Sjónvarp Símanns virðist vera komið í lag eftir fimm mánaða rugl. Framhald frá 8. og 9. september

Eins og fram kemur í síðustu tveimur færslum hefur ýmislegt gengið á í að fá Sjónvarp Símanns til að virka. S.l. sunnudag sendi ég færslu mína frá 8. september til Símanns og óskaði eftir úrbótum eftir miður góða þjónustu s.l. fimm mánuði. Og viti menn tæpum þremur dögum seinna eða s.l. miðvikudag gat ég ekki séð annað en að útsendingarnar hjá Sjónvarpi Símanns hér heima hjá mér hafi verið komnar í lag.

Ekki hef ég hugmynd um hvað þeir hjá Símanum gerðu, ekki voru símalínurnar ónýtar og ekki reyndist sjónarpið mitt ónýtt eins og tveir tæknimenn þeirra höfðu reynt að telja mér trú um.

Það sem ég held að ég hafi gerst var það að þeir hjá Símanum urðu skíthræddir. Það er ekki beint gaman að vera í "bisness" og fá síðan birta opinberlega færslu eins og ég birti þann 8. september s.l. Það er hreint og beint bara neyðarlegt. En þeir verða að horfast í augu við það að þetta var það eina sem dugði til þess að fólkið þarna hjá Símanum færi að vinna vinnuna sína. Ég hafði engin önnur ráð, það er þeirra stærsti vandi.

En því miður Síminn er ekki eina fyrirtækið sem selur þjónustu sem og veitir hana ekki nema neytendurnir fari að vera með leiðindi, hótanir og birti drulluna sem boðið er upp á opinberlega.

Neytendamál og þjónusta hér á landi er almennt dapurleg. Við neytendur þurfum að vera mun grimmari gagnvart þessum fyrirtækjum eins og Símanum sem eru að rembast við að mála einhverja slepjulega glansmynd af sjálfum sér en eru síðan ekkert nema lúðagangurinn, svikin og prettirnir þar til maður verður grimmur. Það er óþolandi að við neytendur skulum þurfa að vera með leiðindi til þess að fá sjálfsagða þjónustu sem fyritækin segjast bjóða upp á.

Ég vona að þeir hjá Símanum hafi lært eitthvað af þessari reynslu.

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Þú færð kannski svona færslu eins og ég fékk við mína grein:

Sæll Ævar,

Það er leiðinlegt að heyra slíkar frásagnir en hér með hafa þær verið skráðar og skoðaðar. Þið getið endilega send mér póst á bloggari@siminn.is eða kíkt á http://blogg.siminn.is til þess að taka þátt umræðum eða benda okkur á eitthvað sem betur mætti fara.

Kv. Davíð H. Lúðvíksson

Síminn, 17.7.2007 kl. 17:02

Svo gerist náttúrulega ekkert annað en að fyrirtækið verður áfram jafn vanhæft en nýjar og nýjar IMAGEauglýsingar herja á pirraða viðskiptavini. 

 

Ævar Rafn Kjartansson, 14.9.2007 kl. 22:05

2 identicon

Þú verður að afsaka ruddaskapinn, en rosalega er þetta óáhugavert blogg hjá þér.

Nú ert þú þeirrar gæfu aðnjótandi að fá sumar færslurnar á blogginu þínu birtar á forsíðu mest lesna vefmiðils í landinu. Samt sem áður kýstu að tjá þig um það að SJÓNVARP SÍMANS HAFI BYRJAÐ AÐ VIRKA! Áður hefurðu meira að segja birt færslu um að sjónvarpið hafi verið í ólagi!

Hverjum er ekki sama um það hvort þú náir sjónvarpsútsendingum í stafrænum gæðum eða ekki? Ég biðst aftur forláts á þessum fádæma dónaskap í mér, en mér er hreinlega ofboðið þegar ég rek augun í svona tuð á forsíðu vefútgáfu Morgunblaðsins. Það sem enn verra er, er það að þú virðist eiga kóara sem nennir virkilega að taka þátt í þessu kjökri þínu, þ.e.a.s. hann Ævar hér fyrir ofan mig.

Gerðu það gerðu það gerðu það skrifaðu um eitthvað sem auðgar andann. Ég hreinlega nenni ekki að sitja undir sama hatti og þú og tuða yfir tuði í manni sem ég þekki alls ekki neitt. Æ, ég veit það ekki, þetta er óttalega súrt eitthvað.

Með vinsemd og virðingu,

Friðrik Stefánsson. 

Frissi (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 00:23

3 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Friðrik, ég mæli með að þú sleppir því bara að lesa færslurnar hans Jóhanns ef þér finnst þær svona óáhugaverðar. Og ég er sammála þér um að þú sýnir hér fádæma ruddaskap.

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 15.9.2007 kl. 01:14

4 Smámynd: Gúrúinn

Áfram Jóhann!

Ég er ósammála Friðriki og Sigrúnu. Jóhanni ber engin skylda til að tala bara um það "sem máli skiptir". Skiptir léleg þjónusta stórfyrirtækis og vanvirðing þeirra við viðskiptavini engu máli? 

Og þótt hann sé vinsæll. Á hann þá að skrifa bara færslur sem falla fjöldanum í geð? Má hann ekki segja neitt neikvætt?  (Annars hélt ég nú að skrif hans hingað til hefðu fleytt honum upp vinsældalistann og hví ætti hann þá að breyta þeim?) 

Áfram Jóhann! 

Gúrúinn, 15.9.2007 kl. 09:14

5 Smámynd: Jóhann Björnsson

Neytendamál eru kjaramál

Það verður ekki annað sagt en að afskaplega ánægjulegt er að heyra að sumir verða pirraðir á að lesa skrif mín. Það segir mér aðeins eitt að skrifin hafa tilætluð áhrif sem er að hreyfa við fólki og vekja til umhugsunar. Vissulega væri gaman að skrifa ávallt um grasið græna, sólina, lömbin og allt hitt sem er svo ánægjulegt í lífinu og reyni ég að gera það af og til. En mikið andskoti væri nú síðan innihaldsrýr ef ég væri eingöngu að horfa á heiminn í endalauu bjartsýniskasti.

Ástæðan fyrir því að ég hef tekið þetta símamál sérstaklega vel fyrir er að hér er um mikið hagsmunamál neytenda að ræða. Og neytendamál eru jú kjaramál. Ég veit ekki hvort ergilegir lesendur síðunnar viti hvað neytendamál eru. Kannski er þeim slétt sama og láta fólk og fyrtæki vaða yfir sig endalaust, borga bara þegar þeim er sagt að borga og þegja bara þegar þeim er sagt að þegja. En það er því miður það sem alltof mörg fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu eru að reyna að gera.  en ef svo er þá er hlutskipti þeirra vægast sagt sorglegt.

Svo fyrir utan þetta þá er engin skylda að lesa síðuna mína. Ekki les ég þær síður sem vekja ekki áhuga minn og fyrir vikið þá verð ég ekkert pirraður.

Jóhann Björnsson, 15.9.2007 kl. 13:15

6 identicon

Loksins blogg sem skiptir einhverju máli. Það á að veita stórfyrirtækjum aðhald; þjónustan hjá Símanum er oftar en ekki fyrir neðan allar hellur. En það mætti svo sannarlega taka fyrir fleiri fyrirtæki.

Bravó, Jóhann!

Jónas Sen (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 15:01

7 identicon

Sælt veri fólkið,

Hjálmar Gíslason heiti ég og starfa hjá Símanum.

Fyrst af öllu: Frábært að heyra að þetta er komið í lag - vonandi nýturðu þjónustunnar núna þegar þetta er loksins farið að virka. Ég verð að viðurkenna að fyrri bloggfærslur um þetta mál hafa farið framhjá mér, en svona færslur eru einmitt bráðhollar fyrir þjónustufyrirtæki og veita aðhald. Við erum smám saman að feta okkur á þeirri braut að fylgjast með umræðunni á bloggi og öðrum einstaklingsmiðlum (s.s. YouTube, Flickr o.s.frv.) og koma þeim málum sem þar koma fram í farveg.

Sem betur fer er reynsla þín, sem rakin er í þessari og fyrri færslum undantekning frá hefðbundinni þjónustu Símans - en því miður samt ekki algert einsdæmi. Undanfarin misseri hafa verið í gangi allskyns aðgerðir hér til að bæta þjónustuna og það hefur náðst mikill árangur. Þessum verkefnum er samt sem áður ekki lokið, enda að mörgu að huga.

Síminn beið talsverða álitshnekki varðandi þjónustu þegar ADSL sjónvarpið (nú Sjónvarp Símans) var að fara af stað fyrir rúmum 2 árum og menn vísa stundum ennþá til þeirrar reynslu. Þau mál voru m.a. tekin upp á Alþingi eins og menn muna. Margir eru enn brenndir af því að hafa þurft að hafa samband við þjónustuver okkar á þessum tíma (hvort sem var út af sjónvarpinu eða annarri þjónustu).

Símsvörunin hefur stórbatnað síðan þá. Sem betur fer er hins vegar stór hópur viðskiptavina sem hefur ekki þurft að hafa samband við þjónustuverið síðan og því ekki orðið var við þær framfarir sem þar hafa orðið.

Á vefnum hjá okkur er hægt að sjá tölfræði um svörun þjónustuvers og þar sést að almennt er þetta að ganga nokkuð vel. Sýnileiki á þessum upplýsingum er einn liður í því að skapa traust á þjónustunni - og veitir okkur sömuleiðis aðhald. Það væri gaman að sjá önnur fyrirtæki birta sambærilegar upplýsingar, þannig að neytendur geti borið saman það sem sagt er í orði og hina raunverulegu upplifun. Tölfræðin segir síðan auðvitað bara hálfa söguna, en í langstærstum hluta tilfella er hægt að leysa úr málum í fyrsta símtali. Vandamál eiga hins vegar til að vinda upp á sig og því miður koma einstaka sinnum upp mál eins og þú hefur lýst. Allir sem að málinu koma róa hins vegar öllum árum að því að það gerist ekki.

Mig langar að bjóða þér og öðrum áhugasömum um þessi mál - hvort heldur sem eru bloggarar, fjölmiðlamenn eða aðrir - að koma og kíkja á okkur og sjá hvernig þessum málum er háttað. Bæði hvernig málin eru að ganga fyrir sig í þjónustuverinu (sem fær meira en 20þús símtöl á viku) og eins hvað gerist þegar þarf að taka málin áfram.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þessu boði er velkomið að hafa samband við mig í netfangið hjalmarg [hjá] siminn.is 

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband