Eflum atvinnuþátttöku fatlaðra

Það var ánægjulegt að lesa viðtal Blaðsins við Hörð Jónsson í gær. Hörður er faðir 16 ára fatlaðs drengs sem í sumar hefur fengið vinnu í gegnum svokallað Texasverkefni sem felst í þátttöku fatlaðra ungmenna í störfum á almennum vinnumarkaði. Í viðtalinu segir Hörður frá því hversu mikilvægt þetta er fyrir ungmennin:

"Unglingarnir eru mjög ánægðir með þetta. Þeim finnst eiginlega vera jól á hverjum degi þegar þeir fara í vinnuna. Þetta gerir svo mikið fyrir þá því með þessu geta þeir sagst hafa verið í vinnu sem margir hverjir gætu alljafna ekki stundað. Verkefnið er byrjun á nýjum hugsunarhætti."

Fyrirtæki á almennum markaði sem hafa bolmagn til mættu taka þetta framtak sér til fyrirmyndar og gefa fötluðulm tækifæri til þess að spreyta sig. Þegar ég vann við gerð hernaðarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli 1987 hjá Íslenskum aðalverktökum þá man ég alltaf að þar var allnokkuð um að fatlaðir fengju vinnu. Var þetta væntanlega það eina góða við starfsemi ÍAV á vellinum (enda var ég alla tíð andstæðingur hernaðaruppbyggingar á Íslandi). Þar fengu margir fatlaðir að spreyta sig á ýmsum verkefnum, hver á sínum hraða með sínum hætti og við sem unnum við hlið fatlaðra fengum að kynnast fötluðum og þeim möguleikum sem þeir bjuggu yfir. Ég held að við unglingarnir sem og aðrir sem unnum þarna höfum orðið víðsýnni fyrir vikið.

Það er engin spurnin að til mikils er að vinna fyrir íslenskt samfélag að efla atvinnuþátttöku fatlaðra. Slökum aðeins á ofurlaunametingnum á vinnumarkaðinum og förum frekar að verja kröftum okkar og fjármunum í að efla fjölbreytileikann í hópi starfsfólks.

JB 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband