2.1.2007 | 22:41
Græna tunnan kom í dag
Síðan s.l. haust hef ég ásamt fjölskyldu minni verið að myndast við að gerast umhverfisvænni. Við erum farin að flokka sorp í síauknum mæli og í dag kom "græna" sorptunnan sem við pöntuðum hjá borginni fyrir jól. Að hafa græna tunnu þýðir að hún er tæmd hálfsmánaðarlega í stað vikulega og fyrir vikið er okkur umbunað með lægri sorphirðugjöldum eða rúmum 6000kr í stað rúmlega 12.000 sem greitt er fyrir svörtu tunnurnar.
Áður en við fórum að flokka sorpið hélt ég að það yrði meira mál en svo hefur ekki verið reyndin. Flokkunin hjá okkur er á þá leið að gosdrykkjarumbúðir fara í endurvinnsluna, dagblöð, mjólkurfernur og aðrar drykkjarumbúðir úr pappa er farið með í gáma sem finna má vítt og breytt um borgina og allur lífrænn úrgangur fer í sérstaka tunnu sem keypt var í Blómavali og er ætluð til moltugerðar. Úr því verður síðan þessi fína og næringarríka gróðurmold sem sett er í beðin í garðinum hjá okkur, auk þess sem garðaúrgangur fer í hana líka.
Eftir þessa flokkum er svo býsna lítið í raun sem eftir er til þess að setja í þessa venjulegu sorptunnu. Allt er þetta afskaplega einfalt fyrir utan að vera til fyrirmyndar fyrir náttúruna.
Svo er bara um að gera að nota bílinn enn minna.
Allar aðrar hugmyndir um það hvað maður getur gert til þess að verða enn umhverfisvænni eru vel þegnar.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.