Hvað á þá eiginlega að gera við kennara sem ekki ástundar kristilegt siðgæði í skólanum?

Margir hafa farið á taugum að undanförnum vegna þess eins að opinskátt hefur verið rætt um skóla-og trúmál. Blaðið 24 stundir hefur farið þar fremst í flokki með því að fullyrða m.a. í útvarpsauglýsingu þar sem blaðið var auglýst að Siðmennt vildi afnema litlu jólin. Í kjölfarið hefur víða blóðþrýstingur hækkað og biskupinn þurft að grípa til orða eins og "hatrömm" þegar rætt er um Siðmennt. 24 stundir láta svo líta út sem allir séu hræddir við að þurfa að fara í fermingarferðalög á laugardegi og sunnudegi. Blaðið er einnig skíthrætt um að nú komi Nýja testamentið ekki sjálfkrafa ofan í skólatöskur barnanna og ritstjórinn sjálfur er skíthræddur um að minnihlutinn fari að kúga og pína hann og aðra þá sem tilheyra meirihlutanum kristna. Ekki má nú heldur gleyma þeim ótuktarskap einstaka leikskóla að nenna ekki að fá til sín vælandi klerka í tíma og ótíma. Og ekki er allt búið enn því þegar lengra er lesið þá kemur rúsínan í pylsuendanum. Kolbrún nokkur blaðakona spyr rétt eins og hún væri Lísa litla í Undralandi hvort það geti virkilega verið að kærleiksboðskapur sé hættulegur. Og síðast en ekki síst ítrekar blaðið sem einu sinni hét blaðið en heitir núna 24 stundir að ráðherra hafi snúist frá tímabundinni (trú)villu sinni og hafi bara verið að djóka með kristnina og fermingarferðalögin. En hvort þetta með að skólinn skuli starfa í anda kristilegs siðgæðis er svo enn að þvælast fyrir fólki, hvað svo sem verður. Enda biskupinn nokkuð "hatrammur" í málinu og vill kristilegt siðgæði inn en út með svona orðalag eins og skólinn skuli starfa í anda umburðarlyndis, jafnréttis, lýðræðislegs samstarfs, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi svo vitnað sé í nýja frumvarpið.

Það er ekki hægt að segja annað en að það sé reglulega gaman þegar málin eru rædd hreint út. Ég er samt dálítið spældur með blaðakonuna Björgu Evu sem hefur verið að reyna ð koma því inn hjá landanum að Siðmennt sé á móti litlu jólunum. Það er félagið nefnilega alls ekki. Jólin og þar af leiðandi litlu jólin eru nú einu sinni upphaflega heiðin hátið þar sem ætlunin er að fagna því að daginn er tekið að lengja á ný. Slíku má eðlilega fagna með skreytingum, jólakortum og kveðjum, góðgæti og jólasveinum, músík og leikritum en ég held að það verði svo sem engum meint af því að slaka aðeins á helgislepjunni sem lengi hefur fylgt Jesú litla á þessum árstíma sem svo fæddist ekki einu sinni í desember!

Eins og allir vita hefur það verið bundið í lög í áratugi að í skólanum skuli kristilegt siðgæði vera upphaf alls og endir. Nú verð ég að gera smá játningu fyrir ykkur ágætu lesendur en ég hef kennt í grunnskóla í bráðum sjö ár og hef svo sannarlega lagt mig fram við að viðhafa ekki kristilegt siðgæði í störfum mínum. Ég hef meira að segja kennt siðfræði og lagt mig fram við að kenna saklausum börnunum ókristilegt siðgæði. Ja mikið hlýt ég að vera vondur maður og lögbrjótur í þokkabót. Ætti ég ekki skilið refsingu (guðs?) fyrir uppátækið?

En hvernig er þetta ókristilega siðgæði frábrugðið hinu kristilega? Jú einfalt dæmi: Vissulega kenni ég börnunum að rangt sé að stela nema brýna nauðsyn beri til, rangt sé að vera óheiðarlegur og ljúga nema brýna nauðsyn beri til og mikilvægt sé að setja sig í spor annarra osfrv. Siðfræðileg rök mín fyrir þessari góðu breytni eru bygð á mikilvægi þess að hér ríki gott samfélagi og að það sé hagur allra að allir breyti vel gagnvart hverjum öðrum því þá líði okkur miklu betur í heildina.

En hvað er þá svona smart við kristilega siðgæðið sem ég hef ekki ástundað með börnunum og sumir eru svo æstir í? Jú ef ég kenndi kristilegt siðgæði þá myndi ég líka kenna börnunum að rangt væri að stela og ljúga og vera vondur. En sem kristilegur siðgæðispostuli myndi ég segja börnunum að það væri rangt vegna þess að guð segir það. Kristilega siðgæðið er nefnilega bara spurning um að hlýða guði en ekki að sýna fram á mikilvægi þess að vera góður fyrir mannlífið í samfélaginu sem við búum í.

Þannig að nú er bara að vona að ritstjóri 24 stunda og blaðakonurnar Kolbrún og Björg Eva fari og auglýsi blaðið með upphrópunum um kennarann sem ástundar ókristilegt siðgæði með börnunum, það myndi ábyggilega selja líkt og Litlu jólin og Siðmennt.

Góðar stundir

JB  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Púkinn er einn þeirra trúleysingja sem er á móti kristinfræðikennslu í leikskólum og grunnskólum - myndi helst villja sjáþví hent út alfarið og almenna kennslu í heimspeki og siðfræði setta inn í staðinn.

Það eru því miður ekki miklar líkur á að af því verði í bráð, en yfirstandandi umræða hefur þó sett þetta mál svolítið í sviðsljósið.

Púkinn, 30.11.2007 kl. 17:28

2 identicon

Ég kenndi í allmörg ár, í nokkrum skólum. Ég sá nú ekki betur en flestir forðuðust að kenna kristinfræði. Ég held að ansi víða sé "frjáls tími" eða eitthvað í þessum meintu kristinfræðitímum. Og mér sýndust bækurnar fyrir unglingana um trúarbrögð heimsins yfirleitt liggja óhreyfðar í samfélagsfræðihillunni, meðan tuggið var ofan í nemendur hvað Aralvatn væri margir ferkílómetrar eða hvað væri helst ræktað á steppum Kazakstans. Það virtist enginn þora að nefna trúmál af ótta við að móðga einhvern. Afraksturinn af þessari viðkvæmni er sá að enginn lærir um trúarbrögð. Nám og kennsla um önnur samfélög er bundin við þurrpumpulegar staðreyndir um landbúnað eða aðra framleiðslu. Svolitla veðurfræði kannski líka. Það vantar allt um andlegt líf fólksins. Ég hefði haldið að það skipti mestu máli. (Víða í útlöndum tengist andlegt líf trú, þótt hér virðist það að mestu bundið við verslun, en það er kannski önnur saga). Þeir sem eru viðkvæmir fyrir því að kennt sé um kristna trú vísa oft til þess að við búum orðið í fjölmenningarsamfélagi. Þá hefði ég nú einmitt haldið að það þyrfti að kenna fjölmargt um alls konar menningu. Af minnu reynslu úr skólakerfinu sýnist mér pólitíska rétthugsunin (rétttrúnaðurinn?) vera að drepa endanlega alla umræðu um ólíka menningarheima. Það fer náttúrulega svoleiðis þegar það má ekki tala um hlutina. Og þegar ekkert nám á sér stað viðhelst fáfræði. Þar með fordómar, tortryggni og óvild. Væri nú ekki nær að fá bara með prestunum fulltrúa frá öðrum trúarbrögðum líka. Og trúleysingjum. Það er ekkert að óttast, þetta snýst bara um að læra um ólíka siði. Er það ekki það sem fjölmenningin þarf til að blómstra?

Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 18:02

3 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Ég hef aðra reynslu en þú Bjarni af kristinfræði kennslu hjá mínu barni. 6-9 ára börnum er kennt að guð hafi skapað heiminn og þar er ekki nein spurning um hlutina. þegar stelpan mín mótmælti og sagði að heimurinn hafi orðið til við Big Bang, fékk hún allan bekkinn á móti sér og kennarann líka.  Þar að auki varð hún að velja að fara með í kirkju fyrir jólin og fá kók og smákökur, eða vera heima. Sáluveiðar á börnum eru bannaðar í öllum siðrænum ríkjum og nýlega féll dómur í mannréttindadómstólnum þar sem Noregur varð að breyta sinni kristinfræði kennslu svo hún standist lögin. Það má endilega kenna um öll trúarbrögð og trúleysi líka. Það má til dæmis láta börnin vita að kristnir séu ekki einir um að upplifa kærleik, það má láta börnin velta því fyrir sér hvort það hafi verið siðferðislega rétt af guði að drepa alla sem voru honum ósammála (Nóaflóðið). Það má kenna þeim um önnur trúarbrögð líka, svo þau haldi ekki að allir sem trúa á kóraninn séu hryðjuverkamenn. Það sem kennsla í kristinfræðum og öðrum trúarbrögðum á að fjalla um er hvað skilur trúarbrögðin að og hvað eiga þau sameiginlegt. Ekki kenna þeim að eitt sé rétt eða fallegt og annað rangt og ljótt.

Ásta Kristín Norrman, 30.11.2007 kl. 18:37

4 identicon

Þetta er náttúrulega vanmeðfarið efni, það á ekki að iðka trúboð eða kenna bókstafstrú. Þetta dæmi þitt Ásta hljómar nú eins og kennarinn stigi ekki í vitið. En það er ófært að tala ekki um hlutina, eins og mér hefur virst að oft sé raunin, það er sjálfsagt misjafnt eftir kennurum og skólum. Að forðast trú og trúarbrögð viðheldur óbreyttu ástandi hvað varðar skilningsleysi á menningu í öðrum hlutum heimsins.

Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 19:42

5 identicon

Vandmeðfarið, ætlaði ég að segja.

Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 19:46

6 identicon

Góður   Ég man það vel úr minni skólagöngu þegar blessaður sóknarpresturinn boðaði að Guð hefði skapað heiminn, gott og vel við trúðum því. Ekki laug presturinn. Beint úr kristinfræðinni var haldið í náttúrufræðitíma þar sem kennarinn tjáði okkur þau             stórtíðindi að heimurinn hefði orðið til með öðrum hætti. Vá, hverjum átti maður að trúa?? Í náttúrufræðinni var okkur kennt að maðurinn væri komin af öpum en í kristinfræðinni stóð að Guð hefði skapað Adam og Evu   Kennsla er sennilega vanmetnasta starf á þessu landi. Hvernig væri að leyfa blessuðum börnunum að heyra allar  kenningar, lika það sem tengist trúmálum  og setja það svo í þeirra  hendur að trúa því sem þau vilja????  Siðmennt eða ekki siðmennt, fermingarfræðsla utan skólatíma eða innan. Skriptir ekki nokkru máli-er satt að segja búin að fá mig fullsadda af þessari umræðu og það fyrir margt löngu   

Jonna frænka (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 00:17

7 Smámynd: arnar valgeirsson

fín færsla hjá þér jóhann. en hvenær fæddist jesú litli??

en bjarni; af hverju þurfa prestar að kenna trúarbragðafræði? það hljóta að vera margir sem kunna sögu trúarbragða, hinna ýmsustu, svona utan prestanna. að öðru leyti er ég sammála þér. eins og td að það megi gjarna kenna fjölmargt um alls konar menningu.

það myndi nú aldeilis hjálpa til eins og staðan er i dag.

en kristinfræði er fræðsla um kristni og ansi hreint einhæf þegar prestarnir kenna hana. right??

arnar valgeirsson, 1.12.2007 kl. 01:09

8 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að kenna börnunum um trú. Þau þurfa af augljósum ástæðum mest að læra um kristna trú, en þau þurfa líka að kynnast öðrum trúarbrögðum. Ég sé samt enga ástæðu til að það þurfi endilega að vera prestar sem kenna þeim um trúmál. Reyndar held ég að það væri betra ef aðrir en prestar kenndu kristinfræði. Ég er ekki hrifin af því að mínu barni sé innrætt kristin trú vegna þess að á þessum aldri, þegar þau eru að byrja í skóla, er mjög auðvelt að móta þau og þau trúa öllu sem þeim er sagt. Ég persónulega skilgreini mig ekki sem trúlausa, frekar sem efasemdarmanneskju, og ég vil að sonur minn fái tækifæri til að ákveða sjálfur hvort hann trúi á okkar Guð eða einhvern annan. Eða á ekki neitt.

Þess vegna er ég á móti trúboði í skólum.

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 1.12.2007 kl. 01:35

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er þetta debatt um Big bang eða Guð? Er þetta ekki debatt um aðskilnað og flokkadrætti trúarbragða og ofbeldi og mismunun, sem heimurinn þarf að líða fyrir kreddukenningar þessara stofnana?

Við vitum ekkert og við eigum að viðurkenna það fyrir börnu um. Við vitum ekki hvort guð er fakta né hvernig heimurinn vvarð til. Eiitt sannar hvorki né afsannar hitt.  Það er sem er og börnum á að vera frjálst að mynda sér skoðun á heimsmyndinni, sem þeim líður best með, þegar þau öðlast þroska til.

Hin góðu gildi eru ekki patenteruð af trúarstofnunum, þau eru manninum í blóð borin. Annars hefði mannkyn aldrei komist á legg. Það sem þú gerir, það færðu til baka. Maður setur sig sjálfan undir dóm með dómum sínum.  Kirkjan hefur hinsvegar gert sig seka um að sá ótta og aðskilnaði með sætubragði kærleikans. Því verður að linna.  Við erum ekki ólæs lengur og ekki er hægt að bera hvaða rökleysu á borð fyrir okkur. Ekkert barn skilur trúarjátninguna. Þeir sem tyggja hana í þau skilja hana ekki heldur og eru útlistanirnar á henni jafn margar og prelátarnir ef ekki fleiri.

Lausnin er einföld. Segjum satt. Hættum að bera á borð lygi í formi staðreynda. Það á við um vísindasamfélagið til jafns við Trúarsamfélagið.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.12.2007 kl. 07:50

10 Smámynd: Ólafur H Einarsson

Ég held að þetta niðurlag þitt undirstriki hvað þú hefur takmarkaðan skilning á viðfangsefninu. 

,,Kristilega siðgæðið er nefnilega bara spurning um að hlýða guði en ekki að sýna fram á mikilvægi þess að vera góður fyrir mannlífið í samfélaginu sem við búum í"

Hvernig hægt er að draga þessa ályktun af lestri Biblíunnar og kærleiksverkum Jesú Krist ?  Þú hefur einfaldlega ratað af veginum.  Ég ætla ekki að fara að vitna í Biblíuna.  Þjóðin ( 90% ) er skírð og hefur hlotið fermingarfræðslu og þekkir kærleiksboðskapinn.  Haltu bara áfram leitinni þinni og ég er þess viss að síðar átt þú eftir að iðrast þessara skrifa þinna. 

Ólafur H Einarsson, 1.12.2007 kl. 11:17

11 identicon

Mjög gott og ígrundað innlegg í umræðuna Jóhann, umræðan hefur því miður verið aðeins of mikið á tilfinningalegu nótunum undanfarið.

Varðandi spurninguna um fæðingardag Jesú þá sá ég einhvers staðar nýlega að maður með því nafni hafi fæðst í janúar (6. jan.?) en það er væntanlega erfitt að staðfesta nákvæman fæðingardag og í rauninni líka fæðingarárið (og jafnvel fæðinguna sjálfa!).

Þórólfur (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 11:30

12 Smámynd: Hilmar Einarsson

Sú hræsni sem borin er hér á borð er allveg dæmigerð fyrir það óskilgreinda gildismat sem sértrúarhópurinn Siðmennt boðar í sinni trúboðskrossferð.  Ég vil leggja fram tvær spurningar.  Hversu miklu eiga börnin að stela í sjoppum landsins til að eiga fyrir sólarbekkjaleigu?  Hvaða reglum mælir pistilshöfundur með til þess að leiðbeina um hvenær eigi að ljúga og hversu mikið á að ljúga.  Er það ekki hið eðlilegsat mál að ljúga til um hlutina þegar það hoppar upp í kauju hjá hverjum sem hvenær sem þegar náttúran kallar (enda vísindalega sannað að þær kenndir séu til)?  spyr sá sem ekki veit. 

Þetta er skýrt dæmi um hræsnina sem virðist einkenna þennan sértrúarhóp.  Kemur svo sem ekki á óvart eftir að maður hefur lesið sig til um hann, svo ekki sé talað um umræðurnar í Íslandi í dag sl. föstudagkvöld.  Þar tók annar viðmælandinn, sem er fulltrúi sértrúarhópsins Siðmenntar, sig sem dæmi um húmanista sem telur sig lifa eftir ákveðnum siðferðilegum gildum, sem falla kannski ekki allveg saman með kristilegum gildum.  

Hilmar Einarsson, 1.12.2007 kl. 11:54

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góð grein hjá þér Jóhann. Ég gat ekki annað en skrifað eigin grein eftir að hafa lesið þína. Hún birtist innan skamms.

Hrannar Baldursson, 1.12.2007 kl. 12:45

14 identicon

Heill og sæll, Jóhann og aðrir skrifarar !

Hygg; að þú hefðir getað svarað spurningu þinni sjálfur.

Einfaldlega; reka þá kennara alla, hverjir brjóta vilja upp aldagamlar hefðir okkar menningar, og þjóðararfs !

Svo einfalt, er það Jóhann minn ! Þjóðerni okkar hefir aldrei verið eins mikils virði, sem nú, í ölduróti kapítalízku alþjóða  hyggjunnar og frjálshyggju ósómans.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 14:37

15 Smámynd: Sigurður Rúnar Sæmundsson

Hvar lærðir þú um kristilegt siðgæði, Jóhann ? Mér heyrist þú snúa flestu á hvolf. Hættan sem þú setur börn og unglinga í sem þú kennir siðfræði er, að mínu viti sú, að þú kennir þína eigin siðfræði . Það sem þér fynnst hljóma vel af munni, og sem hentar þér hverju sinni. Mér heyrist þú kenna nemendum að bera sinn hag alltaf fyrst og fremst fyrir brjósti. Mér fynnst einnig bregða fyrir ofstæki gagnvart fólki sem aðhyllist kristna trú, og vill lifa samkvæmt henni. Ég ætla ekki á þessum vettvangi að rökræða trúna sem slíka, en mig langar að velta þeirri spurningu upp, að ef langstærstur meirihluti viðskiptavina skólanna kýs að uppfræða börn sín um kristin gildi, hvaða ofbeldi og yfirgangur er þá að bjóða upp á þig sem siðfræðikennara, eða bara kennara yfirleitt ?

Sigurður Rúnar Sæmundsson, 1.12.2007 kl. 14:53

16 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Jóhann flott færsla...

Sigurður Rúnar, heimspeki er ævagömul og mikið eldri kristni. Þar ríkja siðareglur og gott siðferði er ekki í einkaeign kristinnar kirkju! Í faramhaldi af "viðskiptavina"rökum þínum, er í beinu framhaldi rétt og sanngjarnt að spyrja um hvort einokunaraðstaða ríkiskirkjunnar á skattpeningum allra landsmanna fái þá staðist???

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 1.12.2007 kl. 17:01

17 identicon

Kristilegt siðferði er að setja uppskáldaðar þarfir ímyndaðara guða ofar þörfum manna, basically er verið að setja yfir okkur ímyndaðan einræðisherra sem er geggjað góður svo lengi sem allir gera það sem hann vill, ef við gerum það ekki þá pyntar hann okkur 4ever.

Hvernig er mögulegt að sjá eitthvað gott út úr dæminu jafnvel þó Jesú hafi komið til þess að bæta álit fólks á föður sínum sem gekk berserksgang um allan heim svo lengi

DoctorE (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband