Eldri borgarar og öryrkjar vinna gegn eigin hagsmunum

Eldri borgarar og öryrkjar hafa nú um nokkurt skeið gefið sterklega í skyn áhuga á þingframboði. Svo er það núna í morgun sem Fréttablaðið greinir frá því að líklega megi búast við framboði og það sem meira er að e.t.v. verða framboðin tvö frekar en eitt. Rætt var við þau Arnþór Helgason og Arndísi H. Björnsdóttur og segir Arndís það ekki koma til greina að bjóða fram tvo lista þessara hópa, en hún bætir því svo við að hinn hópurinn sem Arnþór Helgason fer fyrir ásamt öðrum sé velkomin að ganga til liðs við hennar hóp. Á móti segir Arnþór að hann vænti þess að fólkið sem er í liði Arndísar muni ganga til liðs við þann hóp sem hann starfar í . Þannig eru öryrkjar og eldri borgarar nú klofnir í tvær fylkingar. Spyrja má hvort það séu hagsmunir öryrkja og eldri borgara að bjóða fram sér hvort sem um verði að ræða eitt framboð eða tvö. Ég tel það alveg augljóst að hagmunum þeirra verður ekki þokað í rétta átt með tveimur framboðum, það er alveg ljóst. Ég dreg það líka í efa að eitt framboð komi til með að vera til hagsbóta fyrir eldri boragar og öryrkja nema kannski helst sem leið til þess að vekja athygli á málstað sínum.

Sú leið sem þessir hópar eiga að fara að mínu mati er að vinna af krafti innan stjórnmálaflokkanna. Það eru flokkar sem starfa innan þings sem hafa áhuga á að rétta hlut öryrkja og eldri borgara og nefni ég Vinstrihreyfinguna- grænt framboð sem dæmi. Sérframboð öryrkja og eldri borgara myndi að öllum líkindum taka fylgi frá þeim flokkum sem vilja vinna að málefnum þessara hópa. Og spyrja má hvað væri unnið með því? Það er hægt að komst að innan a.m.k. VG og hafa áhrif.

Síðastliðið vor vakti athygli þegar Paul Nikolov sagðist stefna að stofnun innflytjendaflokks sem ætti að bjóða fram til Alþingis og sveitarstjórna. Paul gaf því tækifæri að ganga til liðs við Vinstrihreyfinguna grænt framboð í stað þess að stofna flokkinn og freista þess að koma sínum hugðarefnum að þar og viti menn hvað hefur gerst? Jú nú mun Paul skipa 3. sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík norður, öflugt málefnastarf og stefnumótun um málefni innflytjenda fer nú fram innan VG sem stýrt er af honum ásamt Toshiki Toma presti innflytjenda og fleiri góðra einstaklinga. Þarna hefur klárlega verið sýnt að sérframboð þarf ekki alltaf til til þess að koma góðum málum á framfæri í stjórnmálum.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já ég verð að vera sammála þessu að mörgu leyti. En það er nú bara þannig í stjórnmálum hér , að oft er verið að lofa hinu og þessu, hvort sem það er í þágu eldri borgara eða öryrkja, að oftast sést litið af þeim loforðum , því miður.  Nú ef eitthvað er gert til þess að bæta þessum hópum tekjulega séð, þá er það í flestum tilfellum náð til baka með einhverju móti til ríkisins.  Það væri gaman að bjóða ráðherrum, og þingmönnum að lifa á þeim kjörum sem aldraðir og öryrkjar búa við i dag. Og sjá svo hvernig þeim líkar það.  

En ég held að ég sé þér sammála í því að þessi hópar ættu að koma sér saman í eina einingu og nota krafta sina til þess að ná sínum markmiðum.  

En munum eitt. Hver og einn á eftir að verða fullorðinn, og þurfa að fara á eftirlaun, og einnig getur maður orðið fyrir þeim skaða að verða öryrki.

kv B. 

Björgvin R (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband