Tökum þátt í forvali VG á laugardag. Gef kost á mér í 3.-5. sæti.

Núna á laugardaginn heldur VG í Reykjavík forval vegna borgarstjórnarkosninga. Fjöldi frambærilegra einstaklinga býður sig fram til starfa í þágu borgarbúa. Sjálfur hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 3.-5. sæti. Í nýútkomnum kynningarbæklingi um frambjóðendur er kynning mín svohljóðandi:

"Jóhann Björnsson er fæddur í Keflavík 1966 . Gekk hann ungur til liðs við Alþýðubandalagið eftir að hafa enn yngri gengið til liðs við Samtök herstöðvaandstæðinga. Í pólitík skilgreinir Jóhann sig sem  sósíalista af „gamla skólanum" eða „klassískan komma" eins og hann orðar það sjálfur.

Jóhann er kvæntur Margréti Einarsdóttur og eiga þau tvö börn. Jóhann lauk MA prófi í heimspeki við Kaþólskan háskóla í Belgíu. Undanfarin ár hefur hann kennt við Réttarholtsskóla, starfað í Alþjóðahúsi og kennt  siðfræði fyrir starfsstéttir.  Árið 2006 þegar Jóhanni ofbauð græðgisvæðingin bauð hann forystmönnum í fjármálalífinu upp á siðfræðinámskeiðið „Hversu mikið er nóg?" Því miður sáu fjármálamennirnir  ekki ástæðu til þess að þiggja boðið. Nokkru síðar bauð hann upp á siðfræðinámskeið handa forystufólki í verkalýðshreyfingunni sem bar heitið „Siðfræði handa Gunnari Páli". Ekki sáu forystumenn þar á bæ heldur ástæðu til að mæta. Í mörg ár hefur Jóhann kennt á undirbúningsnámskeiðum vegna borgaralegrar fermingar. Í frístundum sínum æfir Jóhann Júdó og dansar argentískan tangó.

Jóhann skipaði 8. sætið á framboðslista VG við síðustu borgarstjórnarkosningar og hefur á kjörtímabilinu verið í barnaverndarnefnd og varamaður í tveimur hverfisráðum og á nú sæti í mannréttindaráði.

Í borgarmálum aðhyllist Jóhann sjónarmið  hæglætishreyfingarinnar sem hefur verið að ryðja sér til rúms víða um heim. Hæglætishreyfingin berst fyrir manneskjulegra samfélagi, gegn mengun, græðgi  og umhverfi sem orsakar streitu. Ánægja á undan hagnaði, manneskjur á undan steinsteypu, hæglæti á undan hraða eru á meðal stefnumiða hæglætishreyfingarinnar.

Jóhann leggur mikla áherslu á að siðfræðin fái vægi þegar pólitískar ákvarðanir eru teknar."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband