29.11.2008 | 20:09
Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður 29. nóvember 1930. Fátt breyst í 78 ár og erindið enn brýnt
Það var rifjað upp í dag í Fréttablaðinu að þennan dag, 29. nóvember 1930 hafi Kommúnistaflokkur Íslands (KFÍ) verið stofnaður. Ég á stefnuskrá flokksins sem samþykkt var á stofnþinginu og heitir Hvað vill Kommúnistaflokkur Íslands. Til íslenzkrar alþýðu frá stofnþingi K.F.Í. Var stefnuskráin gefin út í lítilli bók árið 1931 í 2000 eintökum sem voru prentuð í prentsmiðjunni Bergstaðasrtæti 19. Brynjólfur Bjarnason var formaður flokksins en Brynjólfur hefur ávallt verið talinn með fremstu heimspekingum landsins.
Það er vel við hæfi að kíkja í stefnuskrána sem að mörgu leiti á enn erindi við íslenska alþýðu sem nú 78 árum síðar þarf að takast á við kreppuna í okkar spillta kapítalíska þjóðfélagi. Kíkjum á boðskap flokksins frá 1930 og könnum hvað kann að eiga við í dag:
"Íslenzka borgarastéttin hefir komið á sérstakri verkaskiftingu í stjórnmálastarfsemi sinni. Hún beitir þessari aðferð með fullum stuðningi og samhjálp sósíaldemókrata, sem eru gegnsýrðir af pólitískri spillingu og hreinræktaðir borgarar." (bls. 17)
Minnir þetta ekki á gamla Alþýðuflokkinn, hækju íhaldsins, siglingu Jóns Baldvins og Davíðs út í Viðey (já það var nefnilega Jón Baldvin sem kom Davíð til valda) og svo hlutverki Samfylkingarinnar í dag sem heldur íhaldinu við völd og jafnframt Davíð Oddssyni í Seðlabankanum. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Stöðugt færist arðrán íslenzkra og erlendra auðmanna í vöxt," (bls. 38)
Bíðið nú við, er þetta að gerast 1930 eða er þetta það sem hefur verið að gerast árið 2008? - Ekkert breyst í 78 ár.
"Vinna verður ötullega að því, að stjórnir verkalýðssamtakann séu skipaðar sönnum verkamönnum og að allir auðmenn, atvinnurekendur og umboðsmenn þeirra séu útilokaðir frá verkalýðsfélögunum." (bls.41).
Einhvernveginn dettur mér formaður VR í hug þegar ég les þetta. Hálaunamaðurinn sem heldur að stéttarfélagið sé bara svo hann einn geti makað krókinn. Auðmannadaðrarinn sem ekki veit hvað orðin virðing og réttlæti þýða. - Ekkert breyst í 78 ár.
"...enda er það ekki hlutverk alþýðunnar, að viðhalda ríkisvaldi auðdrottnanna, heldur hitt, að ráða niðurlögum þess.........
.......Kommúnistar berjast gegn sköttum, eignaskatti, tekjuskatti og útsvörum á verkamenn og efnalitla bændur." (bls. 47-48)
Jú jú minnir á skattamál yfirvalda í nútímanum, ekki má leggja á almennilegan hátekjuskatt heldur skal fólk með lágar- og meðaltekjur borga og halda ríkinu gangandi. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Flokkurinn... berst gegn öllum skólagjöldum í skólum fyrir almenning..." (bls.49)
Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn sem vill skólagjöld er í menntamálaráðuneytinu (neitar skólagjöldum kannski opinberlega en við þekkjum öll úlfinn í sauðagærunni). - Ekkert breyst í 78 ár.
Kommúnistaflokkur Íslands var án efa með framsæknustu stefnu í trúmálum sem fram hefur komið í íslenskum stjórnmálum fyrr og síðar:
"Flokkurinn berst fyrir afnámi allrar trúarbragðafræðslu í skólum og aðskilnaði ríkis og kirkju. Í fræðslustarfi sínu leggur flokkurinn áherzlu á, að uppræta alla trúarhleypidóma úr hugum alþýðu og gera henni ljóst, að trúarbrögðin eru notuð í þjónustu ríkjandi stéttar." (bls. 50)
Sýnt hefur verið að þó öll fræðsla sé af hinu góða einnig trúarbragaðfræðsla þá hafa of margir skólar ekki skilið út að hvað fræðsla gengur og hafa verið alveg á fullu í hörku trúboði og innrætingu. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Flokkurinn safnar alþýðunni til baráttu gegn erlendu auðvaldi og erlendri yfirdrottnunarstefnu og innlendum erindrekum hennar." (bls. 50-51)
Vorum við ekki að fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og því verður ríkisstjórnin að vera eins og hlýðinn hvolpur sem þarf að sitja og standa eins og sjóðurinn vill. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Kommúnistar munu safna verkalýðnum um allt land...til baráttu fyrir hærri launum og betri kjörum undir kjörorðinu: Sömu laun fyrir sömu vinnu. Kommúnistaflokkurinn mun standa í broddi fylkingar í baráttu vinnandi kvenna....(bls. 60).
Enn er langt í land árið 2008 að jafnrétti náist í kjara-og launamálum kvenna og karla. - Ekkert breyst í 78 ár.
Það verður ekki annað sagt en að þetta er bara allrar athygli vert árið 2008.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:23 | Facebook
Athugasemdir
Geturðu ekki líka dregið upp stefnuskrá nasistaflokksins?
Þetta plagg var birt þegar morðæði stalínismans var að hefjast, fræði eins og þessi voru notuð til að réttlæta morð á tugum ef ekki hundruðum milljóna.
Egill Helgason (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 20:39
Ha Jesús minn voru þeir Brynjólfur og Einar morðingjar?????
Jóhann Björnsson, 29.11.2008 kl. 21:10
Nei, en þeir stuttu morðingja alveg fram í rauðan dauðann. Verstu fjöldamorðingja sögunnar.
Egill Helgason (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 21:21
Jahérna hér alltaf er maður að læra eitthvað nýtt. Þetta plagg er þá bara eins og Biblíusögurnar sem heldur betur hafa nú verið notaðar til að réttlæta skelfilega glæpi í margar aldir og ekkert lát þar á. Þetta er ljótt að heyra.
Jóhann Björnsson, 29.11.2008 kl. 23:17
Það var þá kominn tími til að þú lærðir eitthvað "nýtt", Jóhann, þótt þetta hafi reyndar verið órofa þáttur í þekkingu flestra upplýstra í heilan mannsaldur.
Sá Kommúnistaflokkur Íslands, sem þú talar hér um með aðdáun, var samkvæmt sinni eigin stofnskrá einungis deild í Komintern, sem stýrt var af mönnum undir stjórn Stalíns, og mjög eindregnar reglur KFÍ kváðu á um þjónustu hans við valdboð Komintern. Að þú skulir ekki vita þetta, róttæklingurinn þinn!
Einnig þarna kokgleypirðu tímabundnar áróðurslygar kommúnista á Íslandi sem samkvæmar voru línunni sem þeir fengu frá Moskvu. Og þú virðist ekki vita af sveiflunum og þeim tvísaga fyrirskipunum sem bárust með línunni! Og gerir þér að góðu glæpsamlega ófrægingu Stalíns og attaníossa hans á sósíaldemókrötum í Þýzkalandi, þegar mest lá við að mynda bandalag vinstri- og miðflokka gegn nazistaóværunni. Svo sannarlega áttu kommúnistar að standa með sósíaldemókrötum, en brugðust verkalýðnum með hatri sínu á Alþýðuflokknum og bræðraflokkum hans í álfunni.
Og þú, sögulaus maðurinn, lýsir blessun þinni yfir allt þetta! – og gerir þér enga grein fyrir því, að evrópsku kommúnistaflokkarnir (KFÍ meðtalinn) sneru við blaðinu, þegar Stalín gaf út þá tilskipun gegnum Komintern, að mynda ætti breiðfylkingu með krötunum gegn fasisma – en bara of seint.
Flokkurinn, sem þú berð hér lof á, hlýddi Stalín jafnt í blindni, þegar hann fyrirskipaði baráttu gegn krötum og baráttu MEÐ krötum, baráttu gegn nazistum og baráttu MEÐ NAZISTUM. Einar þinn Olgeirsson (ásamt Brynjólfi og H.K.L.) þjónaði líka í þeirri baráttu með Hitlers-Þýzkalandi og gegn "heimsvaldastefnu Breta" um visst tímabil, þ.e.a.s. þangað til ný lína kom frá Moskvu. Og þá heyrði þó KFÍ sögunni til – þetta var að gerast í Sameiningarflokki alþýðu, sósíalistaflokknum!
PS. En Brynjólfur var þó snilldarheimspekingur og skrifaði afar gott íslenzkt mál – það má hann eiga.
Jón Valur Jensson, 30.11.2008 kl. 01:48
Þetta er stríðs- og svikabrigslayfirlýsing í anda þjóðernishyggju uppgangsafla þess tíma 1930 (fasismans) t.d. þetta að auðvald er útlenskt. Hún dregur fram margt af því sem eyðilagði árangur og samstöðu hugsóna Karls Marx. Flest aukaatriði fyrir kjarna hugsjónanna um réttláta janfréttisveröld, veröld öryggis, friðar og hamingju til langrar framtíðar.
Helgi Jóhann Hauksson, 30.11.2008 kl. 13:10
Í heimskreppunni varð stéttarskipting skarpari en fyrr. Atvinnuleysi og fátækt, örvænting og reiði óx til muna.
Kommúnistar stofnuðu deild á Ísafirði 1930 og voru félagar 23. Karítas Skarphéðinsdóttir og Magnús Guðmundsson voru meðal stofnenda. Kratarnir voru við völd þar og þoldu illa starfsemi kommúnista. Þeir þóttu of róttækir, létu mikið á sér bera og voru duglegir að halda verkalýðsfundi. Kommúnistaflokkurinn var fyrst og fremst hugsjónaflokkur. Hugsjón hans var nýtt samfélag án kúgunar og ójöfnuðar.
Karítas var góð ræðu- og áróðurskona, kunni vel að koma fyrir sig orði og flutti mál sitt af einurð og festu. Þótt Karítas væri fátæk hélt hún sig vel í klæðaburði og þegar hún klæddi sig uppá var hún alltaf í upphlut og bar sig vel. Hún barðist fyrir því að verkafólk fengi kaffistofu.
Þá var ort: Ein er gálan gjörn á þras,
gulli og silki búinn,
Kaffiskála-Karítas,
Kommúnistafrúin.
Þorsteinn H. Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 17:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.