3.1.2007 | 20:55
Að vera "betri " viðskiptavinur í banka eða tilboð um skuldaánauð
Þessi pistill gæti líka allt eins borið titilinn "Skuldir heimilanna og samfélagsleg ábyrgð banka". Ég ákvað samt að láta þetta með "betri" viðskiptavininn verða ofan á en tilefni þessa er að á milli jóla og nýárs fékk ég fallegt litprentað kort frá banka nokkrum hér í borg sem titlaði mig sem "betri viðskiptavin" bankans og bauð mér skuldir. Það er reyndar alltaf þannig að þegar bankinn er að bjóða mér að skulda þá kallast ég "betri viðskiptavinur". En að öðrum kosti kallast ég ekkert sérstaklega "betri viðskiptavinur".
En það sem bankinn bauð mér var að greiða jólaneysluna á 36 mánuðum. 36 mánuðir, er það ekki sama og þrjú ár? Jú ætli ekki, en í kortinu er þessi gengdarlausa lántaka réttlætt með eftirfarandi orðum: "Þetta er einföld leið til að dreifa jólakostnaðinum á lengra tímabil." Ég myndi nú eiginlega helst vilja kalla þetta tilboð um ánauð eða tilboð um þrælahald og hið mesta ófrelsi.
Það sem er sorglegt við þetta er að eflaust eiga margir eftir að láta blekkjast og þiggja þetta viðurstyggilega tilboð þar sem gefið er í skyn að það sé eftirsóknarvert að skulda. Hvað verður þá eftir ár? Hvað verður um jólaneysluna þá? Bætast þá þrjú ár í viðbót til að greiða þá neyslu? Og hvað með árið þar á eftir og svo framvegis út í hið óendanlega.
Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að banki sem býður slíkt neyslutilboð er ekki að huga að hagsmunum viðskiptavina sinna, enda er það bara bankinn sem græðir. Það græðir enginn á því að steypa sér í neysluskuldir.
Þar fyrir utan er það mjög athyglisvert að bankinn tilgreinir hvergi í tilboði sínu hversu mikla vexti þarf að greiða af þessu 36 mánaða láni.
Ég bara spyr, hver er samfélagsleg ábyrgð bankans í þessu máli? Er það ekki í tísku um þessar mundir að tala um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2007 kl. 15:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.