Færsluflokkur: Heimspeki

Frábært innlegg Ásbjörns Óttarssonar um listamenn

Í Fréttablaðinu 7. október s.l. var vitnað í Ásbjörn nokkurn Óttarson þar sem hann tjáði sig um listamenn með eftirfarandi hætti:

"Af hverju geta þessir listamenn ekki farið að vinna og komið sér bara í eðlilega vinnu eins og allt venjulegt fólk."

Þessi ummæli hans hafa reynst og eiga eftir að reynast mér afskaplega vel í kennslu minni með fjölmörgum nemendum mínum í heimspeki. Þetta er tilvalið dæmi til að nota þegar nemendur eru æfðir í að móta spurningar. Það hefur verið gefið sterklega í skyn af frönskum heimspekingi sem ég þekki að íslendingar eigi erfitt með að spyrja en séu hinsvegar flinkir í að rífast. Til þess að æfa sig í því að komast að kjarna málsins og spyrja góðra heimspekilegra spurninga er tilvalið að nota ummæli Ásbjörns í  því skyni. Þannig við getum sett upp eftirfarandi verkefni fyrir helgina:

Ímyndaðu þér að þú sitjir í fyrirlestrarsal þar sem umræddur Ásbjörn segir sagt það sem hann sagði og vitnað er til hér að framan. Síðan er komið að fyrirspurnartíma og þá færðu tækifæri til að spyrja hann einnar spurngar út í ummæli sín. Hver er spurning þín. Reyndu að hafa spurningun eins einfalda og kjarnyrta og mögulegt er. Gott ráð þegar heimspekilegar spurningar eru mótaðar er að þær samanstandi ekki af fleiri orðum en 10-15. Kostur getur verið ef spurningar eru styttri.

Og áfram nú hver er þín spurning til Ásbjörns? Skrifist í "Athugasemdir".

JB

 


"Ég grét yfir að vera ekki guð"

Á vef Íslensku óperunnar er að finna stutta grein sem ég skrifaði um söguna Hel eftir Sigurð Nordal í tilefni af því að ákveðið var að sagan yrði færð í búning óperu. Óperan var síðan flutt núna í vor.

Greinin var upphaflega samin til flutnings við undirrituna samstarfssamnings við óperugerðina og má finn hana á eftirfarandi slóð:

http://www.opera.is/category.asp?catID=441

Ég hef lítillega lagfært hana og birtist nýjasta útgáfa hennar hér:

 

"Ég grét yfir að vera ekki guð"

Um tilvistarvanda Álfs frá Vindhæli í sögunni Hel eftir Sigurð Nordal[1]

 

"Hafið þið tekið eftir því, að það virðist vera einhver sérstök áhætta að vera manneskja?" Sigurður Nordal spyr svo í Lífi og dauða sem voru sex útvarpserindi og gefin voru út á bók árið 1966. Sigurður heldur áfram og segir síðan: "En hvað er svo um mannkindurnar? Sumar þeirra eru þegar frá fæðingu vanskapaðar eða fávitar........Meðal þess eru sumir afmyndaðir af óheilbrigðu líferni, sumir sjúklingar á bezta aldri, drykkjumenn, glæpamenn, brjálaðir menn. Þar er fullt af fólki, sem er markað af óláni og óánægju, þótt það hafi allt, sem það vill hendinni rétta."[2]

 

Mér varð hugsað til þessara tilvitnana þegar ég las söguna Hel eftir Sigurð Nordal sem nú hefur verið færð í búning Óperu; fullt af fólki er markað óláni og óánægju þótt það hafi allt sem það vill hendinni rétta, eins og Sigurður sagði. Hér hefur verið dreginn fram einn meginvandinn sem felst í því að vera manneskja.

Söguhetjan í Hel Álfur frá Vindhæli er ein af þeim "mannkindum" svo notað sé orðalag Sigurðar, sem þarf að takast á við þann vanda  sem fylgir því að vera til. Hann fyllist óánægju  yfir hlutskipti sínu og hann vill vera eitthvað annað en hann er og vill fá eitthvað annað en hann hefur. "...er hér ekki nægilegt rúm til alls þess, sem er nokkurs virði, að unnast og biðja, eldast saman og deyja saman?"[3] spyr Una Álf unnusta sinn sem vill hverfa burt úr sveit sinni á vit ævintýranna til þess að freista þess að finna gæfuna.

Álfur skeytir í engu um bón Unu og heldur af stað í leit að gæfunni. Hann hittir marga og í brjósti hans bærast fjölmargar tilfinningar. Hann verður glaður eins og nýfæddur guð, hann verður oft ástfanginn og svo ástfanginn að ekkert skiptir hann meira máli á augnabliki ástarinnar en stúlkan sem á hug hans í það skiptið.

Á slíkum stundum er ekki að undra að Álfur spyrji sjálfan sig að því hversvegna slíkar gleðistundir verði ekki að eilífð.  Líkt og á við allar manneskjur getur Álfur síður en svo verið alltaf í hamingjuástandi þrátt fyrir að hlaupa á eftir gæfunni eins og "...veðhlaupahestur sem hleypur eirðarlaust að marki, sem honum er aldrei ætlað að ná" svo vitnað sé í Sigurð "...marki, sem ef til vill hefur aldrei verið nema hugarburður."[4]

Álfur verður leiður, verður þreyttur, ævintýrin eru skammvinn og hann dylur ekki vonbrigði sín: "Þú ert heimsk eins og indverskt skurðgoð."[5] Segir hann við Dísu sem hann eitt sinn varð svo ástfanginn af.

Og Álfur grét yfir því að vera ekki guð. Hann grét yfir því að geta ekki verið elskhugi tíu þúsund kvenna. Hann grét vegna þess að lífi hans voru takmörk sett af frelsinu sjálfu. Valkostirnir voru of margir. Hann gat ekki valið allt sem hugann girntist. Hann varð að velja á milli kosta. Frelsið leggur þær skyldur á herðar okkar að enginn kemst undan því að velja. Lífið er sífellt val og enginn getur valið allt. Álfur þurfti að horfast í augum við það.

 

Sagan Hel kom út í bókinni Fornar ástir árið 1919. Sigurður Nordal hóf að skrifa söguna árið 1913 og lauk hann við að skrifa síðasta hluta hennar árið 1917. Með þessari sögu birtist ný hugsun í íslenskum bókmenntum. Hér er klárlega um heimspekilega sögu að ræða sem grundvallast á svokallaðri tilvistarhugsun eða eins og sagt er á erlendum málum existensíalískri hugsun. Tilvistarhugsun er hugsun sem fyrst og fremst snýst um manninn og hvað það merki að vera manneskja, hvað einkenni hina mannlegu tilveru.

Löngu síðar eða í útvarpserindum sínum Líf og dauði átti Sigurður eftir að ræða stöðu mannsins á heimspekilegan hátt grundvallaðri á tilvistarhugsun.

Hvað segir Sigurður um það hvað það er að vera manneskja í Lífi og dauða?

Jú það er að hugsa. Hann orðar þetta skemmtilega á eftirfarandi hátt:

 

Við erum og verðum það, sem við hugsum. Við smækkum á því að hugsa um tóma smámuni, verðum flysjungar á hégómlegum hugsunum, nærsýnar skepnur á því að horfa aldrei lengra frá okkur en til þess, sem við rekum nefið í. En við vöxum á hinu, að glíma við vandamál lífsins og tilverunnar, þótt við aldrei getum ráðið þau til neinnar hlítar. Munurinn á vitrum manni og heimskingja er oft alls ekki fólginn í ásköpuðu gáfnafari, heldur í því, að annar stefnir á brattann í hugsunum sínum, en hinn vafrar um í þoku sinnuleysis og verður vinglaður á því að elta skottið á sjálfum sér. Við prettum okkur um mesta ævintýri tilverunnar, ef við látum annir og þys daglegs lífs sífellt skyggja á hin eilífu grundvallaratriði mannlegrar þekkingar og vanþekkingar. Og meira er það hugsun er máttur. Á einni stuttri stundu, sem við horfum berum augum á undur mannlegra örlaga, geta sprottið upp fólgnar lindir í hug og hjarta - og ýmiss konar þekking, sem áður var visin og dauð, orðið lifandi og starfandi þáttur í vilja okkar og breytni. Listin að lifa, hin erfiðasta, nauðsynlegasta og æðsta list allra lista, er framar öllu listin að hugsa, að hugsa frjálslega, af einlægni, djörfung og alvöru.[6]

 

Að vera manneskja er ekki bara að vera hugsandi vera að mati Sigurðar eins og svo vel kemur fram í Hel. Að vera manneskja er að vera frjáls, hafa marga lífskosti sem velja verður úr á degi hverjum. Að vera manneskja er að vera haldinn þránni að vilja vera eitthvað annað en maður er. Að vera manneskja er að hafa tilhneigingu til þess að eltast við gæfuna hvar sem maður telur hana að finna. Og að vera manneskja er að gleyma sér í dagsins önn og uppátækjum lífsins.

Allt reyndist þetta vera hlutskipti Álfs frá Vindhæli. Hann hafði úr mörgum kostum að velja, hann var frjáls. Hann eltist við hamingjuna hvar sem hann taldi hana að finna, hann gleymdi sér í faðmi fríðra kvenna og hann þráði eitthvað annað en hann hafði.

Sigurður segir jafnframt í fyrirlestrum sínum Einlyndi og marglyndi að ef við eltumst við hamingjuna þá flýr hún okkur og því meir sem við eltumst við hana því síður náum við að höndla hana.[7]

 

Vel fyrir 1920 setur Sigurður þessi grunnatriði tilvistarhugsunarinnar á prent. Og vissulega var Sigurður undir áhrifum tilvistarsinnaðra heimspekinga eins og Sören Kierkegaard hins danska og hins þýska Friedrich Nietzsche. En það er athyglisvert að  löngu síðar koma heimspekingar til sögunnar í Evrópu sem eru að tala um sömu hluti og Sigurður hafði gert allnokkru áður. Franski rithöfundurinn Jean Paul Sartre[8] sagði að frelsið og valkostirnir væru það sem einkenndi manninn auk þess sem Sartre sagði það sterkt einkenni mannsins að þrá að vera guð rétt eins og Álfur frá Vindhæli sem grét yfir því að vera ekki guð. Álfur þráði eins og maðurinn í skilningi Sartre að vera hvorttveggja frjáls vitundarvera sem þarf að gefa eigin tilveru merkingu annarsvegar og hinsvegar að vera gæddur fastmótuðum eiginleikum hlutverunar.

 "Maðurinn er það sem hann gerir" var í sem stystu máli skilgreining Sartres á manninum og er hún harla lík skilgreiningu Sigurðar "Maðurinn er það sem hann hugsar".

"Ég er dæmdur til þess að þrá[9]... segir Álfur og annar rithöfundur Albert Camus gerði þá löngun sem birtist í þrá Álfs  frá Vindhæli að  vilja vera eitthvað annað en hann er að umtalsefni í einni af bókum sínum þar sem hann segir mannin vera einu skepnuna sem neiti að vera það sem hún er.[10] 

Enn einn heimspekingurinn Viktor Frankl sagði löngu síðar rétt eins og Sigurður hafði sagt áður að ef maður eltist við hamingjuna þá sleppur hún svo sannarlega frá manni[11] og Martin Heidegger gerði að umtalsefni hvernig maður gleymir sér í dagsins önn, rétt eins og Álfur gerði m.a. í faðmi fríðra kvenna.[12]

Þessir fjórir heimspekingar, Heidegger, Sartre, Camus og Frankl svo aðeins fáir séu nefndir vöktu mikla athygli í hugmyndasögu tuttugustu aldarinnar meðal annars með hugmyndum sem fram höfðu komið hjá Sigurði í sögunni Hel og í fyrirlestrunum Einlyndi og marglyndi allnokkru fyrr eða fyrir 1920.

 

Sigurður hefur öðlast sess í íslenskri heimspekisögu og það verður ekki annað sagt en að heimspeki Sigurðar sé hvetjandi þar sem hann brýnir fyrir mönnum að leggja á brattann í hugsunum sínum, hefja sig upp úr hjarðmennskunni og hann minnir okkur á að lifa: "Lífið er allt, sem þú átt, það hefur þú í hendi þér, gerðu sem mest úr því, hvað sem við tekur."[13] segir Sigurður.

 

Það er mikið fagnaðarefni að með gerð óperu skuli sagan Hel  nú vera komin í sviðsljósið að nýju í íslensku menningarlífi. Svo brýnn er boðskapur hennar til nútímafólks.

Nútímamaðurinn á það til að gleyma sér of oft í hraða samfélagsins og vekur sagan mann óneitanlega til umhugsunar um ýmsar grundvallarspurningar lífsins sjálfs sem öllum er hollt að takast á við: Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu öllu saman? Hvernig lífi er best að lifa? Í hverju felst hið hamingjuríka líf?

Álfur frá Vindhæli er ekkert öðruvísi en hver önnur manneskja nútímans. Hann þráir að vera hamingjusamur eins og við öll. Honum, eins og okkur ferst það misvel úr hendi frá einum tíma til annars. Hamingjuna er erfitt að höndla og hún vill oft sleppa úr greipum okkar. Hann kemst að því að lífið sjálft er ekki með öllu laust við átök og togstreitu.  Hann kemst einnig að því að það er vissulega nokkur áhætta fólgin í því að vera manneskja. En þann lærdóm má draga af skrifum Sigurðar að ef rétt er á málum haldið þá er lífið svo sannarlega áhættunar virði.

 

 

Jóhann Björnsson

 

 

 

[1] Grein þessi er byggð á erindi sem samið var í tilefni af óperugerð sögunnar Hel eftir Sigurð Nordal. Óperuna gerði Sigurður Sævarsson og var hún sýnd í Íslensku óperunni dagana 23. og 24. maí 2009.

[2] Sigurður Nordal, Líf og dauði. Sex útvarpserindi með eftirmála. (Almenna bókafélagið 1966).  S. 17.

[3] Sigurður Nordal, "Hel" í Fornar ástir. (Helgafell 1949, önnur útgáfa) s.98.

[4] Sigurður Nordal, Hel s. 121.

[5] Sama rit s. 106.

[6] Sigurður Nordal, Hel. S. 18.

[7] Sigurður Nordal Einlyndi og marglyndi (Hið íslenzka bókmenntafélag 1986) s. 240.

[8] Sjá í ritum Jean-Paul Sartre, Being and Nothingness, þýð. Hazel E. Barnes (Washington Square Press 1956) og Tilvistarstefnan er mannhyggja, þýð. Páll Skúlason (Hið íslenzka bókmenntafélag 2006).

[9] Sigurður Nordal, Hel, s. 112.

[10] Albert Camus, The Rebel, þýð. Anthony Bower (Penguin books in association with Hamish Hamilton 1953) s. 17.

[11] Viktor Frankl, Leitin að tilgangi lífsins, þýð. Hólmfríður Gunnarsdóttir (Háskólaútgáfan - Siðfræðistofnun 1996).

[12] Martin Heidegger, Being and Time. Þýð. John Macquarrie og Edward Robinson (Harper San Francisco A Division of Harper Collins Publishers 1962).

[13] Sigurður Nordal, Líf og dauði, s. 21.

 


hmm

Ef maður setur þetta fyrirbæri sem ég fann á youtube í tilvistargreiningu (á ensku existential analysis) hvað skyldi þá koma út?

JB


Hvað varð um upprisu holdsins?

Ég er svona típa sem fæ ýmsa hluti á heilann þegar minnst varir. Um daginn var ég á nemendatónleikum í Nýa tónlistarskólanum þar sem frábærir krakkar sýndu listir sýnar á hin ýmsu hljóðfæri. Allt gekk vel þangað til cellóleikari nokkur steig á sviðið. Cellóleikarinn stóð sig vel það vantaði ekki, en einhvern veginn fékk ég þá flugu í hausinn að fara að spyrja sjálfan mig að því hvort celló væri stór fiðla eða hvort celló væri lítill kontrabassi. Ég losnaði ekki við þessa spurningu og þegar fjölskyldan var að keyra heim stóðst ég ekki mátið og spurði upphátt hvort celló væri stór fiðla eða lítill kontrabassi? Konan mín sagði að stór fiðla héti víóla. Þetta bjargaði mér ekki því án þess að hugsa breyttist þá spurningin í það að fyrst að víóla væri stór fiðla er þá celló stór víóla eða lítill kontrabassi? Það var eins og við mannin mælt að málið var rökrætt alla leiðina heim og ekki laust við að pirrings gætti í minn garð af einum fjölskyldumeðliminum.

Nema hvað ég losnaði nokkrum dögum síðar við þessa spurningu úr hausnum á mér þegar vinkona dóttur minnar sagði mér að líklega væri celló bara stór fiðla. Við skyldum ganga út frá því að svo stöddu. Mér var létt, en það stóð ekki lengi.

Ég var staddur í fermingarmessu í dómkirkjunni á hvítasunnudag þegar önnur spurning kom upp og situr nú föst í höfðinu á mér.

Þetta var prýðileg messa, þarna þjónuðu tveir prestar sem fóru með rútínuna sína að mestu stóráfallalaust (rugluðust bara einu sinni á nöfnum fermingarbarna) en voru að öðru leita svona svipaðir í fasi og framkomu og Glámur og Skrámur ef einhver man eftir þeim og töluðu svona soldið við fermingarbörnin eins og umsjónarmenn Stundarinnar okkar hafa gert við börnin undanfarna áratugi. En þetta var samt bara fínt hjá þeim.

En svo kom að því. Söfnuðurinn fór með trúarjátninguna og svo kom að setningunni "upprisa mannsins og eilíft líf" og þá kom spurningin sem ég losna ekki við: Hvað varð um upprisu holdsins og eilíft líf?

Þegar ég var að berjast við að reyna að vera kristinn í sunnudagaskólanum í Keflavík forðum daga var sagt í trúarjátningunni "upprisa holdsins og eilíft líf." Hvað varð eiginlega um þetta holdris sem við krakkarnir lærðum um. Er einhver sem getur svarað því?

JB


Á maður þá ekki að leggja allt traust sitt á guð?

Hér kemur smá pæling fyrir þau ykkar sem hafið áhuga á trúarheimspeki.

Á mbl.is birtist eftirfarandi frétt:

"Túnískur flugmaður hefur verið dæmdur til tíu ára fangelsisvistar eftir að hann lét neyðaráætlun flugfélags síns lönd og leið er flugvél sem hann stjórnaði hóf að missa hæð árið 2005.

Í stað þess að senda út hjálparbeiðni til flugturnsins lagðist flugmaðurinn á bæn. Atvikið átti sér stað um borð í vél flugfélagsins Tuninter úti fyrir strönd Sikileyjar og er rakið til þess að vélin hafi verið við það að verða bensínlaus. 

Flugmaðurinn lenti síðan vélinni á hafi úti fyrir Sikiley en í nauðlendingunni létu 16 af 39 farþegum og áhafnarmeðlimum um borð lífið.

Í dómi yfir manninum segir að hann hafi bæði brotið reglur um viðbrögð í neyð með því að senda ekki út hjálparbeiðni og tekið ranga ákvörðun er hann ákvað að lenda á hafi fremur en að reyna að komast til næsta flugvallar."

 Þetta atvik vekur óneitanlega upp þá spurningu hvort rangt sé að leggja allt traust sitt á guð þegar maður er staddur í vanda? Ef ekki í svona tilvikum hvenær þá í ósköpunum er ástæða til þess að treysta á guð. Það er spurning dagsins.

Gangi ykkur vel að svara.

JB


mbl.is Snéri sér til Guðs en ekki flugturnsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HB Grandi fyrri hluti. Hversvegna er það siðlaust að greiða arð núna til eigenda?

Núna spyr ég ykkur kæru lesendur. Hversvegna er það siðlaust að greiða um hundruð milljón króna arð til eigenda HB Granda?

Vonast ég eftir að sem flestir sjái sér fært að svara í "athugasemdir".

Síðan mun "HB Grandi seinni hluti" birtast á morgun eða í síðasta lagi á föstudaginn.

Góða skemmtun við að svara spurningunni.

JB


mbl.is „Hreinlega siðlaust“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru sigurvegarar í "fegurðarkeppnum" meira fallegir en þeir sem tapa eða minna ljótir?

Nú er nýbúið að krýna ungfrú Reykjavík. Ekki veit ég nákvæmlega út hvað samkeppnin gengur en sumir kalla þessa keppni fegurðarsamkeppni. Athyglisvert að keppa í fegurð ef það er rétt og þá má eflaust færa rök fyrir því að fegurðarkeppnir séu stórmerkilegur heimspekilegur viðburður, enda fagurfræðin ein af greinum heimspekinnar.

 Mér verður hugsað til heimspekingsins Plótínosar þegar rætt er um fegurð en hann hefði eflaust verið fenginn til að dæma í nýafstaðinni keppni væri hann á meðal vor. En um fegurðina segir hann m.a.:

"Fegurðin býr einkum í sjóninni....... Og fyrir þeim sem eru að fikra sig frá skynjuninni upp á við eru lífshættir, athafnir, lundarlag og vísindi líka fögur og einnig fegurð dygðanna......Hvað skyldi nú valda því að við ímyndum okkur að líkamar séu fagrir.......Hvað er nú þetta sem er til staðar í líkömum og gerir þá fagra?......Hvað er það sem hrífur sjónir þeirra sem horfa á eitthvað, snýr þeim og dregur þá að sér og lætur þá njóta sjónarinnar?" (Plótínos Um fegurðina þý. Eyjólfur Kjalar Emilsson Hið íslenzka bókmenntafélag 1999) 

Eflaust er fólk mismunandi fallegt en spyrja má hvað er fallegra við ungfrúna góðu sem kjörin var en annað fólk? Eða er hún kannski ekkert fallegri? Eða er keppnin Ungfrú Reykjavík ekki keppni í fegurð, í hverju felst þá keppnin?

Svo eitt í viðbót. Ég hef heyrt þá lýsingu á Sókratesi að hann hafi verið afskaplega ljótur: "Hann var lítill og feitur með útstæð augu og kartöflunef. En sagt var að hans innri maður væri fullkomlega dýrlegur." (Jóstein Gaarder)

Það er ekki annað hægt en að undrast yfir þessu öllu saman, en eftir stendur samt spurningin: Hvað einkennir fallegar manneskjur?

JB


mbl.is Magdalena Dubik kjörin ungfrú Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimspeki með börnum og unglingum

Ég vek athygli á ráðstefnu sem fer fram næstu daga um heimspeki með börnum og unglingum

PROGRAM

Place: Neskirkja - Meeting house (Safnaðarheimili) (See Neskirkja on the map)

Wednesday, February 25th, 15:00-18:00:
Workshop on teaching philosophy to children  
Teachers:
Ólafur Páll Jónsson
Hannu Jusso

Thursday, February 26th, 15:00-19:00:
Workshop on teaching philosophy to children 
Teachers:
Oscar Brenifier
Brynhildur Sigurðardóttir

 

 

Friday, February 27th: 9:00-16:40
Conference


9:00-9:15 Registration and coffee 

9:20-10:00 Keynote Speaker
Páll Skúlason: The Role of the Philosopher in Public Life 

10:00-10:20 Coffee break

10:20-10:50
Kristín H. Sætran: Facing Insecurity: The Value of Philosophy for Adolescents
10:50-11:20 Ferdinand Garoff and Marianne Airisniemi: Thinking together - Children and Adolescents in Philosophical Dialogue
11:20-11:50 Róbert Jack: Experiments in living
11:50-12:20 Ármann Halldórsson: Action Research on the Socratic Dialogue 

12:20-13:00 Lunch break

13:00-14:00 Discussion / students

14:10-14:40 Oscar Brenifier: Teaching philosophy as a cross-curriculum practice
14:40-15:10 Ariane Schjelderup: How can we make ordinary schoolbooks „philosophical"? 

15:10-15:40 Coffee break

15:40-16:10
Guro Hansen Helskog: Practical philosophy as relationship education 
16:10-16:40 Ieva Rocena: Philosophy in School. Reality and Possibilities 

Saturday, February 28th: 9:00-16:30
Conference

9:00-9:30
Øyvind Olsholt: Philosophy - work or play? 
9:30-10:00 Rósa Kristín Júlíusdóttir: Art-making and doing philosophy
10:00-10:30 Elín Þóra Böðvarsdóttir and Guðbjörg Guðjónsdóttir: Foldaborg

10:30-11:00 Coffee break 

11:00-11:30
Even Næss: Religion, philosophy of life and ethics 
11:30-12:00 Dorete Kallesøe: Philosophy, Religious Education and Citizenship education

12:00-13:10 Lunch break 

13:20-14:00 Keynote Speaker:
Lakshmi Sigurdsson: Plurality, Thinking and Citizenship in Relation to Teacher Education 

14:00-14:30 Ylva Backman: Ethics in school. From moral development to children's conceptions of justice

14:30-15:00 Coffee break 

15:00-15:30
Viktor Gardelli: Ethics in School. A study of the foundation and methods for value communication
15:30-16:00 Diego Di Masi: Educate to citizenship: a dialogical approach in community of inquiry

16:00-16:30 Panel session 


Helgarheimspekin: Þegar gaffall verður tilefni til heimspekilegra pælinga

Fyrir löngu síðan setti ég stundum um helgar heimspekilegar pælingar á síðuna mína sem ég kallaði helgarheimspekina. Þetta var oftast eitthvað sem lesendur gátu spáð í yfir helgina og rætt við vini og kunningja. Ég held að það væri margt vitlausara en að taka upp þráðinn á ný með helgarheimspekina. Og hér kemur heimspeki helgarinnar:

Í vikunni var ég á þorrablóti í ónefndum grunnskóla hér í borg þar sem foreldrar og nemendur komu saman til borðhalds. Maturinn var afskaplega góður og ég fór tvær ferðir til þess að fá mér á diskinn. Við hlið mér sat maður sem ég þekki ekki og hafði hann farið að fá sér ábót stuttu á undan mér. Það gefur því auga leið að hann var fyrri til að setjast aftur. Nema hvað eins og gengur legg ég hnífapör mín frá mér á borðið áður en ég stend upp. Þegar ég kem síðan aftur í sæti mitt finn ég ekki hnífapörin mín. Ég áttaði mig þó fljótt á því að fyrrgreindur sessunautur minn var með gaffalinn minn uppí sér. Hafði hann óvart haldið hnífapör mín vera sín. Ég spyr: "getur ekki verið að þú sért að nota hnífapörin mín?". Jú rétt var það, þannig að ég skrepp bara og sæki önnur.

En þetta atvik vekur upp heimspekilegar spurningar og þá er komið að ykkur lesendur góðir að takast á við gaffalheimspekina. Og svari nú hver eftir bestu getu:

1) Ef þú hefðir verið í sporum þess sem tók gaffal í misgripum frá sessunaut þínum og værir farinn að nota hann myndir þú þá ljúka máltíðinni með þeim gaffli eða myndir þú snúa þér að þeim hnífapörum sem þú notaðir í upphafi og voru við hliðina á diskinum þínum?

2) Ef þú hefðir verið í mínum sporum hefðir þú þá A) Óskað eftir því að sessunautur þinn skilaði gafflinum þannig að þú gætir haldið áfram að borða þar sem frá var horfið? B) Gert eins og ég gerði, þ.e.a.s. náð í ný hnífapör eða C) óskað eftir að fá að nota hnífapörin hans sem hann notaði áður en hann fékk sér ábót og voru á borðinu?

Gangi ykkur vel með þetta.

JB


Hvað vita heimspekingar um þroskaþjálfun?

Undanfarnar vikur hef ég haft í nógu að snúast við að ræða um möguleg hlutverk heimspekinnar innan hinna ýmissu starfsgreina. Fyrir jólin kenndi ég siðfræðinámskeið fyrir starfsfólk leikskóla og núna fyrir ekki svo löngu síðan, á starfsdegi Þroskaþjálfafélags Íslands ræddi ég hlutverk heimspekinnar í störfum þroskaþjálfa.

Í auknum mæli er farið að skoða störf ýmissa starfsstétta út frá sjónarhóli heimspekinnar. Það kann að vera gagnlegt, það getur stundum verið skemmtilegt (burtséð frá allri gagnsemi) og stundum getur það beinlínis verið bráðnauðsynlegt (samanber fjölmög siðferðileg álitamál sem fólk þarf að takast á við í störfum sínum)

Það sem ég ræddi meðal annars og tengist störfum þroskaþjálfa hafði m.a. með afstöðu heimspekinga að gera til fagmennsku, um það að vera manneskja, um rétt og rangt og erfiðleika við ákvarðanatökur og einnig var þeirri spurningu varpað fram á hvern hátt hamingjan kynni að skipta máli, bæði fyrir fagfólk og skjólstæðinga þeirra. 

Stefni ég að því að erindi mitt verði síðar fullskrifað sem grein til birtingar en það verður að bíða betri tíma.

En næsta verkefni er þegar komið á dagskrá um næstu helgi þar sem ég verð með innlegg inn í umræður starfsfólks við menntavísindasvið H.Í. Innlegg mitt kalla ég "En hvað um hamingju barna?" og fjallar um stöðu barna og unglinga í efnahagsþrengingum.

JB


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband