1.11.2007 | 21:44
Tatjana Latinovic fékk húmanistaviðurkenningu Siðmenntar fyrir störf að mannúðar- og mannréttindamálum
Í dag veitti Siðmennt í þriðja skipti húmanistaverðlaun sín sem veitt eru fyrir störf að mannréttinda - og mannúðarmálum. Fyrir tveimur árum hlutu Samtökin 78 viðurkenningu fyrir störf að réttindamálum samkynhneigðra og á síðasta ári hlaut Ragnar Aðalsteinsson lögmaður viðurkenninguna fyrir störf að mannréttindamálum. Í ár ákváðum við í stjórn Siðmenntar að veita Tatjönu Latinovic árlega húmanistaviðurkenningu fyrir störf sín að mannúðar- og mannréttindamálum.
Tatjana Latinovic er vel að þessari viðurkenningu komin þar sem hún hefur í mörg ár starfað að mannúðar - og mannréttindamálum t.d. sem formaður í stjórn félags kvenna af erlendum uppruna, í stjórn Kvennaathvarfsins og í stjórn Alþjóðahúss. Einnig hefur hún unnið að málefnum flóttamanna hér á landi. Hún vann einnig á vegum Rauða krossins á stríðssvæðum í Bosníu.
Athöfnin í dag sem haldin var Tatjönu til heiðurs á Kaffi Reykjavík var falleg. Formaður Siðmenntar Hope Knútsson flutti stutt ávarp og afhenti Tatjönu viðurkenninguna og tvær bókagjafir og Hörður Torfason flutti tvö lög. Tatjana er svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu komin.
Til hamingju Tatjana Latinovic.
Einstaklingar, félagasamtök eða aðrir sem hafa lagt talsvert af mörkum í þágu mannréttinda á Íslandi eiga möguleika á að hljóta viðurkenninguna. Stefna húmanismans birtist m.a. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna en í stefnuskrá Siðmenntar segir m.a.:
Siðmennt reynir að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.
JB
Tatjana Latinovic fékk húmanistaviðurkenningu Siðmenntar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.