Um helgina hef ég verið að undirbúa undirbúnigsnámskeið fyrir borgaralega fermingu sem hefst núna strax eftir helgi. Þetta er ellefta árið sem ég kenni þetta námskeið. Þegar ég byrjaði 1997 voru 50 þátttakendur, á síðasta ári voru þeir 130 og í ár eru þeir 114.
Borgaraleg ferming á Íslandi hófst 1989 og voru aðstandendur hennar harðlega gagnrýndir. Mjög hefur dregið úr gagnrýninni og þykir mörgum þetta vera jákvæð viðbót við líf landsmanna.
Noregur er það land þar sem borgaralegar fermingar eru vinsælastar, en frá árinu 1951 hafa borgaralegar fermingar tíðkast þar í landi. Þess má geta að fyrrverandi forsætisráðherra Noregs Gro Harlem Bruntland var í fyrsta hópnum þar í landi sem fermdist borgaralega.
Margir spyrja um orðið ferming, hversvegna það sé notað sbr. borgaraleg ferming. Því er til að svara að orðið ferming er dregið af latneska orðinu confirmare sem þýðir að styðja eða styrkjast. Ungmennin sem ákveða að fermast borgaralega eru einmitt með þátttöku sinni í borgaralegri fermingu að styrkja sjálfsmynd sína og siðvit.
Á undirbúningsnámskeiðinu er margt tekið til umfjöllunar sem eflir unga fólkið eins og gagnrýnin hugsun, að vera unglingur í auglýsinga og neyslusamfélagi, samskipti unglinga og foreldra, samskipti kynjanna, skaðsemi vímuefna, um sorg, áföll og dauða, um tilgang lífsins og hamingjuna, siðfræði, efahyggju og ýmislegt fleira.
Það sem er ekki síst ánægjulegt við þetta fyrirbæri er hversu fjölbreyttur hópur velur þessa leið. Unglingar allstaðar að af landinu með mismunandi lífsskoðanir og bakgrunn sameinast í rökræðunni um ýmis gildi og sjónarmið. Þarna skiptir trúin engu máli, sumir tilheyra trúfélögum og aðrir ekki en það sem sameinar þátttakendur er það að vera manneskja. Allar manneskjur eiga að geta sest niður og rætt saman burtséð frá trúar éða lífsskoðunum. Því miður er um þessar mundir hart sótt að grunnskólunum að fara ekki þá leið að allir sitji við sama borð í menntun sinni burtséð frá trúar eða lífsskoðunum. Ofstækisfólk heimtar aðgreiningu þeirra sem eru kristnir og þeirra sem ekki eru kristnir og er þeim kristnu gert mun hærra undir höfði í of mörgum skólum. Það er þróun sem er með öllu ólíðandi.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.