sviðum til að ná þessum markmiði þar?
Stundum verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti og taki eitt skref í einu.
JB
11.1.2007 | 20:12
Skólaþrældómurinn
Eftir að hafa kennt í unglingadeild grunnskóla í bráðum sex ár og ekki síst eftir að sonur minn byrjaði í 8. bekk er ég á því að vinnuálag unglinga er mjög oft langt umfram það sem góðu hófi gegnir. Sérstaklega á þetta við um unglinga sem eiga sér eitthvað líf fyrir utan skóla og eru í íþróttum eða tónlistarnámi eða einhverju þessháttar.
Dæmigerð viðvera unglings í 8. bekk grunnskóla svo tekið sé mið af einni stundatöflu er þrjá daga í viku frá kl. 08.05 -14.40, einn dag í viku frá kl. 08.05 - 14.00 og einn dag frá kl.08.05 - 13.10. Síðan er heimavinna og því miður virðast sumir kennarar vera haldnir þeirri röngu hugmynd að gæði kennslu felist í því að leggja sem mest á börnin; það á að lesa stór bókmenntaverk á ýmsum tungumálum, það á að skrifa ritgerðir, vinna vinnubækur, læra málfræðireglur, reikna dæmi ofl ofl og mikið af þessu er gert heima. Að sjálfsögðu eru stífir skilafrestir á þessu öllu saman svo að kennarar hafi nú eitthvað að segja við foreldra í foreldraviðtölunum því ekkert er verra að mati sumra kennarar en að þögnin ein ríki í foreldraviðtölum. Nú svo eru gefna einkunnir fyrir þetta allt saman og sjálfsmynd nemenda mótast síðan smátt og smátt í ljósi þessarar vinnu sem oft þarf að vinna á kvöldin og um helgar nema viðkomandi hætti í tónlistinni eða íþróttunum eða fermingarfræðslunni. Ég læt nú eiginlega vera að tala um kaflaprófin, skyndiprófin, annarprófin, jólaprófin, vorprófin, samræmduprófin og hvað nú þær heita allar þessar mælistikur.
Þegar ég spái í þessa löngu vinnudaga unglinganna þá velti ég því stundum fyrir mér hvaða kennarar það voru í minni skólagöngu sem höfðu mest áhrif á mig. Voru það málfræðifasistarnir sem ætluðust til þess að maður lægi daginn út og daginn inn yfir þurrum málfræðiæfingum eða aðrir álíka verkefnamiðaðir kennarar. Nei, ég satt að segja man afskaplega lítið eftir svoleiðis kennurum. Þeir kennarar sem ég man eftir og hugsa hlýlega til voru þeir sem gáfu mér eitthvað, kenndu mér eitthvað sem hefur gagnast mér án þess að ég eigi auðvelt með að festa hendur á því hvað það var nákvæmlega sem þeir kenndu. Þetta voru þeir kennarar (þeir voru því miður of fáir) sem kenndu "sjálfa sig". Þetta voru þeir sem gáfu af sér með því að gefa sér tíma til þess að staldra við, leggja stundum bækurnar til hliðar og ræða við okkur.
Samræðan er stórlega vanmetin í grunnskólastarfi þar sem ég þekki til, en spyrja má hvernig verða einstaklingar sem aldrei er talað við?
Annað sem ég vil einnig varpa til umhugsunar er hlutur hamingjunnar í skólastarfi. Hversu háan sess fær hamingjan í aðalnámskrá grunnskóla? Ég hef margoft lesið aðalnámskrá gunnskóla og eflaust er einhversstaðar talað um að skólinn eigi að stuðla að hamingju nemenda, en málið er bara það að það fer svo lítið fyrir henni og ef hún er þar þá man ég ekki eftir henni.
Ég hef því verkefni handa ykkur lesendur góðir að fletta upp í aðalnámskrá grunnskóla og finna hvar talað er um að skólinn skuli stuðla að hamingju nemenda. Ljóst er að útúrstressaðir nemendur af vinnuálagi verða seint hamingjusamir. Þvert á móti er því miður of oft verið að ala börnin upp í því að dyggð sé að vera útúrstressaður vinnualki.
En við skulum hinsvegar gá að því að hamingja er það besta sem við sem störfum í skólum getum gefið unglingunum okkar.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Borgarstjórinn okkar er ábyggilega voða góður karl (gamli góði Villi) en hann má eiga það þrátt fyrir alla sína gæsku að vera oft frekar klaufalegur. Í baráttu sinni gegn spilakössum lagði hann það til í sjónvarpsviðtali hvort ekki væri ráð að setja spilakassana út í Örfirisey. Og hvað er svona klaufalegt við þessa hugmynd?
Jú andstaða borgarstjóra gegn spilakössum í Mjóddinni er flott, en það sem mér finnst ekki eins flott er að færa spilaruglið til í bænum þó svo að staðurinn sé ekki beint í alfaraleið. Ég er á þeirri skoðun að spilakassar eigi ekki að líðast í landinu, en nú eru starfræktir 970 spilakassar í landinu.
Ég komst að þessari skoðun þegar ég var í framhaldsskóla og málið var rætt í sálfræðitíma. Þar sagði kennarinn að spilakassarnir væru þannig úr garði gerðir að þeir geta aldrei tapað spili. Er einhver sem vill spila við þá sem aldrei geta tapað? Eftir að ég fór að hugsa spilakassana á þann hátt varð ég mjög andsnúainn þeim, enda fjölmargir sem ánetjast þeim og tapa aleigunni.
Því miður eru ýmsir sem fjármagna starfsemi sína að hluta a.m.k. með rekstri spilakassa og er það mjög vafasöm leið til fjármögnunar. Ég hef t.d. aldrei heyrt um nokkurn mann sem fer í spilakassa eingöngu til þess að styrkja gott málefni.
Háskólinn er ansi öflugur í að efla spilafíkn landsmanna og það er svo merkilegt hversu vafasöm fjármögnun Háskólans er, því skólinn fjármagnar sig ekki bara með eflingu spilafíknar heldur er okkur vesalingunum sem stöndum utan allra trúfélaga gert að greiða okkar "sóknargjöld" til skólans án þess að fá nokkra þjónustu fyrir vikið.
Svo heyrði ég einhverntíman um að SÁÁ sem berst gegn fíkn starfrækti spilakassa. Ég vona að svo sé ekki lengur því ef svo er hver er þá munurinn að reka spilakassa sem gerir út á spilafíkn eða selja brennivín sem gerir út á áfengisfíkn?
En málið verður rætt á laugardaginn kl. 11-13 á fundi hjá vinstri grænum að Suðurgötu 3. Frummælandi verður Ögmundur Jónasson. Allir hvattir til að mæta og taka þátt í skoðanaskiptum um þetta mál.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.1.2007 kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2007 | 22:02
Velferðarstefna borgarstjórnarmeirihlutans í verki
Í kvöldfréttum gat að líta eitt afrek borgarstjórarmeirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í velferðarmálum í verki, en þá var greint frá því að loka þurfti gistiskýlinu við Þingholtsstræti s.l. sunnudag vegna manneklu. Starfsmönnum skýlisins var sagt upp í haust og ekki hefur verið gengið til samninga að nýju.
Þrátt fyrir að sextán einstaklingar sem öllu jöfnu sækja skýlið þurfi að sofa úti á þessum kaldasta árstíma þá segir sviðsstjóri velferðarsviðs málið í eðlilegum farvegi. Já í eðlilegum farvegi og á meðan sofa menn úti í frostinu. Ég teldi nær að kalla þennan "eðlilega" farveg neyðarástand.
Mér sýnist borgaryfirvöld vera komin á býsna hættulega braut með því að bjóða þegnum sínum sem hvergi hafa höfði að halla ekkert annað en götuna, ekki síst eins og tíðin er um þessar mundir. Má ekki segja að hér sé í raun verið að brjóta mannréttindi í ljósi þess að ekki er ljóst hvort menn geti lifað af úti í þessum kulda sem nú er í borginni.
JB
Það var athyglisvert að horfa á þáttastjórnendur Íslands í býtið þau Heimi Karlsson og Sirrý ræða í morgun við Reyni Harðarson um Vinaleiðina svokölluðu. Vinaleiðin er hluti af kærleiksþjónustu krikjunnar og er sumstaðar kostuð af sveitarfélögum og sumsstaðar af einkaaðilum og henni stýra ýmist djáknar eða prestar Þjóðkirkjunnar. Reynir hefur gagnrýnt það að þessi trúarlega þjónusta sem klárlega flokkast sem trúboð skuli fara fram í almennum grunnskólum á þeirri forsendu að trúboð eigi ekki að eiga sér stað í skólum landsins eins og klárlega er kveðið á um í Aðalnámskrá grunnskóla.
Og svo tóku Sirrý og Heimir til við að spyrja Reyni og voru það heldur kostulegar spurningar sem hann fékk og alloft frekar einfaldar og sjálfsmiðaðar. Það eina sem þessum færu fjölmiðlamönnum datt í huga að koma á framfæri var í raun þetta:
1) Sirrý er hvorki skírð né fermd og varð aldrei fyrir aðkasti fyrir það að skera sig þannig úr í skóla. Þar af leiðandi getur það að hennar mati ekki verið satt ef því er haldið fram einhverjir aðrir verði fyrir aðskasti fyrir það að fara aðrir leiðir í trúmálum. Þetta fyrirbæri kallast að sjá ekki út fyrir eigin nafla.
2) Að mati þáttastjórnenda getur ekkert verið rangt við það að bjóða upp á þjónustu í skólum ef það er ekki skylda að þiggja hana hvaða nafni sem hún nefnist. Ég spyr: Eigum við að bjóða upp á hvað sem er í skólum landsins svo fremi sem nemendur geti valið hvort þeir þiggi þjónustuna eða ekki? Svari nú hver fyrir sig, en ég segi að slíkt gengur ekki upp og hversvegna geta nemendur og fjölskyldurnar ekki sótt þessa sálgæslu í kirkjurnar og safnaðarheimilin sem eru í hverju hverfi. Er ekki tími til að söfnuðirnir nýti sitt eigið húsnæði?
3) Meirihluti landsmanna játar kristna trú og skírir börnin sín er þá ekki bara sjálfsagt að trúarleg starfsemi fari fram innan skólanna spurðu þessir eldkláru þáttastjórnendur. Við eigum að halda okkur við það sem stendur í Aðalnámskrá grunnskóla að skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun. Það er ekki gott fyri samfélag okkar að nemendur séu aðgreindir eftir trúar- og lífsskoðunum, við erum öll manneskjur og í skólunum sem öllum er gert að sækja er það samfélagi okkar ekki til framdráttar að flokka nemendur í flokkarna "okkur" og "hina". Burt með aðgreiningarstefnuna sem líðst í skólunum.
Á morgun verður viðtal við séra Jónu Hrönn Bolladóttur um Vinaleið kirkjunnar í skólum og þá er bara að sjá hvort þáttastjórnendurnir verði eins beittir og fúlir og þeir voru við Reyni í morgun. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir myndu strjúka henni með silkihönskum. Við bíðum og sjáum.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (58)
Um helgina hef ég verið að undirbúa undirbúnigsnámskeið fyrir borgaralega fermingu sem hefst núna strax eftir helgi. Þetta er ellefta árið sem ég kenni þetta námskeið. Þegar ég byrjaði 1997 voru 50 þátttakendur, á síðasta ári voru þeir 130 og í ár eru þeir 114.
Borgaraleg ferming á Íslandi hófst 1989 og voru aðstandendur hennar harðlega gagnrýndir. Mjög hefur dregið úr gagnrýninni og þykir mörgum þetta vera jákvæð viðbót við líf landsmanna.
Noregur er það land þar sem borgaralegar fermingar eru vinsælastar, en frá árinu 1951 hafa borgaralegar fermingar tíðkast þar í landi. Þess má geta að fyrrverandi forsætisráðherra Noregs Gro Harlem Bruntland var í fyrsta hópnum þar í landi sem fermdist borgaralega.
Margir spyrja um orðið ferming, hversvegna það sé notað sbr. borgaraleg ferming. Því er til að svara að orðið ferming er dregið af latneska orðinu confirmare sem þýðir að styðja eða styrkjast. Ungmennin sem ákveða að fermast borgaralega eru einmitt með þátttöku sinni í borgaralegri fermingu að styrkja sjálfsmynd sína og siðvit.
Á undirbúningsnámskeiðinu er margt tekið til umfjöllunar sem eflir unga fólkið eins og gagnrýnin hugsun, að vera unglingur í auglýsinga og neyslusamfélagi, samskipti unglinga og foreldra, samskipti kynjanna, skaðsemi vímuefna, um sorg, áföll og dauða, um tilgang lífsins og hamingjuna, siðfræði, efahyggju og ýmislegt fleira.
Það sem er ekki síst ánægjulegt við þetta fyrirbæri er hversu fjölbreyttur hópur velur þessa leið. Unglingar allstaðar að af landinu með mismunandi lífsskoðanir og bakgrunn sameinast í rökræðunni um ýmis gildi og sjónarmið. Þarna skiptir trúin engu máli, sumir tilheyra trúfélögum og aðrir ekki en það sem sameinar þátttakendur er það að vera manneskja. Allar manneskjur eiga að geta sest niður og rætt saman burtséð frá trúar éða lífsskoðunum. Því miður er um þessar mundir hart sótt að grunnskólunum að fara ekki þá leið að allir sitji við sama borð í menntun sinni burtséð frá trúar eða lífsskoðunum. Ofstækisfólk heimtar aðgreiningu þeirra sem eru kristnir og þeirra sem ekki eru kristnir og er þeim kristnu gert mun hærra undir höfði í of mörgum skólum. Það er þróun sem er með öllu ólíðandi.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2007 | 13:23
Nördarnir hafa tekið völdin eða heimspeki "aulahrollsins"
Það er svo skrítið að til er upplifun eða tilfinning sem maður fær stundum en veit ekki alveg hversvegna. Fyrirbæri þetta sem kemur að manni nánast án nokkurs fyrirvara við það eitt að birtast manni er ekki svo óalgengt, en samt er svo erfitt að skilgreina hvað það er og hversvegna það kemur. Ég held samt að mjög margir finni fyrir þessari upplifun einhverntíman á ævinni.
Að undanförnu hef ég verið að upplifa þetta við það eitt að fletta dagblöðunum, enda hefur fyrirbæri þetta minnt á sig á býsna mörgum síðum. En hvað kallast þetta fyrirbæri? Jú þetta kallast "Aulahrollur".
Ef fengist væri við aulahroll í orðabók um hugtök í heimspeki þá mætti ætla að þessi hrollur væri skilgreindur eitthvað á þá leið að hér sé upplifun á ferðinni sem vekur hjá þeim sem verður fyrir honum ákveðna samúð en á sama tíma ákveðna andúð fyrir það að birtast allt í senn hallærislega, kjánalega og fíflalega á þann hátt að sá sem veldur hrollinum verður minni fyrir vikið og rýrir álit almennings á sjálfum sér. Semsagt í stuttu máli aulahrollur verður til þess að fólk fær ekki þá löngum að vilja nálgast þann sem stendur að baki því eða þeim sem veldur aulahrollinum. Á slæmri íslensku myndi maður segja að það sem veldur aulahrollinum sé "nördalegt".
Og hvað er það þá sem hefur valdið þessum aulahrolli mínum að undanförnu? Jú ætli ég sé nokkuð einn um að finna fyrir þessu, en það eru að sjálfsögðu auglýsingar Kaupþings á síðum dagblaðanna af ýmist grenjandi fólki eða brosandi fólki sem hefur misst vinnu hjá KB og er farið að vinna hjá Kaupþingi. Þessi nafna fíflagangur, annarsvegar að valta yfir Kaupfélag Borgnesinga með frekju á sínum tíma sem notuðu skammstöfunina KB yfir í það að hætta að nota skammstöfun þá sem Kaupfélagið hafði er svipað og að horfa á kettling elta skottið á sjálfum sér. Eini munurinn á kettinum og Kaupþingsgenginu er sá að kettlingurinn lætur nægja að skemmta sjálfum sér en Kaupþing hefur þörf til þess að planta nördalegum aulahrolli í alla landsmenn nær og fjær.
Svo í morgum þegar ég sá í Fréttablaðinu að einhverjir klárir eru búnir að skrumskæla þessar auglýsingar Kaupþings á þann veg að fólkið á myndunum grenjar ekki yfir því að hafa hætt hjá KB heldur vegna gríðarlegra skulda hjá bankanum með öllum þeim óheyrilegu vöxtum, okurþjónustugjöldum og færslugjöldum sem bankar innheimta verð ég að viðurkenna að mér var dálítið skemmt.
Þarna voru einhverjir á ferð sem ekki eru sáttir við það að nördarnir stjórni bankaómenningu landsins sem ekki hefur það fyrsta markmið að sinna þjónustu við viðskiptavini heldur heldur uppi egóflippi og græðgi einhverra einstaklinga.
Flott andóf hjá ykkur hver sem þið eruð.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 19:54
Gott að vita að Brad Pitt er slæmur í húðinni
Ég hélt á tímabili að blaðið blaðið væri að verða að einhverju en eftir lestur blaðsins í dag þá er ég eiginlega farinn að efast um að það sé þess virði að sóa þeim verðmætum sem fara í að halda úti blaðinu, en með tilliti til náttúrunnar er allt þetta pappírsflóð vafasamt.
Í dag var heil síða lögð undir "athyglisverðar" fréttir svo vægt sé til orða tekið. Fréttirnar tala sínu máli en þær eru t.d. þessar í stuttu máli:
Schwarzenegger jafnar sig, Brad Pitt er slæmur í húðinni, Paris Hilton fer á sjúkrahús og heimsækir veikt barn, Evangeline Lily er þreytt á athyglinni, Penelope Cruz slappaði af á ströndinni, Julia Roberts á von á sínu þriðja barni svo dæmi séu tekin.
Svo fylgja stórar litmyndir með á heilli síðu.
Ef ég fengi að ráða þá myndi ég kjósa að fjölmiðill eins og blaðið myndi rækta af einhverjum myndugleika umfjöllun um íslenskt samfélag með gagnrýnu hugarfari og minka þessar húð og strandfréttir fræga fólksins. Það vakti nefnilega athygli mín að minnsta fréttin í blaðinu, þessu sama blaði og Paris Hilton var að glenna sig utan í veiku barni á flennistórri mynd, var um tuttugu einstaklinga sem hafa hrakist úr Byrginu eftir að skandallinn kom upp þar. Það eitt hefði mátt fara í saumana á og þá að sama skapi minka myndina af Paris og kannski sleppa fréttinni (eða fresta) um Schwarzenegger.
Rífið blaðið upp úr drullunni, það er ekki þess virði (umhverfisins vegna) að eyða því í annað eins dag eftri dag.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.1.2007 kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2007 | 20:55
Að vera "betri " viðskiptavinur í banka eða tilboð um skuldaánauð
Þessi pistill gæti líka allt eins borið titilinn "Skuldir heimilanna og samfélagsleg ábyrgð banka". Ég ákvað samt að láta þetta með "betri" viðskiptavininn verða ofan á en tilefni þessa er að á milli jóla og nýárs fékk ég fallegt litprentað kort frá banka nokkrum hér í borg sem titlaði mig sem "betri viðskiptavin" bankans og bauð mér skuldir. Það er reyndar alltaf þannig að þegar bankinn er að bjóða mér að skulda þá kallast ég "betri viðskiptavinur". En að öðrum kosti kallast ég ekkert sérstaklega "betri viðskiptavinur".
En það sem bankinn bauð mér var að greiða jólaneysluna á 36 mánuðum. 36 mánuðir, er það ekki sama og þrjú ár? Jú ætli ekki, en í kortinu er þessi gengdarlausa lántaka réttlætt með eftirfarandi orðum: "Þetta er einföld leið til að dreifa jólakostnaðinum á lengra tímabil." Ég myndi nú eiginlega helst vilja kalla þetta tilboð um ánauð eða tilboð um þrælahald og hið mesta ófrelsi.
Það sem er sorglegt við þetta er að eflaust eiga margir eftir að láta blekkjast og þiggja þetta viðurstyggilega tilboð þar sem gefið er í skyn að það sé eftirsóknarvert að skulda. Hvað verður þá eftir ár? Hvað verður um jólaneysluna þá? Bætast þá þrjú ár í viðbót til að greiða þá neyslu? Og hvað með árið þar á eftir og svo framvegis út í hið óendanlega.
Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að banki sem býður slíkt neyslutilboð er ekki að huga að hagsmunum viðskiptavina sinna, enda er það bara bankinn sem græðir. Það græðir enginn á því að steypa sér í neysluskuldir.
Þar fyrir utan er það mjög athyglisvert að bankinn tilgreinir hvergi í tilboði sínu hversu mikla vexti þarf að greiða af þessu 36 mánaða láni.
Ég bara spyr, hver er samfélagsleg ábyrgð bankans í þessu máli? Er það ekki í tísku um þessar mundir að tala um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2007 kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007 | 22:41
Græna tunnan kom í dag
Síðan s.l. haust hef ég ásamt fjölskyldu minni verið að myndast við að gerast umhverfisvænni. Við erum farin að flokka sorp í síauknum mæli og í dag kom "græna" sorptunnan sem við pöntuðum hjá borginni fyrir jól. Að hafa græna tunnu þýðir að hún er tæmd hálfsmánaðarlega í stað vikulega og fyrir vikið er okkur umbunað með lægri sorphirðugjöldum eða rúmum 6000kr í stað rúmlega 12.000 sem greitt er fyrir svörtu tunnurnar.
Áður en við fórum að flokka sorpið hélt ég að það yrði meira mál en svo hefur ekki verið reyndin. Flokkunin hjá okkur er á þá leið að gosdrykkjarumbúðir fara í endurvinnsluna, dagblöð, mjólkurfernur og aðrar drykkjarumbúðir úr pappa er farið með í gáma sem finna má vítt og breytt um borgina og allur lífrænn úrgangur fer í sérstaka tunnu sem keypt var í Blómavali og er ætluð til moltugerðar. Úr því verður síðan þessi fína og næringarríka gróðurmold sem sett er í beðin í garðinum hjá okkur, auk þess sem garðaúrgangur fer í hana líka.
Eftir þessa flokkum er svo býsna lítið í raun sem eftir er til þess að setja í þessa venjulegu sorptunnu. Allt er þetta afskaplega einfalt fyrir utan að vera til fyrirmyndar fyrir náttúruna.
Svo er bara um að gera að nota bílinn enn minna.
Allar aðrar hugmyndir um það hvað maður getur gert til þess að verða enn umhverfisvænni eru vel þegnar.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)