Hefði ekki verið nær að bíða með heræfingarnar þar til skólarnir hefjast? Eða orrustuþotur í eðlisfræðitíma

Ég var í Keflavík í gær þegar ég sá eina F-15 orrustuþotu æða í loftið á ógnarhraða. Ég hnippti í son minn 14 ára og sagði "sjáðu". "Hvað er þetta?" svaraði hann á móti. "Hvað er þetta?" hugsaði ég og ætlaði að fara að verða dálítið hneykslaður á því að drengurinn áttaði sig ekki á því að þetta er F-15. En þá fattaði ég sjálfur að auðvitað er hann ólíkt sjálfum mér ekki alinn upp í Keflavík á kaldastríðsárunum þar sem þoturnar flugu látlaust allann sólarhringinn yfir okkur með gríðarlega miklum látum sem við eiginlega hættum að taka eftir.

Þessi sýn minnti því óneitanlega á gömlu kaldastríðsdagana nema hvað nú eru Sovétmenn ekki til staðar og engin veit í raun hver ógnin er. Menn fljúga bara til þess að fljúga (og eyða peningum í leiðinni sem er nú sport út af fyrir sig). Gagnsleysi heræfinganna er svo mikið að ekki er einu sinni hægt að nota þær til kennslu grunnskólabarna. Þegar ég var sjálfur 13 ára árið 1979 þá var gagnsemi orrustuflugsins ekki aðeins bundið við að fæla ljóta rússa í burtu heldur einnig í stofu 13 í Barnaskólanum í Keflavík sem í dag heitir Myllubakkaskóli (ég hef aldrei kunnað við þetta nafn Myllubakaskóli).

Það var í eðlisfræðitíma þar sem við vorum að læra um hraða og hljóð. Ég veit ekki hvort kennarinn var búin að plana þessa kennslu lengi eða hvort honum datt þetta í hug sí svona en allavega skilaði kennslan sér svo vel að ég man þetta enn. Kennarinn var að útskýra tengsl hraðans við hljóðið og til að gera það á skiljanlegri hátt sendi hann bekkinn út í glugga. Ekki þurftum við að bíða lengi eftir að sjá þotu þjóta framhjá án þess að nokkuð heyrðist í henni. Stuttu síðar kom svo hljóðið. Svona fylgdumst við með þotufluginu okkur til nokkur gagns í þá daga og drógum þá ályktun að þegar þota fer svona hratt sem raun bar vitni fer hún á undan eigin hljóði.

En gagnsleysi heræfinganna nú er svo mikið að ekki einu sinni má nýta þær í skólastafi þar sem skólarnir hefjast ekki fyrr en eftir viku. Synd því þá hefði kannski mátt réttlæta kostnaðinn sem framlag til menntamála

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gúrúinn

Beittur

Gúrúinn, 15.8.2007 kl. 09:25

2 identicon

Nei, sljór.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 13:11

3 identicon

Fjögur ljómandi björt tímabil á ári hverju, þar sem öryggistilfinning okkar blómstrar, svona rétt áður en kvíðinn og uggur um hryðjuverk sest að, þegar þessir vagnar himnanna hverfa til gagnlegri verka í sprengjuþyrstum löndum.

Það er okkar fórn, við setjum okkar hagsmuni neðar, og tökum tillit til þarfa bræðra okkar í austurlöndum, nú njóta þeir náðar Bandaríkjastjórnar.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 10:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband