Trúleysi og lýðréttindi

Ánægjulegt hefur verið að sjá hve barátta samkynhneigðra fyrir sjálfsögðum réttindum og jákvæðari viðhorfum hefur skilað góðum árangri á undanförnum árum. Yfir 50.000 manns tóku átt í gleðigöngunni í miðbæ Reykjavíkur í því skyni að styðja samkynhneigða. Vissulega hafa samkynhneigðir þurft að hafa fyrir því að ná þessum árangri og enn er ýmislegt óunnið.

Þegar við fögnum árangri eins hóps í baráttunni gegn fordómum og fyrir lýðréttindum ættum við að hafa hugfast að ekki njóta allir minnihlutahópar jafnmikillar velgengi og æskilegt væri. Einn er sá hópur hér á landi sem þarf að fá aukna viðurkenningu á tilveru sinni og það eru þeir sem eru trúlausir eða af öðrum ástæðum sjá ekki ástæðu til þess að tilheyra trúfélögum. Tæplega 8000 manns standa utan trúfélaga hér á landi en þrátt fyrir þennan fjölda er mismununin sem þetta fólk þarf að búa við með öllu ólíðandi. Þeim sem ekki tilheyra neinu trúfélagi er engu að síður gert að greiða svokallað „sóknargjald" til Háskóla Íslands rétt eins og Háskólinn væri trúfélag. Ekki fær þessi hópur þó þá þjónustu frá H.Í. sem fólk sem tilheyrir trúfélögum fær hjá sínum söfnuðum.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur fólki sem stendur utan trúfélaga ekki gengið neitt í að fá félagsskap sinn skráðan í líkingu við önnur trúfélög hér á landi í því skyni að fá fjárhagslegan og lagalegan grunn til þess að geta þjónustað sitt fólk t.d. með sálgæslu, útfararþjónustu, giftingum o.s.frv. Slíkt hefur hins vegar verið við lýði í Noregi í 26 ár.

Ég tel að ein af ástæðum þess að svo vel hefur gengið í réttindabaráttu samkynhneigðra er jákvætt viðhorf margra kennara. Í námsefni sem kennt er í grunnskólum er farið jákvæðum orðum um samkynhneigð og margt hefur verið gert til þess að koma í veg fyrir fordóma gagnvart samkynhneigðum. Það sama er því miður ekki hægt að segja um þátt skólanna þegar kemur að viðhorfum gagnvart þeim sem aðhyllast engin trúarbrögð. Þar hefur grunnskólinn jafnvel farið fremstur í að ala á fordómum. Námsefni í trúarbragðafræði hefur ekki verið til þess fallið að auka á umburðarlyndi í garð trúlausra. Í kennslubókinni Maðurinn og trúin fá nemendur t.d. þá spurningu hvort þeir gætu ímyndað sér heiminn án trúarbragða. Ekki er það erfitt fyrir þá sem aðhyllast engin trúarbrögð en hvergi í bókinni er greint frá því að sá möguleiki sé fyrir hendi og því síður sagt frá því að hér á landi séu tæplega 8000 manns sem kjósa að standa utan trúfélaga.

Í ljósi bókarinnar í heild sinni túlka ég þessa spurningu höfundarins sem einhvers konar hæðni í garð þeirra sem ekki aðhyllast trúarbrögð. Afstaða alþingismanna hefur einnig verið leiðbeinandi í þessu máli þar sem þeir hafa ekki sýnt því nokkurn áhuga að rétta hlut fólks utan trúfélaga. Um leið og ég óska samkynhneigðum til hamingju með árangurinn í baráttunni fyrir almennum lýðréttindum, minni ég á að enn er á brattann að sækja í baráttunni fyrir því að fleiri fái notið viðurkenningar í íslensku samfélagi.

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Það er ekki rétt hjá þér að allir hinir 50.000 sem þátt tóku í Gay pride göngunni hafi gert svo í því skyni að lýsa yfir stuðningi við baráttu samkynhneigða. Ég er búinn að hitta að minnsta kosti 20 sem sögðust hafa farið vegna skemmtiatriðanna og "freak showanna" eins og sumir orðuðu það miður smekklega. Þessum var slétt sama um baráttumál gay hópsins. Íslendingar eru "sökkers" fyrir ókeypis uppákomum í hinu litlausa þjóðfélagi okkar.

Annars fagnar sá sem hér skrifar því að mannréttindi samkynhneigðra eru orðin nánast full tryggð að lögum, sbr. hjúskap og erfðir o.s.frv. . Eina sem þeir virðast eiga eftir er að breyta trúarbrögðum heillar kirkjustofnunar vegna hjónavígslukröfu sinnar, en eins og kunnugt er mun staðfesta samvistin gefa þeim sama rétt að lögum og hjónavígsla gerir. Það er víst ekki nóg að hafa jafnrétti, heldur vilja margir ganga lengra.

Þá þekki ég stóran hóp samkynhneigðra vina minna sem hafa megnustu andúð á uppákomum eins og þessari göngu, vilja ekki láta bendla sig á nokkurn hátt við hana. Ekki er BDSM ganga niður laugaveginn nú eða félag doggiestyle o.s.frv.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 16.8.2007 kl. 17:12

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tek undir með þessum predikara (a.m.k. ef meining hans í orðunum "Annars fagnar sá sem hér skrifar" er sú að vísa þar til Jóhanns, ekki sjálfs sín). Augljóst var t.d. á sjónvarpsfréttum frá þessum degi, að blessuð börnin, sem mættu, vissu ekkert út á hvað þetta í rauninni gengi -- í huga þeirra snerist það ekki um að "styðja samkynhneigða", heldur hafa það skemmtilegt.

Jón Valur Jensson, 16.8.2007 kl. 18:10

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Enn gasprar JVJ um eitthvað sem hann þekkir ekki.  Ég tók með mér börn í bæinn sem horfðu á þessa göngu og skemmtiatriði - þau vissu vel út á hvað þetta allt gekk.

Fjöldi áhorfenda sem skreyttu sig nælum og skrauti sem Samtökin 78 voru að selja ætti líka að segja okkur sitthvað.  Fólk borgar ekki 500kr fyrir slíkt nema til að styrkja góðan málstað - eins og ég og fleiri þúsund aðrir gerðu þennan dag.

Matthías Ásgeirsson, 16.8.2007 kl. 19:11

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég gaspraði ekki, því að hvorki hældi ég mér né blaðraði, heldur nefndi það, sem alþjóð mátti a.m.k. tvívegis heyra í sjónvarpi, að aðspurð börn höfðu ekki hugmynd um að, út á hvað þetta raunverulega gekk. En ekki dreg ég í efa sannmælgi MÁ um að hann kenni sínum börnum út á hvað þetta hafi gengið. Öllum hinum sakleysingjunum, sem ekki þurftu að fræðast af honum, hygg ég hafi seint skilizt út frá "nælum og skrauti", hvert verið hafi raunverulegt markmið samkomu þessarar af hálfu þeirra, sem að henni stóðu, eða í hvaða tilliti eða lífsháttum samkynhneigðir greini sig frá gagnkynhneigðum.

Jón Valur Jensson, 16.8.2007 kl. 20:37

5 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Var JVJ á staðnum?  Nei, hann var ekki á staðnum.

Hvernig þykist hann þá vita betur um stemminguna en ég sem var á svæðinu - með börn?

JVJ til fróðleiks, þá vita flest börn í dag út á hvað samkynhneigð gengur enda foreldrar upp til hópa nógu víðsýn til að fræða börnin um það.

Matthías Ásgeirsson, 16.8.2007 kl. 21:19

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Exempla non probunt : (einstök) dæmi sanna ekkert. Það á bæði við um dæmin sem Matthías nefnir af sínum börnum og dæmin tvö, sem ég og alþjóð öll mátti sjá og heyra í sjónvarpinu. Stemmning stundarinnar hjá Matthíasi segir ekkert til um það, hvort börnin hafi í raun vitað, út á hvað gangan gekk; ég efast naumast um, að þau hafi flest litið á hana sem einhverja litríka gleðigöngu. Sömuleiðis efast ég um, að frjálsræðissinnaðir foreldrar útskýri "samkynhneigð" nokkuð ýtarlegar en svo fyrir saklausum börnum sínum, að margir ungir menn elski konur, en sumir þeirra elski karlmenn -- sem sé, að tveir ungir karlmenn geti verið kærastar og eins tvær stúlkur ástfangnar hvor af annarri, og að það sé allt í lagi, en fari ekki ýtarlegar ofan í saumana á því, og má það heita skiljanlegt, en gefur ekki fulla mynd af samkynhneigð né samkynja kynlífi né skýra vitneskju um kröfugerð baráttuforkólfa samkynhneigðra.

Jón Valur Jensson, 16.8.2007 kl. 23:39

7 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Það ergott að sjá að JVJ hefur dregið fullyrðingar sínar til baka.  Meira get ég ekki farið fram á.

Matthías Ásgeirsson, 17.8.2007 kl. 09:07

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Orð mín í 1. innleggi: "Augljóst var t.d. á sjónvarpsfréttum frá þessum degi, að blessuð börnin, sem mættu, vissu ekkert út á hvað þetta í rauninni gengi," voru orðuð heldur rúmt (þótt þau ættu fyrst og fremst við þau aðspurðu börn) og hljómuðu vissulega sem alhæfing -- sem ég síðan lagfæri (modificera) greinilega í fyrstu tveimur setningum í síðasta innleggi mínu hér á undan. Að öðru leyti standa ábendingar mínar og hugleiðingar allar óhnekktar.

Jón Valur Jensson, 17.8.2007 kl. 09:42

9 Smámynd: Linda

Þessi grein þín kemur á óvart, varðandi stöðu trúlausa í samfélaginu að það ágæta fólk hafi ekki sömu réttindi eins og t.d. með útfaraþjónustu o.s.f.v., þetta er ekki ásættanlegt ef reynist rétt, mér þykir miður að heyra um slíkt.  Vitanlega eiga trúlausir að hafa aðgang að sömu þjónustu. Varðandi skólann og trúarbragða fræðslu, vissulega eiga þessi börn að fá að fara út tíma ef þau svo kjósa sakir afstöðu foreldra til trúar, er einhver sem bannar það? 

Linda, 17.8.2007 kl. 12:37

10 identicon

Ég myndi frekar að börn mín væru í hópi manna sem styðja sjálfsögð mannréttindi heldur en í hópi fornaldarmanna sem fordæma fólk út og suður vegna gamallar bókar

Og Linda, þú ert skynsöm, ef einstaka barn fer að fara úr tíma vegna þess að það er ekki í þjóðkirkju þá getur þú ímyndað þér hvað mikið einelti getur sprottið upp af slíku.
Það er 3 í stöðunni með skólana
1 Trúboð úr skólum að fullu
2 Allir söfnuðir verða með trúboð í skólum
3 Hér verða stofnaðir grunnskólar fyrir mismunandi trúarhópa og svo trúfrjálsa.

Eina vitræna í þessu er tillaga 1, þetta er algerlega kristaltært

DoctorE (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 13:30

11 identicon

Til predikarans, þjóðkirkjan er rekin af ríki, henni er frjálst að sýna í verki að hún vilji ekki peninga og vilji þjóna guðsríki einu, þú og jón valur getið svo borgað launin fyrir þessa presta úr ykkar eigin vasa í stað þess að láta trú ykkar liggja eins og fordómafullt sníkjudýr á öllu þjóðfélaginu

DoctorE (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 15:56

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Rugl er þetta í manninum. Þjóðkirkjan (sem ég er reyndar ekki meðlimur í) er fjarri því að vera neitt "sníkjudýr á öllu þjóðfélaginu," það segja einungis fáfróðir menn, og æði-fordómafullt þykir mér að kalla hana fordómafulla. Það er hins vegar nóg af sníkjudýrunum; stjórnmálaflokkarnir eru einn hópur þeirra, og fer ríkisstyrkurinn stækkandi eftir því sem flokkurinn er stærri.

Jón Valur Jensson, 17.8.2007 kl. 17:04

13 identicon

Ég þakka Jóhanni fyrir góða grein sem bendir réttilega á slæma stöðu trúlausra og þeirra sem finna sér ekki samastað í skráðum trúfélögum.

Það er reyndar ekki rétt hjá Jóni Grétari að allir séu skráðir í Þjóðkirkjuna frá fæðingu heldur er miðað við hvaða trúfélag móðirin er skráð í. Þetta fyrirkomulag er samt sem áður mjög undarlegt og sambærilegt við það ef fólk væri skráð í stjórnmálaflokk foreldra við fæðingu. Trúarbrögð eru síst einfaldari en pólitík þannig að erfitt er að sjá réttlætinguna fyrir því að skrá ómálga börn sjálfkrafa í trúfélög.

Samruni ríkis og kirkju er frekar óhuggulegt fyrirbæri sem ætti ekki að þekkjast á öld upplýsingar og skynsemi. Ég hef fulla trú á því að Íslendingar eigi eftir að fara sænsku leiðina og skilja Þjóðkirkjuna frá ríkinu innan nokkurra ára. Reyndar hef ég aldrei heyrt nokkur bitastæð rök gegn því nema þá kannski að ríkisrekin kirkja svæfi trúaráhuga landans því hún þarf ekki að hafa fyrir því að draga til sín fólk og vinna fyrir kaupinu.

Ég vona einnig að einhvern daginn verði hægt að stofna einhvers konar félagsskap fyrir trúlausa sem geti sinnt borgaralegum athöfnum og að sá félagsskapur eigi eftir að njóta sömu fríðinda og trúfélögin, líkt og Siðmennt stefnir að. Það eitt væri mikil bót fyrir stöðu trúlausra í samfélaginu.

Lárus Viðar Lárusson (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 22:23

14 identicon

Mér finnst bara ekki heyrast nógu hátt í siðmennt, einnig finnst mér siðmennt hálf slappt nafn, ekki gefa nægilega mynd af hvað það stendur fyrir.... hvað með trúfrjálsir eða eitthvað í þá áttina, trúlausir og eða trúleysingjar er bara ekki nægilega gott heldur.

Ríki + kirkja er eitthvað sem á ekki að vera til í nútímanum, ég geng líka það langt að ríkið á ekki að styðja við neitt sem tengist trúuðum eða trúfrjálsum, það passar bara alls ekki og ég tel að ríkisframlög í svona sé algert glapræði

DoctorE (IP-tala skráð) 18.8.2007 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband