16.9.2007 | 15:10
Þegar heiminum er snúið á hvolf. Eða hvernig er hægt að vilja ekki vinna besta starf í heimi?
Auglýsingar frá ÍTR hafa vakið athygli mína að undanförnu. Besta starf í heimi er auglýst laust. Besta starf í heimi að mati auglýsenda er starf í frístundaheimilum ÍTR. Óneitanlega er hér viðfangsefni heimspekinnar að fást við. Því eðlilegt er að spyrja hvað það þýði fyrir starf að vera best. Hvernig störf eru ömurleg, slæm, góð osfrv? Og hvernig veit maður hvaða starf er besta starf í heimi eins og það er orðað í auglýsingunni? Einnig má varpa fram þeirri spurningu hvort það sem er gott og ég tala nú ekki um það sem er best í heimi, sé ekki mjög eftirsóknarvert? Getur verið að manneskjurnar séu þannig úr garði gerðar að þær forðist það sem er best og sækist frekari í það sem er síðra og jafnvel sækist í það sem er verst? Ef mark er takandi á auglýsingum ÍTR má auðveldlega álykta sem svo. Ef mannfólkið teldi það sem er best í heimi vera eftirsóknarvert þá þyrfti væntanlega ekki að auglýsa besta starf í heimi eins mikið og gert er.
Þetta var nú bara svona pæling. Annars hef ég ekki mikið vit á svona málum hvenær störf eru best eða ekki best.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:14 | Facebook
Athugasemdir
Sem fyrrum starfsmaður frístundaheimila ÍTR verð ég að vera fullkomlega sammála þeirri fullyrðingu að þar sé um besta starf í heimi að ræða. Að vinna með börnum er svo ofboðslega gefandi, og hvar annarstaðar getur maður eins uppgötvað barnið og leikgleðina í sjálfum sér?
Galli er hinsvegar á gjöf Njarðar. Það er bara boðið upp á hlutastarf og það er mjög illa borgað. Svo illa að einhleypur drengur um tvítugt átti mjög erfitt með að halda sjálfum sér uppi. Hvað þá fólk með fjölskyldur! Nú er ég í öðru starfi, svosem ekki slæmu, en mun betur borguðu. Vandamálið er bara það að þú lifir ekki á skemmtun og lífsgleði. Ekki alltént á Íslandi, sem óðum er að verða kapítalískasta sósíal-demókrata samfélag í heiminum.
Ingimar Björn Davíðsson, 17.9.2007 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.