Í vikunni sem leið komu yfir 100 unglingar 14-15 ára hvaðanæva að af landinu í tíma til mín í siðfræði. Flest þeirra ætla sér að fermast borgaralega í vor en einnig tók ég nokkra 9. bekkinga við Réttarholtsskóla í smá siðfræðitíma. Semsagt alls rúmlega 100 unglingar á einni viku í sex hópum. Ég spurði börnin öll að því hvort þau hafi einhverntíman farið í siðfræðitíma eða hvort þau vissu yfirhöfuð hvað siðfræði væri. Enginn, já ég endurtek enginn af þessum rúmlega 100 einstaklingum hafði nokkurn tíman fengið skipulega leiðsögn í siðfræði á sinni skólagöngu og fæst vissu um hvað siðfræði snýst. Samt eru meira en 4500 ár síðan Aristóteles lagði grunn að siðfræðinni sem skipulegri fræðigrein (jú alveg satt siðfræðin varð ekki til í guðfræðideild Háskóla íslands)
Nú er alls ekki við börnin að sakast í þessu efni enda geta þau ekki borið ábyrgð á þeirri fræðslu og menntun sem þau fá í skólunum. En þessi staðreynd segir manni ýmislegt um á hvað er lögð áhersla í grunnskólum landsins. Til er námsskrá í siðfræði fyrir grunnskóla sem heitir Aðalnámskrá grunnskóla, kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði og er þetta eitt það allra dapurlegasta lesefni sem ég hef nokkurntíman augum litið ekki síst fyrir siðfræðina sem fræðigrein. Í þessu plaggi víða gefið í skyn að maður verði rosalega siðvitur af því einu að að liggja á bæn sem er nú mikill misskilningur.
Í þessu plaggi kemur fram að kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði er allt sjálfstæðar námsgreinar en þær þurfa að deila ráðstöfunartíma með samfélagsgreinum í stundarskrá. Þannig má í hverjum skóla ráðstafa ákveðnum tíma ýmist í samfélagsfræðina eða trúarbrögðin eða siðfræðina. En eins og áður kom fram í máli barnanna er hvergi tíma ráðstafað í siðfræði. Þess í stað er, allavega þar sem ég þekki til miklum tíma af samfélagsfræðikennslunni varið í að undibúa að því er virðist börnin undir nám í alþjóðlegum landbúnaðarháskólum.
Hin sænska kennslubók Landafræði handa unglingum 2. hefti er kennd af kappi í grunnskólum landsins. Meira að segja er bókin tekin til samræmdra prófa. Einkum lögð áhersla á umfjöllun um lönd eins og Moldóvíu, Georgíu, Perú, Ástralíu, Bandaríkin, Kína, Indland og fleiri ágæt lönd og af lestri bókarinnar kemur glöggt fram að mikilvægast er að vita hvað er ræktað í hverju landi.
Börnin verða því "sérfróð" um ræktun og frjósemi moldarinnar víðsvegar um heiminn en enginn fær að sama skapi þjálfun í að styrkja siðvit sitt. Ég ætla nú ekki að segja að það sé alveg glatað að læra um hrísgrjónarækt í Kína og fleiri sniðugt í landbúnaði en öllu má nú ofgera.
En það sem við gerðum í vikunni í siðfræðinni var að styrkja siðvit okkar með því að rökræða með gagnrýnu hugarfari fyrirbæri eins og svindl og svik, hnupl, sanngirni og heiðarleika, samskipti við foreldra og fjölskyldur, aðstoð við nauðstadda og margt fleira sem mikilvægt er að skoða til þess að verða ábyrgur og heiðarlegur borgari. Unglingarnar fengu að velta því fyrir sér hvernig heimurinn væri ef allir breyttu eins og þau og einnig fengu þau tækifæri til þess að setja sig í spor ýmissa einstaklinga sem takast hafa þurft á við siðferðileg álitamál.
Þetta var því fyrst og fremst þjálfun siðvitsins en breski siðfræðingurinn John Stuart Mill hélt því einmitt fram að siðferðilegur styrkur væri eins og vöðvastrykur eitthvað sem styrktist aðeins við þjálfun.
Eins og fram hefur komið leggja yfirvöld menntamála ekki áherslu á þjálfun siðvits. Ætli ástæðan sé ekki m.a. sú að landbúnaðarfræði fjarlægra landa er svo mikilvæg að ekki gefst tími til að rökræða siðferðið. En "skólaanarkistar" eins og ég teljum það mikilvægt að rökræða siðferðið og því geri ég það bara ef mér sýnist þó svo að nemendurnir missi af því að vita allt um kúasmalana í Keníu. Og lái mér hver sem vill.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:09 | Facebook
Athugasemdir
Smá leiðrétting fyrst, mig grunar nú að meirihluti þeirra sem ætla að fermast borgaralega sé nú bara 13 ára ennþá.
Annars verð ég nú að segja að ég er mjög ánægð með að sjá þessa umfjöllun hér, því minn sonur er einn af þessum unglingum sem hefur verið hjá þér í fermingarundirbúningi. Og ég heyrði á honum í bílnum á leiðinni norður á sunnudaginn var að hann var heilmikið að spá og spekúlera.
Mig grunar að grunnskólakennarar myndu margir segja að það gefist ekki tími til að kenna siðfræði, þeir forgangsraða frjósemi moldarinnar í ýmsum heimshornum framar siðfræði því moldin gæti hugsanlega komið á samræmdu prófi. Þetta með siðfræðina hljómar meira eins og eitthvað uppeldi eitthvað, nokkuð sem grunnskólakennarar vilja meina að sé alls ekki á þeirra könnu. Það er mun auðveldara að tala við leikskólakennara um að kenna börnum siðfræði og ala þau upp.
Ég veit ekki alveg hvað þarf að gera til að grunnskólakennarar fari að líta á sig sem uppalendur. Og það er reyndar mínum skilningi ofar hvernig fólk getur reynt að kenna án þess að ala upp. Því mörkin þar á milli eru mjög óskýr í mínum huga. Kannski það þurfi að sýna grunnskólakennurum fram á að börnin muni standa sig betur í samræmdum prófum ef þau kunna smá í siðfræði, vegna þess að það eykur hæfileika til að umgangast annað fólk, sem þýðir þá kannski að þau verða betri í að tjá sig og þar af leiðandi betri í að skrifa texta á prófum. Ég veit ekki.
Fríða, 4.2.2007 kl. 14:43
Siðfræði er mikilvæg í öllum mannlegum samskipum og undirstaða þess að lifa og starfa í lýðræðisþjóðfélagi.
Bókin "siðfræði handa Amador" er listilega skrifuð bók þar sem teknar eru fyrir spurningar um það "Hvernig er best að lifa?".
Frábær handbók fyrir foreldra og aðra uppalendur unglinga sem eru að byrja að huga að eigin framtíð.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 4.2.2007 kl. 19:28
Góð grein, en er ekki samt réttara að Aristóteles hafi lagt grunn ao siðfræði fyrir 2500 árum (ekki 4500 árum). Gunnsteinn Gunnarsson.
Gunnsteinn Gunnarsson (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 10:40
Þetta eru náttúrulega bara sorglegar staðreyndir. Að ekki sé tími til að kenna siðfræði í skólum stafar af skorti á skilningi og rangri forgangsröðun. Margir skólar virðast halda að þeir leysi þetta með því að veita presti svotil óheftan aðgang að skólabörnum. Í sístækkandi fjölþjóðlegu samfélagi getur það ekki annað valdið vanda.
Jón Þór Bjarnason, 9.2.2007 kl. 16:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.