9.1.2007 | 22:02
Velferðarstefna borgarstjórnarmeirihlutans í verki
Í kvöldfréttum gat að líta eitt afrek borgarstjórarmeirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í velferðarmálum í verki, en þá var greint frá því að loka þurfti gistiskýlinu við Þingholtsstræti s.l. sunnudag vegna manneklu. Starfsmönnum skýlisins var sagt upp í haust og ekki hefur verið gengið til samninga að nýju.
Þrátt fyrir að sextán einstaklingar sem öllu jöfnu sækja skýlið þurfi að sofa úti á þessum kaldasta árstíma þá segir sviðsstjóri velferðarsviðs málið í eðlilegum farvegi. Já í eðlilegum farvegi og á meðan sofa menn úti í frostinu. Ég teldi nær að kalla þennan "eðlilega" farveg neyðarástand.
Mér sýnist borgaryfirvöld vera komin á býsna hættulega braut með því að bjóða þegnum sínum sem hvergi hafa höfði að halla ekkert annað en götuna, ekki síst eins og tíðin er um þessar mundir. Má ekki segja að hér sé í raun verið að brjóta mannréttindi í ljósi þess að ekki er ljóst hvort menn geti lifað af úti í þessum kulda sem nú er í borginni.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.