30.5.2009 | 17:34
Ögmundur Jónasson tjaldar í Central Park
Það er ekki hægt annað en dást að hugsjónaeldi Ögmundar Jónassonar. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því sem maður vissi nú reyndar að hann þiggur ekki ráðherralaun á þessu ári þar sem hann hefur sagt að þingfararkaupið sé alveg prýðilegt. Hvenær hefur maður heyrt fólk tala af slíkri nægjusemi þegar laun eru annarsvegar. Þetta brenglaða pakk sem þáði miljónir á mánuði í fjármálastofnunum var næstum því búið að koma því að hjá þjóðinni að það væri bara sjálfsagt og eðlilegt að launamunurinn í samfélaginu væri svo mikill að enginn hefði ímyndunarafl til að skilja muninn.
En nú er semsagt Ögmundur einn af örfáum ef ekki sá eini sem vinnur markvisst í því að rétta af þessa skekkju, þessa röngu hugmynd um launakjör og lífsstíl sem blómstraði árið 2007. Fréttablaðið greinir líka frá því að hann lætur sér ekki nægjusemina í launamálum duga heldur "pakkar" hann sér saman eins og liðugur jógi á meðal almennings þegar hann ferðast með flugvélum. Það er ekkert saga class kjaftæði í gangi.
Í framahaldi af þessum Ögmundartíðindum Fréttablaðsins hvarflar hugurinn óneitanlega til "barnanna sem tóku völdin" í Havana 1958 (athugið að þetta er orðalag sem Jean-Paul Sartre notaði um nýju valdhafana á Kúbu á þeim tíma sökum ungs aldurs þeirra) og heimtuðu afnám misskiptingar og sérhagsmunagæslu. 1960 hótaði hópurinn því að slá upp tjaldbúðum í Central Park þegar þing Sameinuðu þjóðanna var sótt í stað þess að gista á hóteli. Ögmundur tæki sig vel út með grasrótinni í tjaldi í Central Park ef hann þyrfti til New York að fara.
Burtséð frá öllum tjaldpælingum þá ættu samráðherrar hans í ríkisstjórn að taka hann sér til fyrirmyndar. Ef það eru ekki nákvæmlega frábærar aðstæður í samfélaginu núna fyrir ráðherra ríkisstjónarinnar að láta af stofukommúnismanum og fara í Che Guevara stælinn þá veit ég ekki hvenær það ætti að gerast. (athugið að lesa má skilgreiningu á stofukommúnisma í orðabók um slangur eftir Mörð, Svavar og Örnölf sem út kom 1982)
Lifi byltingin.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.5.2009 kl. 21:02 | Facebook
Athugasemdir
Meinarðu að samráðherrarnir eigi að taka upp pyntingar og aftökur án dóms og laga til að ná sínu fram?
Tomas Sigurbjornsson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 19:58
Elsku Tómas
Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur. Hann Ögmundur er nú hið mesta ljúfmenni og færi aldrei að pynta nokkurn mann né dýr og allra síst færi hann að taka fólk af lífi án dóms og laga. Þannig að þú getur alveg sofið rólegur í nótt þó hann sé í ráðherrastóli og aðrir ættu að mínu mati að taka sér hann til fyrirmyndar.
Jóhann Björnsson, 30.5.2009 kl. 21:11
Öll kerfi eru viðkvæm og allar öfgar hættulegar. Góð kerfi sem hafa verið lengi í þróun og mótun þarf að umgangast með nærgætni. Nú er verið að horfa upp á mörg gamalgróin og vel rekin fyrirtæki verða gjaldþrota á nánast engum tíma.
Hver ætli sé ástæðan?
Líklega er það gengdalaus græðgi að stórum hluta. Mikið að fólki sem hefur verið treyst fyrir stjórnun þessara fyrirtækja virðist fyrst og fremst hugsa um eigin hag og taumlaus græðgi segir því að það eigi rétt á þessu eða hinu.
Greiddar hafa verið ótrúlegar upphæðir til útvalda út úr mörgum fyrirtækjum án þess að nokkur hafi getað haft eitthvað um málið að segja.
Hvað ætli séu til margar sögur í þessum anda hér:
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/05/31/milljarda_skuldir_umfram_eignir/
Þar sem vel rekin fyrirtæki hafa verið skuldsett upp í rjáfur og síðan farið með fjármagnið annað.
Þetta er í raun ekki neitt annað en nútímaþjófnaður sem því miður allt of margir hafa tekið þátt í.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 31.5.2009 kl. 09:36
Jóhann. Já Ef svona fólk eins og Ögmundur hefðu stjórnað hér af slíkri hugsjón væri Ísland öðruvíse en nú.
Munum það þegar við erum að kvarta yfir verkum stjórnarinnar í dag.
Ég geri það alla vega.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 31.5.2009 kl. 10:54
Það er gott að hafa ráðherra eins og Ögmund sem sýna þarft fordæma. Það er hins vegar því miður ömurlegt að hafa álitsgjafa eins og þig sem líkja þessu við kúbverska kommúnista sem m.a. fangelsa fólk fyrir samkynhneigð og það eitt að tjá skoðanir sínar.
Ótrúlega smekklaus samlíking hjá þér - og gjörsamlega óskiljanleg þessi Kúbudýrkun í sumum íslenskum vinstrimönnum.
Þessi færsla þín gæti átt eftir að fara lengra og verða þér til háðungar.
ábs (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 12:38
Ögmundur Jónasson er næstum eina greinin eftir á Íslandi sem ekki hefur orðið spillingunni að bráð. Horfa á hans flokkssystkyn, núna í umræðunni, það er sorglegt. Hvað eru margir þingmenn sem eru blandaðir í fjármálaöngþveitið. Þá meina ég þá sem eru vinstra megin?
J.þ.A (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 15:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.