6.1.2007 | 13:23
Nördarnir hafa tekið völdin eða heimspeki "aulahrollsins"
Það er svo skrítið að til er upplifun eða tilfinning sem maður fær stundum en veit ekki alveg hversvegna. Fyrirbæri þetta sem kemur að manni nánast án nokkurs fyrirvara við það eitt að birtast manni er ekki svo óalgengt, en samt er svo erfitt að skilgreina hvað það er og hversvegna það kemur. Ég held samt að mjög margir finni fyrir þessari upplifun einhverntíman á ævinni.
Að undanförnu hef ég verið að upplifa þetta við það eitt að fletta dagblöðunum, enda hefur fyrirbæri þetta minnt á sig á býsna mörgum síðum. En hvað kallast þetta fyrirbæri? Jú þetta kallast "Aulahrollur".
Ef fengist væri við aulahroll í orðabók um hugtök í heimspeki þá mætti ætla að þessi hrollur væri skilgreindur eitthvað á þá leið að hér sé upplifun á ferðinni sem vekur hjá þeim sem verður fyrir honum ákveðna samúð en á sama tíma ákveðna andúð fyrir það að birtast allt í senn hallærislega, kjánalega og fíflalega á þann hátt að sá sem veldur hrollinum verður minni fyrir vikið og rýrir álit almennings á sjálfum sér. Semsagt í stuttu máli aulahrollur verður til þess að fólk fær ekki þá löngum að vilja nálgast þann sem stendur að baki því eða þeim sem veldur aulahrollinum. Á slæmri íslensku myndi maður segja að það sem veldur aulahrollinum sé "nördalegt".
Og hvað er það þá sem hefur valdið þessum aulahrolli mínum að undanförnu? Jú ætli ég sé nokkuð einn um að finna fyrir þessu, en það eru að sjálfsögðu auglýsingar Kaupþings á síðum dagblaðanna af ýmist grenjandi fólki eða brosandi fólki sem hefur misst vinnu hjá KB og er farið að vinna hjá Kaupþingi. Þessi nafna fíflagangur, annarsvegar að valta yfir Kaupfélag Borgnesinga með frekju á sínum tíma sem notuðu skammstöfunina KB yfir í það að hætta að nota skammstöfun þá sem Kaupfélagið hafði er svipað og að horfa á kettling elta skottið á sjálfum sér. Eini munurinn á kettinum og Kaupþingsgenginu er sá að kettlingurinn lætur nægja að skemmta sjálfum sér en Kaupþing hefur þörf til þess að planta nördalegum aulahrolli í alla landsmenn nær og fjær.
Svo í morgum þegar ég sá í Fréttablaðinu að einhverjir klárir eru búnir að skrumskæla þessar auglýsingar Kaupþings á þann veg að fólkið á myndunum grenjar ekki yfir því að hafa hætt hjá KB heldur vegna gríðarlegra skulda hjá bankanum með öllum þeim óheyrilegu vöxtum, okurþjónustugjöldum og færslugjöldum sem bankar innheimta verð ég að viðurkenna að mér var dálítið skemmt.
Þarna voru einhverjir á ferð sem ekki eru sáttir við það að nördarnir stjórni bankaómenningu landsins sem ekki hefur það fyrsta markmið að sinna þjónustu við viðskiptavini heldur heldur uppi egóflippi og græðgi einhverra einstaklinga.
Flott andóf hjá ykkur hver sem þið eruð.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.