Vel heppnuð barnauppreisn á Seltjarnarnesi og fíflaleg viðbrögð kennarans

Ég verð að játa það að mér finnst unglingar sem hafa skoðanir og eru óhræddir við að láta þær í ljós vera til fyrirmyndar. Í ljósi þess fannst mér fréttin sem birtist í Fréttablaðinu núna föstudaginn 19.janúar af barnauppreisninni á Seltjarnarnesi fyrir jólin vera frábær.

Ungum stúlkum í Valhúsaskóla var nóg boðið þegar þeim var af gert skylt að mæta í kirkju á skólatíma skömmu fyrir jól og mótmæltu. Fyrir þetta fengu þær bágt fyrir frá kennara. Þær létu þennan fávísa kennara um almenn mannréttindi ekki á sig fá heldur tóku til við að safna undirskriftum málstað sínum til stuðnings sem þær fóru með til framkvæmdarstjóra fræðslu og menningarsviðs. Í kjölfar þess boðaði skólastjóri til kennarafundar og varð úr að kenararnir og þá væntanlega sá sem gaf stúlkunum bágt fyrir lögðu niður vopn og játuðu sig sigraða. Framvegis mun sá háttur verða á að nemendur fá val um það hvort þeir fari í kirkju eða verði í skólanum í einhverju öðru.

Faðir einnar stúlkunnar Ólafur Darri Andrason  komst að kjarna málsins í viðtali við Fréttablaðið þar sem hann sagði: "Þær voru þarna nokkrar valkyrjur sem voru ósáttar við að kirkjuferðin væri skylda en ekki valkostur. En þetta gekk ekki út á neina herferð gegn kristinni trú. Þetta gekk út á að  börnin hefðu leyfi til að vera öðruvísi. Í fjölmenningarsamfélagi þarf jú að taka tillit til allra."

Það sem vekur athygli í þessu máli er að allan tímann var rétturinn hjá stúlkunum. Það fer ekkert á milli mála að í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um það að þegar trúarleg málefni eru til umfjöllunar skuli boðið upp á valkost handa þeim sem kjósa að taka ekki þátt. Það er því með ólíkindum  hversu fáfróður skólastjórinn Sigfús Grétarsson er um málið þar sem hann segir að fyrst núna í kjölfar þessa máls verði boðið upp á valkost. Ég dreg í efa að menn sem hafa ekki haft hugmynd um almenn trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasamþykkta eigi erindi í starf skólastjóra. Sama má segja um kennarann sem í frekju sinni gefur stúlkunum bágt fyrir það að fara fram á að almenn mannréttindi séu virt.

Fólk sem hagar sér á þennan hátt getur ekki talist fyrirmyndir unga fólksins því miður.

En stúlkurnar eiga mikið hrós skilið. Flott hjá ykkur stelpur.

Í ljósi þessa hrikalega misskilnings skólastjóra og kennara í Valhúsaskóla læt ég fylgja með valdar tilvitnanir úr Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna:

"Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska."

"Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar."

Gáum að þessu.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Afhverju koma stelpurnar ekki bara í Réttó og fara í samverustund með Jóhanni í staðinn fyrir kirkjuferðina?   Þá hefði ekki orðið neitt vesen og þeir sem voru hjá Jóhanni hefðu fengið meiri félagsskap.

Jón (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 11:21

2 Smámynd: halkatla

þessi frétt var upplýfgandi og þetta eru flottir krakkar - þó að ég persónulega hefði ekki viljað missa af messunni

það sjá það allir að skólayfirvöld áttu ekki að gera svona mál úr þessu, en á öðrum nótum þá mætti athuga að gefa kirkjum og söfnuðum einhver tækifæri utan skólatímans til að kenna börnum sem skráð eru þar, eða sem vilja læra, um trúarboðskapinn

en það er  greinilega ekki mikil fjölmenningarleg meðvitund í gangi hér, fyrst þetta þurfti að verða eitthvað stórmál

halkatla, 20.1.2007 kl. 12:05

3 Smámynd: halkatla

upplífgandi - hehumm -

halkatla, 20.1.2007 kl. 12:06

4 Smámynd: Pálína Erna Ásgeirsdóttir

Heyr heyr!!!!

Pálína Erna Ásgeirsdóttir, 20.1.2007 kl. 12:59

5 Smámynd: Hafsteinn Karlsson

Mér finnst yfirlýsingar þínar um kennarann og skólastjórann ósæmilegar vægast sagt og í rauninni gjörsamlega út í hött. Tal um fáfræði nafngreindra heiðursmanna, að þeir eigi ekki erindi í starf og að þeir séu ekki fyrirmyndir eru ótrúlega miklar ályktanir dregnar af litlum máli.

Hvet þig til að draga þessi ummæli til baka og sýna framvegis varkárni í dómum um menn og málefni á opinberum vettvangi.

Hafsteinn Karlsson, 20.1.2007 kl. 18:10

6 identicon

Þessi pistill er nokkuð góður og sýnir að það eru ekki allir upplýstir þó menntaðir séu. Það sem hann Hafsteinn Karlsson ritar hér fyrir ofan er að því er ég best sé einhver veik vörn fyrir hina menntuðu en samt óupplýstu kennara og skólastjóra. Ég er einn af þeim sem telur sig ekki til menntamanna en er þeim mun upplýstari en margur og hef þurft að berjast fyrir málum fyrir sjálfan mig og haft betur...

kveðja kaldi---     http://www.kaldi.is

Kaldi Stormsson (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 22:57

7 identicon

Hæ við heitum Linda og Rán og vorum í fermingarfræðslu hjá þér í fyrra og hitt í fyrra. Gaman að heyra að þú styður okkur í þessu og við erum ánægðar með viðbrögð sem við höfum fengið við þessu. Við vonum bara að fólk hugsi um það og allir eigi rétt á að vera öðruvísi. Enn má betur gera og við hvetjum alla að bara berjast fyrir sínu. Vonum bara viðhorf fólks breytist eins og hefur gerst í skólanum okkar hjá kennurum og öðru starfsfólki eftir að þau áttuðu sig á fljótfærni af sinni hálfu. Við viljum líka bæta við nokkru sem vantaði í greinina,  að við urðum fyrir aðkasti frá fleiri en einum kennara, reyndar frekar mörgum.

Skólinn sagði að við fengjum kennslu á meðan kirkjuferðin væri en sú varð ekki rauninn. Við þurftum að leyta að kennara því allir voru farnir. En fyrir tilviljun fundum við kennara. Sem fór ekki með því hann var líka mótfallinn þessu. En við erum ánægðar með að nú muni þeir sem fara ekki í kirkjuna fá kennlsu á meðan. Við erum hins vegar ekki ánægðar með að nú þurfi að láta vita með fyrirvara hvort maður fari ekki í trúarlegar ferðir. Okkur finnst bara að það eigi að vera jafn sjálfsagt að maður fari í ferðina eða fari ekki og skólinn eigi bara að hafa önnur úræði fyrir þá sem fara ekki.

Takk kærlega fyrir stuðningin                                                                                                 kveðja Linda og Rán

Linda og Rán (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 20:46

8 Smámynd: Jóhann Björnsson

Takk fyrir stelpur

Þar sem ég kenni í Réttarholtsskóla hafa nemendur fengið að vera öðruvísi og enginn er skyldugur að fara í kirkju frekar en hann/hún vill. Ég hef séð um stutta samverustund fyrir þá nemendur sem ekki vilja fara í kirkju á meðan á kirkjufeðinni stendur og þar hafa verið svona um 12-18 krakkar og við höfum spjallað saman, ég hef sagt þeim sögu, sýnt þeim myndir sem ég hef tekið í framandi löndum og osfrv. Markmiðið hefur bara verið það að eiga góða stund áður en allir fara í jólafrí. En ég get alveg sagt ykkur að fyrst þegar ég stakk upp á þessu þá voru ekki allir sáttir og þurfti ég að að berjast dálítið fyrir því að nemdur hefðu rétt til að velja um krikjuferð eða eitthvað annað. En ég vissi alltaf eins og þið að rétturinn er okkar, enda er trúfrelsi í landinu.

Bestu kveðjur

Jóhann

Jóhann Björnsson, 23.1.2007 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband