Róttæka jafnaðarstefna eða nýsósíalismi í mikilli sókn

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að samkvæmt könnun blaðsins bætir Vinstrihreyfingin grænt framboð verulega við sig fylgi sé tekið mið af gengi flokksins í síðustu kosnngum. Nú fengi flokkurinn á landsvísu 12 þingmenn en hefur 5. 19,4% svarenda segjast ætla að kjósa flokkinn.

Vissulega ber að taka skoðanakannanir með fyrirvara en hér er ótvíræð vísbending um að flokkurinn er á réttri leið. Það vekur hinsvegar athygli að Samfylkingin sem átti að vera stóri jafnaðarmannaflokkurinn hér á landi er litlu stærri en VG.

Mjög góð málefnastaða flokksins er greinilega að skila sér í góðu gengi, en þær áherslur sem flokkurinn hefur eru vel til þess fallnar að æ fleiri ganga til lið við flokkinn. Má þar nefna örfá mál:

* Atvinnustefnan. Að horfið verði frá stóriðjustefnunni og lögð áhersla á fjölbreytt atvinnulíf þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki verði vaxtarbroddurinn. Hugvitið virkjað.

* Sjálfstæð utanríkisstefna er lykill að velferð þjóðarinnar þar sem við eigum gott samstarf við aðrar þjóðir en grenjum okkur ekki inn í Evrópusambandið og klifum sí og æ á því að krónan sé ónýt eins og formaður Samfylkingarinnar gerir.

* Velferðarstefna. Við höfum verið að horfa upp á það gerast að við erum að hverfa frá hinni svokölluðu norrænu velferðarstefnu sem ríkt hefur og skilað okkur jöfnuði og velferð. Launamunur, græðgisvæðing og óréttlæti er að aukast og við því þarf að bregðast með róttækri jafnaðarstefnu eða  nýsósíalisma að vopni.

* Náttúruvernd og umhverfismál. VG hefur sýnt það og sannað að flokksmenn eru einhuga um róttæka og framsýna náttúrverndar og umhverfisstefnu þar sem áhersla er lögð á að skila afkomendum okkar góðu búi með tilliti til umhverfis og náttúru. Hér skiptast flokksmenn ekki í fleiri en eina fylkingu eins og tíðkast í öðrum flokkum. Hér er einn mikilvægasti málaflokkurinn á ferðinni og VG hefur einn flokka sýnt það að honum er treystandi til þess að láta náttúruna njóta vafans af brölti mannfólksins.

* Jafnrétti og kvenfrelsi. VG hefur á að skipa frábærum einstaklingum, konum og körlum sem vinna saman og telja mjög brýnt að allir fái notið sín í samfélaginu á  jafnréttisgrundvelli. Hér er ekki um orðin tóm að ræða heldur hafa félagar í VG sýnt í verki að jafnréttismálin eru alvöru málaflokkur.

Margt annað mætti nefna sem gerir það að verkum að fylgi VG eykst. En ég minni á að hér er aðeins um skoðanakönnun að ræða og því brýnt að sem flestir gangi til liðs við flokkinn og tryggi honum góða kosningu í vor.

Við sem stöndum að Reykjavíkurfélagi VG hvetjum sem flesta að koma og vera með. Á hverjum laugardegi erum við með svokallaða laugardagsfundi kl. 11-13 að Suðurgötu 3 þar sem ýmis mál eru rædd í hópi góðra félaga.

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Ég held að velgengni VG megi fyrst of fremst þakka skeleggri framgöngu Steingríms Sigfússonar, sem er mun meira traustvekjandi sem foringi en formenn annarra flokka á vinstri vængnum.  Menn treysta Steingrími, þó þeir séu ekki endilega sammála honum. 

Júlíus Valsson, 21.1.2007 kl. 14:51

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sölva- og fjallagrasatekjuflokkurinn VG.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 21.1.2007 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband