Eins og hundeltur indíáni í amerískri "kábojmynd"...eða hjólað í vinnuna

Skyndilega var strætisvagn næstum því kominn í bakið á mér. Ég fann óneitanlega fyrir honum nálgast mig á alltof miklum hraða. Ég hjólaði eins og brjálaður maður til þess að sleppa lifandi úr umferðinni. Á bremsulausu hjólinu (en ég hafði lofað sjálfum mér að láta laga bremsurnar strax í dag) sá ég enga aðra útgönguleið en að reyna að hjóla upp á grasið og vona að ég myndi ekki lenda í trjárunna sem þarna var eða ljósastaur. "Ef ég slepp lifandi undan strætisvagninum þá lofa ég sjálfum mér að láta laga bremsurnar og ég skal aldrei aftur gleyma hjálminum" sagði ég við sjálfan mig (en ég gleymi alltaf reiðhjólahjálminum þar sem svona hjálmar voru ekki til þegar ég byrjaði að hjóla).

Jú mér  tókst að beygja undan strætó og toga í stýrið og lyfta mér upp á grasblettinn og framhjá runnanum og rétt slapp við ljósastaurinn og niður með hælana til að hægja á hraðanum, skítt með það þó það fari illa með skóna. En hvað var ég að pæla....æi þarna er karl með hund í bandi, djö...er þetta langur spotti sem helv....hundurinn er í.....get ég beygt eða verð ég að hjóla yfir bandið????

Jú það er ekki nema vona að spurt sé. En ég var bara að hjóla í vinnuna, ég er bara svona hjólreiðamaður í Reykjavík, ekki hjólreiðamaður sem lætur taka myndir af sér í jakkafötum standandi við hjólið, heldur hjólreiðamaður sem hjólar í vinnuna og svitnar stundum og stefnir lífi og limum í hættu til þess að komast frá A  til B á hjóli. Það er allt og sumt. En með því að nota hjól sem samgöngutæki er maður í stórhættu ekki ósvipað og hundeltur indíáni í amerískri "kábojmynd".

Svona er nú lífið. En ég lenti í stætisvagninum þar sem ég var á leið úr Bústaðahverfinu niður á Laugaveg og sá þessa fínu forgangsakgrein fyrir strætó sem er nýbúið að gera. Ég freistaðist til þess að hjóla á henni þar sem hún var nýlögð á Miklubrautinni í rauðum lit (ég er svona eins og börnin, ég laðast að fallegum litum) svo ég stóðst ekki freistinguna og hjólaði á rauðu forgangsakgreininni sem var ekki búið að opna að fullu fyrir umferð þegar vagninn kom æðandi á eftir mér sem fyrr segir.

Það er greinilegt að átaksþjóðin er ekki lengur í átakinu hjólað í vinnuna því þegar það átak stóð yfir sá ég yfirleitt um 20 hjólreiðamenn á þessari leið minni til vinnu en núna mæti yfirleitt aldrei fleirum en þremur á hjóli á þessari sömu leið. Kannski ekki skrítið að fólk nenni að leggja  það á sig að hafa aðeins gangstéttir til að hjóla á eða stofna lífi sínu í hættu í umferðinni eins og ég gerði í dag með fiflagangi mínum á strætóakgreinini.

En það er alltaf gott að vera vitur eftirá og því spyr ég borgaryfirvöld hversvegna var ekki tækifærið notað fyrst verið var að búa til forgangsakgrein fyrir strætó að breikka aðeins akgreinina til þess að hægt væri að útbúa hjólabraut meðfram Miklubrautinni? Hefði ekki verið ráð að gera það í leiðinni fyrst farið var af stað í framkvæmdir?

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjálminn á hausinn og laga bremsur - STRAX! og í útlöndum eru rauðar akgreinarnar víðast fyrir reiðhjól.  

JóhannaH (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband