Hvernig á grunnskóli í fjölmenningarlegu samfélagi að vera?

Fyrsta tölublað þessa árs af bandaríska tímaritinu Free Inquiry barst mér í gær. Tímarit þetta fjallar um þjóðfélagsmál, heimspeki, trúarbrögð og siðfræði svo fátt eitt sé nefnt. Þeir sem skrifa reglulega greinar eru færir á sínu sviði og má þar t.d. nefna ritstjórann Paul Kurts prófessor í heimspeki, Peter Singer sem einnig er heimspekiprófessor og Richard Dawkins prófessor í náttúruvísindum. Sá síðast nefndi hélt reyndar fyrirlestur hér á landi s.l. sumar.

Í þessu hefti er mikið rætt um vísindasiðfræði en það sem ég ætla að gera að umtalsefni í þessum pistli er nokkuð sem ritstjórinn Paul Kurtz ræðir í grein og við íslendingar þurfum nauðsynlega að huga að, en það hefur með fjölmenningarlegt samfélag að gera og þann siðferðilega grunn sem slíkt samfélag þarf að byggja á.

Eitt af því sem er mest um vert þegar byggja skal siðferðilegan grunn undir fjölmenningarlegt samfélag er hvernig skólarnir og yfirvöld menntamála hugsa þessa hluti. Skólinn á m.a. að undirbúa nemendur undir að verða að ábyrgum borgurum í lýðræðislegu samfélagi sem geta umborið fjölbreytileika mannlífsins. Kurtz ræðir í grein sinni þann skóla sem hann gekk í sem barn og segir hann að þar hafi verið samankomnir m.a. írskir kaþólikkar, enskir mótmælendur, gyðingar, ítalir, þjóðverjar osfrv.  "Við lærðum að búa saman, virða það að við vorum ólík og deila sameiginlegum gildum." segir Kurtz.

En Kurtz heldur áfram og segir að í nútíma bandarísku samfélagi sé mjög hart sótt að þessum fjölmenningarlegu gildum sem felast í umburðarlyndinu og er í síauknum mæli farið að bera á skiptingu samfélagsins í einhverskonar "við" og "hinir" móral þar sem einn hópur reynir að yfirgnæfa annan og troða sínum lífsgildum á hann í stað þess að ákveðið hlutleysi sé virt í samskiptum.

 Þessi reynsla sem Kurtz ræðir úr bandarísku samfélagi þurfum við að hafa í huga ekki síst núna þegar unnið er að endurskoðun Aðalnámsskrár grunnskólans. Hvaða þætti á að leggja áherslu á þegar samskipti ólíkra hópa er annarsvegar? Hvaða nafni á að nefna það siðferði sem leggja skal rækt við, eigum við að kalla það kristilegt siðferði eins og nú er, almennt siðferði eða einfaldlega bara gott siðferði? Þetta er eitt af því sem þeir sem vinna að endurskoðuninni þurfa að ákveða.

Það sem er að mínu mati eitt vandasamasta verkefni þeirra sem eru að endurskoða Aðalnámskrá grunnskóla er það hvernig skuli málum þannig háttað að allir geti vel við unað. Hvernig tekst til við að halda í hávegum ákveðinni virðingu hinna ýmsu hópa sín á milli, fólks af ólíkum uppruna, fólks með mismunandi trúar og lífsskoðanir.

Hvað finnst ykkur? Hvernig á grunnskóli í fjölmenningarlegu samfélagi framtíðarinnar að vera?

Öll sjónarmið vel þegin.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef verið með börn í skólum í Bandaríkjunum þar sem siðferðisuppeldi var mun markvissara en í skólum hér á Íslandi. Það var ekki gert undir formerkjum neinna trúarbragða heldur sett fram sem sjálfsagt og eðlilegt almennt siðferði. Þarna bjuggu kristnir af ýmsum gerðum, gyðingar, trúleysingjar, hindúar, búddistar, múslimar og heiðingjar svo eitthvað sé nefnt og mórallinn var þannig að það hefði aldrei hvarflað að neinum að fara að krefjast þess að skólinn hampaði þeirra trúarbrögðum á kostnað annarra. Slíkt hefði þótt argasti dónaskapur og yfirgangur.

Ég var mjög ánægð með hvernig var tekið á málum þar, sérstaklega í öðrum skólanum sem var fyrir 5-11 ára börn. Þar var mikið notast við aðferð sem kallast "Responsive classroom" og þar er hið siðferðilega og félagslega fléttað inn í hið akademíska þ.a. allan daginn var í raun lögð áhersla á að nemendur sýndu hver öðrum virðingu og tillitssemi, lærðu að vinna saman o.s.frv.: http://www.responsiveclassroom.org/about/principles.html  Skólinn sjálfur var svo með program sem kallað var "Our caring ways" og ýmislegt í kringum það. M.a. voru bókmenntir notaðar í siðfræðikennslu á skemmtilegan hátt: http://www.icsd.k12.ny.us/fallcreek/library/booksandreviews.html

Það er svo sannarlega hægt að gera heilmargt til að efla siðferðisvitund barna án þess að blanda trúarbrögðum í málið. 

Eyja Margrét Brynjarsdóttir (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband