7.10.2008 | 20:33
Verða íslensk menntayfirvöld að hlíta mannréttindadómstólnum?
Fimmtudaginn 9. október kl. 16:00 heldur Siðmennt opinn fund um dóm Mannréttindadómstólsins í Strassborg frá 29. júní 2007. Hann verður haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins og mun Lorentz Stavrum hæstaréttarlögmaður rekja sögu hans en málið tapaðist fyrir öllum dómstigum Noregs þ.m.t. hæstarétti en fékk meðbyr hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og eftir 12 ára baráttu fyrir dómstólum fékkst jákvæð niðurstaða hjá Mannréttindadómstólnum. Stavrum mun m.a lýsa hvaða áhrif dómurinn hafði á lög og námsskrá í kristnum fræðum í Noregi. Eftir erindi sitt mun hann svara fyrirspurnum. Erindi hans verður á ensku.
Vegna sambærilegrar stöðu á Íslandi og Noregi varðandi lög um grunnskóla og námsskrá í kristinfræðum er spurning hvort yfirvöld menntamála á Íslandi verði að taka tillit til dómsins og breyta námsskrá og þ.a.l. námsefni. Spurt er hvort Íslendingar þurfi að taka tillit til dómsins eða ekki? Menntamálaráðherra hefur, í samtali við stjórnamenn Siðmenntar, lýst yfir að engar breytingar verði gerðar - þrátt fyrir dóminn. Stjórn Siðmenntar hefur ítrekað bent yfirvöldum á að hlíta beri dómnum.
Forsaga málsins
Foreldrar nokkurra barna í Noregi ákváðu að lögsækja Norsk menntafyrirvöld vegna kristinfræðikennslu í almennum skólum. Foreldrarnir, sem eru húmanistar, töldu stjórnvöld brjóta á mannréttindum sínum og þó sérstaklega á rétti þeirra að ala börn sín í þeirri lífsskoðun sem þau aðhylltust. Forsögu málsins má rekja til laga um grunnskóla sem kvað sterklega á um kristni en ekki síður með vísun í námsskrár í kristinfræðum. Foreldrarnir gagnrýndu ofur áherslu á kristni og töldu það stangast á við lífsskoðanir sínar og að það væri ekki hlutverk ríkisvaldsins að ala börn þeirra upp í annarri lífsskoðun. Eftir dóminn ákváðu norsk menntayfirvöld að breyta kristinfræði kennslu og innihaldi hennar með meiri áherslu á trúarbragðafræði, siðfræði og kennslu um aðrar lífsskoðanir.
LORENTZ STAVRUM
Fæddur 1949 og er hæstaréttardómari og rekur eigin lögfræðistofu með áherslu á mannréttindi. Hann er dósent í alþjóðalögum við Háskólann í Lillehammer. Hann var áður lagalegur ráðgjafi dómara og lögmanna í Afganistan og hefur nokkrum sinnum verði valin í kosningaeftirlitsnefndir á vegum Evrópusambandsins og Öryggisnefndar Evrópu (ÖSE). Hann var forseti Human-Etisk Forbund, samtaka húmanista í Noregi, félagi í Alþjóðanefnd um viðbrögð við áföllum á vegum Norska dómsmálaráðuneytisins og félagi í Alþjóðlegri nefnd um lögfræðiaðstoð á vegum Norsku lögmannasamtakanna.
Nánari upplýsingar veitir Bjarni Jónsson í síma 896 8101 eða í netfanginu bja@lausnir.net
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Skítt að komast ekki á þetta. Það er enn verið að kenna sköpunarsöguna hér á grunnskólastigi og rauar nóaflóðið og allt bullið. Ég fékk enga menntun á mínum grunnskólaárum um þróunarkenninguna en það voru nokkrir tímar í viku í þessum kristnu "fræðum", sem ég reyndar man að við hlógum að og tókum lítið mark á, þar til helvítiseldarnir læddust inn síðar. Þá tók maður ekki sjensinn og tók Pascal á þetta.
Jón Steinar Ragnarsson, 8.10.2008 kl. 00:48
Sæll, Jóhann. Svar mitt við spurningunni í yfirskrift þinni er: Ekki í þeirri merkingu sem þú og Bjarni Jónsson leggið í þetta.
Úrskurðurinn bannar ekki, að haldið sé uppi kennslu í kristnum fræðum fyrir nemendur opinberra skóla, heldur bannar hann eingöngu að þvinga nemendur til slíks náms, þegar foreldrar þeirra vilja vegna trúar sinnar eða lífsafstöðu láta undanskilja þá frá slíkri kennslu.
Varizt, Siðmenntarmenn, að reyna að oftúlka þennan úrskurð dómstólsins – þið hafið gert það áður, og ykkur virtist hafa tekizt það gagnvart menntamálaráðherra um tíma, en ekki lengur!
Jón Valur Jensson, 8.10.2008 kl. 12:07
JVJ er allaf sami óvinur mannréttinda... enda búinn að lesa biblíu skrilljón sinnum
JVJ skal athuga það að ísland stendur á þröskuldi breytinga um þessar mundir... allt gamla krappið mun verða sent á sorphauga.. þar með talin ríkiskirkja íslands sem sogar til sín 6000 millur árlega.
Ekkert foreldri vil láta aðskilja börn í skólum vegna einhverrar ímyndunar og einræðisguðs sem drepur alla og pyntar.
DoctorE (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 12:53
Jón Valur: Það ert þú sem ert að mistúlka af þinni annáluðu skammsýni og trúblindu. Það að mismunun er til umræðu varðandi innrætingu í skólum og að á jafnræðistímum hafi ekki bara trúlausir og húmanistar rétt á kröfum um þetta jafnræði, heldur einnig önnur trúarbrögð auk hinna 34.000 trúbrota innan kristni, gerir það að verkum að menn hafa um tvennt að velja.
1. Að hleypa öllum sjónarmiðum og innrætingu í andlegum efnum inn í skólana. (sem myndi væntanlega kæfa algerlega svigrúm til almennrar menntunnar)
2. Að sleppa því alveg og halda trúarlegu hlutleysi í skólakerfinu.
Hvort hugnast þér betur?
Trúarbrögðin hafa sínar stofnanir til innrætingar og peninga til þess og hér eiga þessar stofnanir hreinlega að lúta lögmálum samkeppni, svo fremi sem öllu almennu siðgæi og virðingu fyrir persónurétti sé fylgt.
Krafan er einfaldlega sú að kirkja skuli vera kirkja og skóli, skóli.
Málamiðlunin er fag, sem inniber kennslu í almennum siðgæðisreglum. Búið. Komdu því í þinn dogmatíska haus.
Jón Steinar Ragnarsson, 8.10.2008 kl. 16:44
Það sem þú ert að styðja hér nafni er að innrætingin á viðkvæmasta þroskaskeiði snúist um flokkadrætti, aðskilnað og ójöfnuð. "Minn guð er hinn eini rétti og þú munt brenna í helvíti, ekki ég." Ástæða allrar óeiningar í heimi hér.
Trúarleg sérkenni og tákn eiga t.d. ekki að líðast í skólum. Krossar og búrkur eða höfuðklútar. Rétt eins og að banna Ku klux klan búninga (sem eru samtök á kristnum grunni) Nasistabúninga eða annað sem ber vitni um hugmyndafræðilega sannfæringu foreldra.
Börn fæðast ekki kristin eða múslimar. Þau eru forrituð, auðtrúa og einföld til þess með tímanum undir ógnarskilyrðum. Það að þið skulið leggja slíka áherslu á að ná til þessara saklausu einstaklinga, sem síst þurfa á brennisteinsboðskap ykkar að halda, setur óhug að öllum hugsandi mönnum.
Jón Steinar Ragnarsson, 8.10.2008 kl. 17:07
Aðal gallinn við þetta allt saman er hvað kristinfræðikennslan er oft á tíðum meingölluð og oft um klára trúarinnrætingu og trúboð að ræða, sem mér finnst afskaplega leitt enda þyrfti þetta ekki að vera neitt vandamál ef börnin fengju vandaðri bækur. Í kristinfræðibókunum sem eru núna notaðar má finna spurningar í kaflalok á borð við "Hvað viltu að Jesús geri þegar þú biður til hans" og réttlætingar á plágunum sem guð sendi yfir egyptaland til að Ísraelsþjóð í stað fyrir eðlilegar siðferðilegar spurningar á borð við "Er í lagi að Guð drepi fólk?" - nú eða að þetta væri flokkað undir goðsagnir en ekki einhvern sannleik eins og prestlærðu höfundar kristinfræðibókanna vilja oft halda.
Kristján Hrannar Pálsson, 8.10.2008 kl. 21:24
"...til að Ísraelsþjóð kæmist burt" átti þetta að vera.
Kristján Hrannar Pálsson, 8.10.2008 kl. 21:25
Það er mjög athyglisvert, hvernig viðbrögðin hafa verið við stuttu innleggi mínu hér ofar. Jóni Steinari og gervidoktornum er velkomið að hafa sínar eigin hugmyndir um það, hvernig hlutirnir eigi að vera, en eins og sést á innleggi mínu, var ég að beina sjónum að því, hvað mannréttindadómstóllinn var að úrskurða um:
Það er einfaldlega ekki hægt að draga miklu víðtækari ályktanir um, hvað bannað sé, heldur en liggur í úrskurðinum sjálfum. Þar að auki fjallar hann um sérstakt norsk mál, en aðalatriðið er þó þetta: Siðmenntarmenn eru að rangtúlka dóminn, láta sem hann banni kristna fræðslu í skólum.
Það segir líka sitt, að Jóhann Björnsson virðist ekki hafa átt röklegt andsvar sem hrakið hefði innlegg mitt. Hinir geta svo haldið áfram að ræða þetta á sínum nótum.
Jón Valur Jensson, 10.10.2008 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.