25.6.2007 | 20:07
Best er að fara ekki á taugum þótt einhver sé lengi að tala eða hugsa
Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson var í skemmtilegu viðtali í Lesbókinni á laugardag. Þar kom hann með býsna gott ráð handa þeim sem stýra umræðuþáttum í fjölmiðlum. Eins og allir vita einkennast margir umræðuþáttanna af innihaldslausu hanaati og upphrópunum og þegar rætt var um það að Egill Helgason muni stýra bókmenntaþætti í sjónvarpinu næsta vetur hafði Jón þetta um málið að segja:
"Egill er fjandi góður sjónvarpsmaður, en ég er ekki viss um að hann sé jafn slyngur bókmenntamaður, og hann þarf heldur ekki að vera það til þess að stýra góðum bókmenntaþætti. Þar gildir að kunna á miðilinn og fá rétta fólkið til þess að tala um hlutina, og ekki fara á taugum þótt einhver viðmælandi sé lengi að hugsa eða tala. Ég held að fólk horfi ekki á bókmenntaþætti til að heyra glitrandi frasa sem síðan er hægt að nota í auglýsingar."
Þar hafið þið það stjórnendur umræðuþátta: Ekki fara á taugum þótt einhver sé lengi að hugsa eða tala.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Facebook
Athugasemdir
Já þetta er þörf ábending. Það er því miður verið að ala okkur upp sem allt of mikla "shock-value" fjölmiðla-neitendur. Fréttir virðast í dag eingöngu eiga að gefa okkur kuldahroll, æluna uppí kok eða hneykslun uppí topp til að við tökum eftir þeim......það er ekki vitsmunalega örvandi......og skortur á slíkri örvun leiðir til .......villimennsku.
Þorbjörg Ásgeirsdóttir, 26.6.2007 kl. 15:04
Ég held nú að Egill sé miklu frekar á heimavelli, þegar kemur að bókmenntum. Kverúlantapólitíkin fer honum ekkert sérstaklega vel úr hendi, enda tel ég hann misbjóða greind sinni á þeim velli. Hann er vel lesinn og vel að sér í bókmenntum og hafsjór af fróðleik og visku um efnið. Svo tekur hann bókmenntir ekki jafn hátíðlega og margir álitsgjafar hafa gert sig seka um. Hann var á sínum tíma einhver glúrnasti kvikmyndagagrýnandi þjóðarinnar og svo blátt áfram þar að honum varð ekki vært í því starfi.
Hlakka til að sjá hann þeysa um nýjan völl.
Jón Steinar Ragnarsson, 26.6.2007 kl. 19:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.