Aðdáendaklúbbur Eltons Johns fékk tækifæri til að læra siðfræði

Í byrjun maí 2007 þegar mér var farið að blöskra græðgi forystumanna bankanna á Íslandi eða aðdáendaklúbbs Eltons Johns eins og hópurinn kallast stundum bauð ég þeim öllum á siðfræðinámskeið. Margir héldu annaðhvort að ég væri að grínast eða galinn. Ég var alla vega ekki að grínast en hvort ég var galinn ætla ég ekki að leggja mat á. Þetta var á þeim tíma þar sem allir vildu taka þátt í gullgreftrinum og engar siðferðisspurningar þóttu fínar. Ég var bara álitinn púkó. Enda fór svo að enginn skráði sig á námskeiðið. En til að rifja upp þá var bréf mitt til bankamannana svohljóðandi:

"Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að ýmsar starfsstéttir hafi sótt námskeið í siðfræði til þess að efla hæfni sína til að takast á við álitamál í starfi. Heilbrigðis- og uppeldisstéttir hafa þar verið í farabroddi.

Fimmtudaginn 10. maí 2007 kl. 20.00-22.00 mun bankastjórum og öðrum forystumönnum fjármálafyrirtækja standa til boða siðfræðinámskeiðið Hversu mikið er nóg? 

Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um grundvallarhugmyndir siðfræðinga um hið góða líf og  fá bankamennirnir tækifæri til þess að rökræða siðferðilegar spurningar hve varðar lífsgæði og lífsstíl, samfélagslega ábyrgð, launamun í landinu, fátækt og ríkidæmi, þarfir og gerviþarfir og hvað sé siðferðilega rétt og siðferðilega rangt í heimi þar sem veraldleg gæði eru takmörkuð.

Þátttakendur á námskeiðinu fá jafnframt tækifæri til þess að tengja hugmyndir sínar um lífstíl og lífsgæði við hamingjuna og tilgang lífsins.

 

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Jóhann Björnsson sem lokið hefur BA prófi í heimspeki frá HÍ og MA prófi í sömu grein frá Katholieke Universiteit Leuven í Belgíu.

 

Skráningar á námskeiðið skuli berast í tölvupósti á netfangið johannbj@hotmail.com og rennur skráningarfrestur út miðvikudaginn 9. maí næstkomandi.

 

Námskeiðið er forystumönnum banka og fjármálafyritækja ókeypis."

 Því miður sá enginn bankamaður ástæðu til þess að mæta, en ég held að það hefði ekki gert þeim neitt verra að koma á námskeiðið. Þeir hefðu þá kannski öðlast pínulítinn skilning á því að það er eitthvað rangt við það að ræna ævisparnaði almennings eins og eldra fólks og einstæðra foreldra.

Þetta var svona smá söguleg upprifjun um tilboð sem bankamenn fengu og gátu svo sannarlega auðveldlega hafnað.

JB

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algjör snilld

Ætli við værum í sömu stöðu í dag ef þessir mennhefðu sótt námskeiðið...

. (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband