Að fara með það sem áður var talið ónýtt í viðgerð

Haustið 2004 tók ég þátt í 7 vikna verkfalli grunnskólakennara. Ég ákvað að nýta tímann í eitthvað í stað þess að hanga einn með sjálfum mér og því datt mér það snjallræði í hug að taka rykfallinn og bilaðan plötuspilara upp úr kjallaranum og athuga hvort ekki væri einhver sem gæti hugsað sér að gera við hann. Ég fór víða og hver vísaði á annan þar til að lokum á einu verkstæðinu var mér sagt að það væri bara glatað að fara að gera við svona hlut. "Maður gerir ekki við svona, maður kaupir bara nýtt" fékk ég að heyra.

Þetta var þá en nú eru breyttir tímar. (þess má þó geta að handlaginn fjölskyldumeðlimur gerði að lokum við plötuspilarann sem enn er í fullri notkun)

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem margir eiga í vegna samdráttar í efnahgsmálum þjóðarinnar, en mig langar til að vekja athygli á því sem ég tel að sé jákvæður fylgifiskur "ástandsins" í landinu. Ég tel mig nefnilega sjá landann tilbúnari til að nýta það sem fyrir stuttu hefði verið álitið ónýtt drasl og sorpumat. Ég fór um daginn í reiðhjólaverkstæðið Hjólið, en ég hef verið að koma 8 ára gömlu hjóli í lag og sjá þar var bara flott stemmning, fullt af fólki með allskyns "draslhjól" sem það var reiðubúið að gefa séns og fá gert við. Ég mætti með mitt gamla sem ég get gert við að hluta til sjálfur en þarf smá aðstoð við annað. Ég get ekki neitað því að stemmningin var nokkuð í anda þess sem ég þekkti frá námsárunum í Belgíu þar sem best var að vera á mestu og ódýrustu hjóladruslunni (dýrum hjólum var bara stolið) svo fremi sem maður komst leiðar sinnar. Þetta kallaði maður að nýta hlutina og fara vel með verðmæti.

Og svo í dag mátti lesa í Fréttablaðinu að búið er að opna reiðhjólaverkstæði á Hólmaslóð 4 og segir eigandinn að hann geti breytt druslu í gæðagrip og að hann taki að sér hjól sem önnur verkstæði myndu ekki snerta, fyrir utan það að reyna að vera ódýr.

Er ekki eitthvað meira svona jákvætt að gerast í "kreppunni"? Það væri upplífgandi ef aðrir gætu nefnt dæmi.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sæll, já nú er bara stagað í sokka og ekki orð um það meira.
Takk fyrir góð kynni, sjáumst síðar.

Kolbrún Baldursdóttir, 5.5.2009 kl. 21:44

2 identicon

Nú skulum við gefa okkur að viðgerðarmaðurinn hafi reynt við spilarann án þess að eiga nokkrar teikningar eða varahluti svo nokkru nemi. Hefði sett í hann segjum klukkutíma og komist að því að gripurinn væri óviðgerðarhæfur.

Þá stendur viðgerðarmaðurinn frammi fyrir því að rukka þig kannski klst. fyrir ekki neitt og senda þig heim tækis í lagi og fátækari að auki

Eða gefa þér vinnuna af mjólkurpeningunum sínum til að taka þátt í retrostemmingunni á þínu heimili.

Stundum er bara skynsamlegast að firra sig svona tilraunastarfsemi, vera hreinskilinn og segja fólki að svona bardús upp á von og óvon borgi sig ekki nema þú eigir frænda sem vinnur frítt, því það er eini taxtinn sem svona búnaður þolir

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 02:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband