25.12.2007 | 13:08
Jólin þegar ég hélt að ég myndi deyja úr kulda (1. hluti)
Úr dagbókinni frá desembermánuði 1984:
"Ég svaf í ullarsokkum. Því var ekki að neita að nokkuð átak þurfti til þess að koma sér undan teppahrúgunni sem ég svaf undir og stíga niður á kalt dúklagt timburgólfið. Það sem einna helst fékk blóðið til þess að streyma hraðar á þessum köldu morgnum var ef lítil mús eða jafnvel litlar mýs sáust hlaupa undan rúminu mínu og skjótast inn í gamlan og gisinn timburvegginn. Einhvernveginn trúði ég því varla að mýs væru þeim eiginleika gæddar að láta sig hvefa inn í veggi þar sem varla var hægt að sjá að nokkurt gat eða rauf væri á. En þær samt sem áður skutust eldsnöggt í átt að veggnum og svo hurfu þær rétt eins og einhver hafi gleypt þær. Tími til kominn að fara á fætur. Pikka laust í fatahrúguna sem var á stólnum, ef vera skyldi að ein leyndist í buxnaskálminni eða í skyrtuerminni. Hrista síðan duglega. Jú öllu var óhætt. Ekki leyndist mús í fötunum að þessu sinni. Það var svo sem engin furða að mýsnar leituðu í hlýjuna í þessu 140 ára gamla timburhúsi þegar frostið átti það til að fara allt niður í 32 gráður.
Jólamánuður var hafinn. Ég var búinn að dvelja í þessari afskekktu sveit í rúma þrjá mánuði. Húsið var hvítmálað timburhús á tveimur hæðum. Moldargólf var í kjallaranum sem var fullur af allskyns drasli. Það var nokkuð ævintýralegt að koma þangað niður. Maður gat ekki alveg staðið uppréttur, þar var mikill eldiviðarstafli fyrir veturinn, kassar fullir af kartöflum og lauk, skíði og snjóþrúgur. Mér var ekkert sérlega vel við að fara þangað niður svona yfir háveturinn þegar kaldast var í veðri þar sem mýsnar áttu sér þar ákveðinn griðarstað, mér brá alltaf svo þegar ég varð þeirra var í myrkrinu þarna niðri. Samt gat ég ekki skorast undan ef ég var beðinn um að skjótast niður til þess að sækja við í eldinn. Allir urðu að leggja sitt af mörkum í þessum búskap.
Allt í kring voru malarvegir sem á þessum tíma árs voru snævi þaktir og fólkið sem hér bjó, hafði sjaldan farið úr sveit sinni og til útlanda, hvernig í ósköpunum átti maður eiginlega að komast þangað spurðu bændurnir með augnaráðinu þegar þeir first hittu mig? Og Ísland, ég var ekki spurður að því hvar það væri heldur hvað það væri. Ég svaraði iðulega á einn veg: Ísland er land, nánar tiltekið eyja sem er hinum megin við Grænland. Jæja já og þar með var málið útrætt. Ekki veit ég hvort fólk vissi hvar Grænland var en ég ályktaði sem svo að fólk hefði hugmynd um hvar Grænland væri. Ekki var ég eskimói og ekki veiddi faðir minn ísbirni þó ég hafi af og til þurft að svara spurningum í þá veru.
Húsbændur mínir voru hjón rétt undir sextugu sem allt sitt líf höfðu alið manninn í þessari sveit. Húsmóðirinn var lágvaxin, góðleg kona ekki ósvipuð þeirri sem móðir mín dreymdi nokkru áður en ég lagði upp að heiman. Bóndinn var hinsvegar grófur karl sem hafði erft jörðina af föður sínum, slitinn af erfiðisvinnu og geðvondari mann hef ég aldrei á ævi minni kynnst hvorki fyrr né síðar. Hann gat átt það til að taka æðisköst og þá var allt ómögulegt, fjölskyldan, skepnurnar, búfénaðurinn og ekki síst útlendingurinn á heimilinu sem þegar hér kom við sögu skildi ekki mjög vel tungumálið sem talað var, þessa gömlu frönsku sem ekki hafði þróast eins og í Frakklandi sem var gamla landið sem geymdi ræturnar, landið sem allir vildu heimsækja þó ekki væri nema einu sinni á ævinni, en flestir létu ekki verða af. Þó gat karlinn átt sína góðu daga og þá lofaði hann guð almáttugan skapara himins og jarðar fyrir það hversu lánsamur hann var að eiga allt það sem hann átti, jörðina sem gaf af sér lífsviðurværið, skepnurnar, fjölskylduna og kynnin við þennan skrítna útlending sem dvaldi á heimili hans.
Bóndinn á næsta bæ þótti nokkuð gamaldags enda var ég sammála því þegar ég sá hann ganga á snjóþrúgum með öxi á öxlinni í átt að nytjaskógi sínum til þess að höggva við í eldinn. Þegar hann hafði hoggið nóg spennti hann stóran og mikinn hest við vagn sinn og sótti viðinn. Auk þess var mér sagt að hann mjólkaði kýrnar í höndum. Það sá ég reyndar aldrei sjálfur en hafði svo sem enga ástæðu til þess að telja það einhverja lygi. Svona var þetta ekki á mínum bæ enda voru menn þar duglegir við að nýta sér nýjustu tækni á borð við dráttarvélar og mjaltavélar. Mér hafði verið sagt að þessi náungi væri dálítið skrítinn, hann var ósköp góður og kurteis og ræðinn en talað var um að hann væri dálítið á eftir eða dálítið seinn eins og stundum er sagt. Hann bjó einn með öldruðum föður sínum sem ég reyndar sá aldrei allt þetta ár sem ég dvaldi þarna. Ég gerði mér í hugarlund að það væri gamall gráskeggjaður náungi sem sæti í ruggustól undir þykku köflóttu teppi og tottaði pípu og biði síns tíma."
Framhald á morgun. Fram að því getið þið reynt að geta ykkur til um í hvaða landi þetta var.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Quebec, Kanada
Greta Björg Úlfsdóttir, 25.12.2007 kl. 14:04
Ég ætla að byrja á að geta upp á því sama og Greta, að þetta sé Québec í Kanada. En, svo í framhaldi af því:
Jóhann, þetta er ekki góð auglýsing fyrir skólann sem þú fórst í. Lýsingar á gistingunni hljóma eins og þetta hafi verið systurskóli Hólavallaskóla og lítið gert í málunum síðan 1820.
En, haltu endilega áfram með söguna á morgun, þetta er góð jólalesning.
Margir eiga sögu af æðardúnssæng eða föðurlandi sem hafi bjargað þeim um þetta leyti árs í löndum sem liggja sunnar á hnettinum. Sjálfur tók ég bæði með mér þegar ég fór út að læra en þurfti bara að nota sængina.
jólakveðja, Sveinki.
Sveinn Ólafsson, 25.12.2007 kl. 14:55
Rétt er það þetta er í Quebec í Kanada. Staðurinn tilheyrir þorpi sem heitir St. Alexandre de Kamouraska en næsti bær sem finnst á mörgum kortum heitir Riviere du Loup. Til frekari fróðleiks var ég skiptinemi á vegum AFS og felst sú skiptinemadvöl fyrst og fremst í menningarlegri reynslu þar sem þátttakendurnir búa inni á heimilum fólks og taka upp þá lifnaðarhætti sem þar tíðkast. Maður velur aðeins einhver lönd sem maður getur hugsað sér að fara til og síðan er það bara hending hvar nákvæmlega eða hjá hvernig fólki maður lendir. Samkvæmt þessu prógrammi ber manni að fara í skóla en skólavist mín þarna var nú heldur lítil og léleg en það voru samskiptin við fjölskylduna sem ég hafði mest upp úr, enda bændafjölskylda og fjölskyldumeðlimir því alltaf heima og höfðu nægan tima til að ræða við mig, kenna mér frönsku fyrir utan handtökin við landbúnaðarstörfin. Þess má geta að ég hef enn í dag mjög gott samband við þessa fjölskyldu, hef heimsótt þau tvisvar sinnum og þau mig einu sinni. Lýsingarnar frá dvöl minni sýna það klárlega að ég náði í síðustu mánuðina af gamla tímanum og ég veit að með nýrri kynslóð sem hefur tekið við búskapnum þarna þá er allt breitt og nútíminn hefur mætt í öllu sínu veldi. Ég segi sem betur fer náði ég í skottið á gamla tímanum því það gerir reynsluna enn dýrmætari. Kem síðan með framhaldið á morgun.
Jóhann Björnsson, 25.12.2007 kl. 16:17
Skemmtileg frásögn
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.12.2007 kl. 03:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.