6.10.2007 | 11:27
Kettir eru þá matreiddir eftir allt saman
Þegar ég skrifaði um síðustu helgi pistil um ímyndaða fjölskyldu sem át köttinn sinn hvarflaði ekki að mér að aðeins örfáum dögum síðar ætti ég eftir að lesa leiðbeiningar um hvernig matreiða skuli ketti. Þetta gerðist samt í gær þegar ég fletti Blaðinu, en á bls. tvö er sagt frá því að í tímaritinu INN eru leiðbeiningar um það hvernig skuli verka og matreiða ketti.
Verkunin og eldamennskan sem slík vekur ekkert sérstakan áhuga minn enda færi ég seint að borða hana Doppu mína sem grunlaus um skrif mín núna sefur í sófanum á móti mér. Það sem hinsvegar vekur sérstakan áhuga minn á þessari kattaáts og kattaeldamennskuumræðu eru viðbrögð fólks. Fyrir okkur sem höfum áhuga á manneskjunni sem slíkri eru pælingar í viðbrögðum fólks afar skemmtilegt viðfangsefni. Um síðustu helgi mátti lesa í athugasemdum við færslu mína mjög mörg og áhugaverð viðbrögð, þar mátti finna sannar geðshræringar og þar mátti finna kaldhæðni og nánast allt þar á milli. Þar mátti meðal annars finna efasemdir um að ég gæti talist hæfur kennari unglinga.
Í Frétt Blaðsins um eldamennskuna mátti einnig finna athyglisverð viðbrögð fólks sem Blaðið leitaði til um álit á málinu. Rætt var við Áslaugu Jónsdóttur og Sigurborgu Daðadóttur. Viðbrögð Áslaugar voru á þessa leið:
"Þetta er algjör viðbjóður. Ég er með þrjá hunda og ég hélt að ég myndi alveg brjálast þegar ég las þetta. Þetta er bara ofbeldi gegn dýrum. Kannski á þetta að vera eitthvað grín, en mér finnst þetta ekki grín."
Síðan er tekið fram að Áslaug hefur sérstakar áhyggjur af því ef börn komist yfir þessar leiðbeiningar um verkun og eldun katta "því þeim getur dottið allt í hug þessum börnum."
Þessi viðbrögð Áslaugar eru einstaklega áhugaverð og sýna okkur klárlega hvernig umhverfi okkar og annað fólk hefur áhrif á líf okkar, tilfinningar og líðan sbr. orð hennar "ég hélt ég myndi brjálast". Og ekki síst hvernig hún óttast áhrifin af uppskirftinni í blaðinu INN á börn, en hún hefur af því sérstakar áhyggjur að börn geti komist í uppskriftina "því þeim getur dottið allt í hug þessum börnum." Ef börn með sérstakan áhuga á eldamennsku færu að matreiða sína eigin heimilisketti þá bæri það án efa vott um mikla áhrifagirni en að sama skapi gríðarlegan frumleika. Uppskriftin hefði þá áhrif og hvetti til eldamennsku og frumleikinn fælist í því að hér á landi hefur það aldrei tíðkast að elda ketti og því væri um eitthvað nýtt að ræða.
En í ljósi þessara orða Áslaugar um börnin þá geta lesendur velt því fyrir sér hvort ástæða sé til að banna þetta hefti tímaritsins INN börnum vegna hættu á að heimiliskettirnir enduðu inni í ofni? Það væri gaman að fá viðbrögð við þeirri pælingu.
Svo eru einnig fengin viðbrögð frá Sigurborgu Daðadóttur dýralækni sem hélt að umrædd uppskrift væri spaug. Þau viðbrögð fá mann til þess að velta fyrir sér eftirfarandi spurningu: Hvernig veit maður hvenær verið er að grínast og hvenær ekki?
Ég man sjálfur eftir því að hafa lengi fylgst með gríni sem ég hélt að væri alvara. Ég var nýfluttur til landsins frá Belgíu og hafði ekki hugmynd um hverjir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson voru. Þeir félagar voru með stutta grínþætti sem fjölluðu um hegðun, atferli og framkomu í sjónvarpinu. Í allnokkurn tíma hélt í alvöru að þeir væru sálfræðingar að ræða í alvöru um hegðun og atferli. Mér þótti þeir nokkuð undarlegir sálfræðingar en um tíma hvarflaði ekki að mér að um grín væri að ræða.
En Sigurborg ræðir kattamatseldina ekki lengi á forsendum grínsins heldur skellir sér í blákalda alvöruna og minnir á að ef það er ekki til þess bær maður sem aflífir köttin þá er um lögbrot að ræða. Þannig að hún minnir okkur á að fá þó allavega mann með tilskilin réttindi til að aflífa dýrið ef við ætlum okkur að taka mataruppskriftina í tímaritinu INN alvarlega.
JB
Athugasemdir
Hefur fólk ekki einnig verið etið?
Guðrún Magnea Helgadóttir, 6.10.2007 kl. 17:45
En hvað með kanínur? Eru þær á gráu svæði eða er það sama ofbeldið? Það er eitthvað um það hérna á klakanum að fólk eigi kanínur sem gæludýr.
Að kettir séu algengt gæludýr hér á landi er engin afsökun fyrir þvi að banna matreiðslu á þeim (eða uppskriftir), svo lengi sem eignarréttur yfir gæludýrum er virtur. Mér finnst einu marktæku rökin gegn áti á vissum dýrategundum vera útrýmingarhætta, ekki tilfinningar fólks gagnart þeim.
Annars á ég sjálfur kött og þykir mjög vænt um hann, en það er ekki sanngjarnt af mér að blindast af slíku og krefjast þess að það sé bannað að matreiða þá.
Geiri (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 18:01
Hver er Áslaug? og hversvegna var rætt við hana?
Missti af því.
Mér hlýnar um hjartarætur að sjá hversu málefnalega dýralæknirinn tekur á þessarri spurningu með því að benda á lagalegu hlið málsins og það beri að fá til þess bæra aðila til að aflífa dýrið. Góðri menntun hefur ekki sóað á þessa glöggu konu. Við viljum geta treyst læknum til að hugsa rökrétt í erfiðum að aðstæðum og taka ákvarðanir sem geta ráði dauða eða lífi lifandi vera (manna og dýra) Ritstíll greinarinnar sem fjallað var um í Fréttablaðinu var slíkur að erfitt var að trúa öðru en að um grín væri að ræða.
Ef maður trúir að köttur hafi níu líf þá....... :)
Sævar Finnbogason, 6.10.2007 kl. 23:28
Ef það er varasamt að láta börn og unglinga komast í uppskriftir um matreiðslu á köttum þá tel ég stórvarasamt að sýna sveitabörnum uppskriftir af gómsætum lambalærum. Þau gætu tekið heimalinginn............!!!!!!
Þessi sveitavargur étur allt sem að kjaft kemur!!!!!!!!
Hins vegar er ég á því að hundar, kettir og rottur séu það ofarlega í fæðukeðjunni að það sé hreinlega ekki hollt að leggja þau sér til munns (meiri uppsöfnun eiturefna úr náttúrunni). Það er ástæðan fyrir því að heimiliskettir og hundar þurfa ekki að óttast eigendur sína með sama hætti og heimalingurinn.
Kristjana Bjarnadóttir, 7.10.2007 kl. 12:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.