Hversvegna eiga þeir sem standa utan trúfélaga að leggja fé til Háskóla Íslands umfram aðra?

Í blaðinu í dag er fjallað um frétt frá Hagstofunni um stöðu þjóðarinnar í trúar - og lífsskoðanamálum. Fram kemur að í landinu eru skráð 27 trúfélög og eru flest þeirra smá og aðeins sex trúfélög telja fleiri meðlimi en 1000. Þetta er í sjálfu sér gott mál og sjálfsagt í lýðræðisríki að fólk geti stofnað félag og fengið það skráð utan um trú sína. Eins og alkunna er tekur hið opinbera að sér að rukka inn lögbundin sóknargjöld fyrir söfnuðina sem notuð eru til þess að reka umrædda söfnuði og veita  meðlimum sínum ýmsa þjónustu og stuðning.

Einn hópur er þó hér á landi sem ekki á kost á því að njóta þessara svokölluðu sóknargjalda. Þetta er hópur sem greiðir þessa lögbundu greiðslu en fær ekkert fyrir þá greiðslu. Þetta eru þeir sem standa utan trúfélaga og eru alls 2,6% þjóðarinnar. Þessu fólki er gert skylt að greiða sín gjöld til Háskóla Íslands í sjóð sem kallast Háskólasjóður og er ekki notaður í þágu þeirra sem í hann greiða.

Hér er freklega brotið á þeim sem kjósa að standa utan trúfélaga og hefur  stjórnmálamönnum ítrekað verið bent á óréttmæti þess að þessi hópur fái ekki notið þessara fjámuna. Þingmennirnir okkar hafa hinsvegar klárlega sýnt þessum hópi mikla lítilsvirðingu og vilja ekki rétta hlut hans enda kannski ekki skrítið þar sem þeir fá iðulega línuna frá biskupi 82% landsmanna áður en þeir ganga til vinnu sinnar.

Norðmenn hafa hinsvegar viðurkennt rétt þeirra sem standa utan trúfélaga og fá þeir sem það gera og eru aðilar að félagsskap sem heitir Human Etisk Forbund að greiða sín gjöld í það félag. Félagið var stofnað árið 1956 og nú hefur það fulla réttarstöðu á við hvert annað trúfélag í Noregi. Það hefur leyfi til þessa að sjá um útfarir og giftingar. Meðlimir þess eru 69.000 og er þetta annað stærsta lífsskoðunarfélagið þar í landi á eftir norsku þjóðkirkjunni. Hjá þessu félagi getur fólk fengið eitthvað fyrir þau gjöld sem það greiðir sem er nú eitthvað annað en það sem við hér á Íslandi fáum. En okkur sem stöndum utan trúfélaga er gert að koma HÍ í hóp 100 bestu háskóla heims með fjármunum okkar.

Hér á landi hefur frá árinu 1989 verið starfrækt félag sem er sambærilegt við hið norska Human Etisk Forbund og heitir Siðmennt. Siðmennt hefur í mörg ár staðið fyrir borgaralegum fermingum og er í bígerð á þessu ári að fara að þjálfa fólk sem getur tekið að sér borgaralegar útfarir. Mun það verða gert í samstarfi við Human Etisk Forbund. Siðmennt hefur lengi barist fyrir því að fá sömu réttarstöðu og trúfélög hafa en stjórnmálamenn hafa verið ófáanlegir til þess að vilja taka undir það réttlætissjónarmið. Vitað er um einstaka stjórnmálamenn sem  styðja málstað Siðmenntar í hjarta sínu en eru of kjarklausir og ofurseldir flokksaganum að þeir láta kjurt liggja.

Þessvegna er lögsókn næsta skrefið.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þrátt fyrir algengan ágreining minn við suma sjálfskipaða talsmenn trúleysingja, hef ég aldrei haldið því fram, að þeir sem standi utan trúfélaga eigi að leggja fram fé til Háskóla Íslands umfram aðra. Þvert á móti hef ég furðað mig á því, hvílíkar rolur þeir hafa verið að reyna ekki að fá sig leysta undan þeirri ójöfnu kvöð í stað þess að velja það sí og æ að hafa uppi áklaganir á hendur Þjóðkirkjunni vegna þeirra greiðslna sem hún fær með eðilegum, réttmætum, löglegum og samningsbundnum hætti.

Jón Valur Jensson, 19.1.2007 kl. 11:20

2 Smámynd: Vantrú

"Þvert á móti hef ég furðað mig á því, hvílíkar rolur þeir hafa verið að reyna ekki að fá sig leysta undan þeirri ójöfnu kvöð..."

Umboðsmaður Alþingis hefur tvívegis úrskurðað í þessu máli og ekkert viljað gera.    Staðreyndin er að "rolurnar" þurfa pening til að fara lengra með málið.

Matthías Ásgeirsson

Vantrú, 19.1.2007 kl. 16:07

3 identicon

Og eruð þið svona óskaplega fá, að þið hafið ekki haft efni á lögfræðiaðstoð og það árum saman, eða hefur eitthvað skort upp á hugsjónina?

Jón Valur Jensson (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 17:04

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Persónulega tel ég einu ásáttanlegu lausnina vera þá að ríkið hætti þessari innheimtu og láti trúfélögin um að innheimta sjálf sín gjöld.  Sá sem ekki hefur áhuga á því að greiða til Siðmenntar eða nokkurs annars trúfélags á að sjálfsögðu að njóta þess í lægri gjöldum.

Millileið væri sú að á skattaskýrslu (lítið mál nú þegar allt er að verða rafrænt) væri reitur sem væri hægt að krossa í og þar sem óskað væri að dregið væri sóknargjald af viðkomandi framteljandi og síðan væri sett nafn eða númer viðkomandi trúfélags.

En að ríkið dragi jafnt af öllum og ráðstafi fé þeirra sem ekki tilheyra neinu trúfélagi er ofríki.  Það ofríki er ekki leyst með því að heimila þeim sem kæra sig um að greiða til Siðmenntar að gera slíkt.

G. Tómas Gunnarsson, 19.1.2007 kl. 18:20

5 Smámynd: Vantrú

Það er stundum magnað að fylgjast með Jón Val.  Trúleysingjar eru miklu fleiri en Kaþólikkar hér á landi, en munurinn er sá að Kaþólska kirkjan fær sóknargjöld allra kaþólikka, ekkert félag trúleysingja fær sóknargjöld.  Trúleysingjar sem vilja styðja Siðmennt þurfa að greiða aukalega.  Það geri ég og fjölmargir aðrir, en þú hlýtur að sjá að þetta er ójafn leikur.

Allt sem við á Vantrú höfum gert gerum við í sjálfboðavinnu.

Matthías Ásgeirsson

Vantrú, 20.1.2007 kl. 18:53

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er enginn að gefa okkur kaþólikkum neitt í sóknargjöld, við borgum þau sjálf. Þið trúlausir getið horft í ykkar eigin barm, að hafa ekki gengið eftir þeim sjálfsögðu réttindum ykkar að þurfa ekki að greiða e.k. "sóknargjöld" til Háskóla Íslands!

Jón Valur Jensson, 21.1.2007 kl. 13:23

7 Smámynd: Vantrú

Jón Valur, ég borga þau líka.  Mikið óskaplega getur þú verið tregur.

Við trúleysingja höfum gengið eftir þeim sjálfsögðu réttindum að þurfa ekki að greiða þetta.  Ég nefndi umboðsmann Alþingis í fyrri athugasemd, við höfum skrifað bréf til alþingismanna og skrifað blaðagreinar.

Jón Valur, hugsaðu áður en þú skrifar athugasemdir.  Það er pínlegt að lesa þessa vitleysu sem þú setur frá þér.

Vantrú, 21.1.2007 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband