3.10.2008 | 22:04
"Illa vinstrigrænt" heimilishald virkar best í "kreppunni"
Það er mikið talað um kreppu þessa dagana. Fréttatímarnir eru fullir að sorgmæddum peningamönnum sem hafa rænt almenning hvað eftir annað og skilja ekkert hvað af peningunum hefur orðið. Ef til vill á ég eftir að finna fyrir einhverrri kreppu en ég hef ekki fundið neitt ennþá. Rafmagnið var á húsinu þegar ég vaknaði í morgun, það kom bæði heitt vatn og kalt úr krananum, það var matur í kæliskápnum, korn fyrir kisa og haframjölið var á sínum stað og ekki var nú kalt undir sænginni. Svo var keðjan enn á hjólinu þegar ég hjólaði af stað. Hvar er þá þessi kreppa? Aha kreppan er ekki alveg kominn til mín vegna þess góðir íslendingar að ég bý við "illavinstrigrænt" heimilishald og hef gert lengi, burtséð frá öllu efnahagsástandi.
Síðasta vetur kom orðalagið "illavinstrigrænt" og persónulýsingin að vera "illa vinstrigrænn" fram og þótti alveg svakalega hallærislegt að vera svona "illa vinstrigrænn" eins og ég og mín fjölskylda er. Allir voru að græða svo ógeðslega mikið og allir voru svo mikill "mannauður" og óku á svo dýrum blikkbeljum og bjuggu í svo stórum steypuklumpum og reyndu sem mest að svíkja og ræna almenning að það að vera "illa vinstri grænn" þótti bara ömurlegt. En nú er bara að koma í ljós að það að vera svona "illa vinstrigrænn" er að koma sér alveg einstaklega vel núna á þessum samdráttartímum. En hvernig þá? Hver er galdurinn á bakvið það að vera "illa vinstrigrænn"? Kíkjum á nokkur lykilatriði sem ég hef að leiðarljósi í mínu "illa vinstri græna" heimilishaldi hvort sem það er góðæri eða kreppa:
* Sama hversu góðærið er mikið, ekki fríka út. Hugsaðu að margur verður af aurum api og að peningar gera mann ekki hamingjusamann. Reyndu að gleyma því sem oftast að þú eigir einhvern auka aur.
* Keyptu aldrei hlutabréf í öðrum fyrirtækjum en þeim sem þú vilt styrkja af góðmennsku þinni. Ekki kaupa með gróðavon í huga. Sjálfur á ég lítinn hlut í fyrirtæki sem heitir Friðarhús og ætlast ég ekki til þess að sá hlutur haldi í mér lífinu.
* Ef þú eignast auka aur þá skaltu bara geyma hann á bankabók, ef þú átt einhvern smá slatta af aurum inni á banka þá mega vextirnir vera eins háir og hægt er og eins lengi og mögulegt er.
* Taktu helst aldrei lán. Safnaðu fyrir því sem þú ætlar að kaupa þér og ef þú nærð ekki að safna þá er málið einfalt, ekki kaupa hlutinn. Og alls ekki taka lán fyrir rugli eins og bifreið. Maður kemst væntanlega ekki hjá því að taka lán fyrir húsnæði en þá verður svo að vera, en ekki byrja á því að henda öllu út úr íbúðinni áður en þú flytur inn. Borgaðu eins mikið í henni og hægt er og málaðu og leggðu gólfefni einhvern tíman seinna. Það gerðum við í "illa vinstrigrænu" fjölskyldunni.
* Ekki búa í of stóru húsnæði. Hugsaðu um öll þrifin í stórum steinsteypu kassa og svo á maður eftir að deyja frá steypunni einhvern daginn fyrir utan hvað mikil steypa er dýr. Láttu ekki marmarasnobb bera þig ofurliði.
* Ekki fleiri bíla en einn á fjölskyldu. Og þó að það sé til bíll er engin skylda að nota hann daglega. Það gleður mig mjög þegar ég átta mig á að suma daga hreyfist bíllinn ekki neitt. Þá hefur reiðhjólið verið notað nú eða strætó. Á sama tíma og það gerist er verið að vinna gott starf fyri umhverfið.
* Aldrei að treysta stórum einkareknum fyrirtækjum, einkum bönkum, fjarskiptafyrirtækjum og tryggingafélögum. Þegar þessi fyrirtæki hringja og eru að bjóða manni gull og græna skóga á maður alltaf að hugsa um ævintýrið um úlfinn og kiðlingana sjö og biðja liðið vel að lifa. Þessi fyrirtæki eins og t.d. bankarnir og ekki síst svikamyllan O Vodafone vilja bara hafa af ykkur fé. Látum ekki blekkjast.
* Flokkaðu heimilissorp og láttu allt lífrænt í moltutunnu sem þú skalt síðan nota í matjurtargarð. Ég er nýbúinn að taka upp ljúfengar kartöflur og það var ekkert "kreppubragð" af þeim.
* Farðu frekar sparlega með rafmagn. Þetta lærði ég þegar ég bjó í Belgíu en ég komst að því að það skiptir líka máli á Íslandi að hafa ekki kveikt ljós að óþörfu.
* Það er algjör óþarfi og allt of dýrt að vera með Stöð 2. Ef maður vill sjá fínt myndefni er alveg eins gott að leiga sér mynd eða fá hana lánaða á næsta bókasafni að kostnaðarlausu.
* En eitt að lokum. Ef þig langar í gluggatjöld eða flatskjá og átt pening til að borga út í hönd þá skaltu fá þér slíkt, en aðeins ef þig langar en þú skalt ekki fá þér slíkt bara til að vera í samkeppni við nágrannan. Samkeppnin við nágrannana þegar efnisleg gæði eru annars vegar er eitt af því versta sem nokkur "illa vinstri græn" manneskja getur hugsað sér.
* Og svo eitt enn að lokum: Hugsaðu einstaka sinnum um fátæku börnin í Afríku, eða í Indlandi eða Brasilíu eða Mongólíu. Í ljósi þeirra verður kreppan hér á landi harla léleg og einhvernveginn getur maður ekki vorkennt peningamönnunum súru, nú nema kannski helst Bjarna Ármanns fyrir að vera svona ægilega blindur í verðmætamati sínu. Hann hlýtur að vera mjög óhamingjusamur.
Ég vona að þessir örfáu punktar hjálpi einhverjum í "kreppunni" . Við þurfum nefnilega að hafa í huga að allt er þetta pólitík. Pólitíkin er ekki bara það sem stjórnmálamenn gera og segja heldur getum við lifað okkar pólitíska lífi inni á eigin heimilum og því er vel hægt að halda "illa vinstri grænt" heimili.
Góða helgi, ég er sannfærður um að það verður frábær helgi framundan jafnvel þó það verði bensínskortur og ekki til amerískt Kókapuffs í Bónus. (það er þó í það minnsta enn fiskur í sjónum ekki satt).
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:19 | Facebook
Athugasemdir
heimilishaldið hjá mér er illa vinstri grænt.
Hólmdís Hjartardóttir, 4.10.2008 kl. 01:31
Við sem vorum of sein að koma þaki yfir höfuðið erum farin að finna vel fyrir"kreppunni" (má líka kalla þetta slæma efnahagsstjórn/stjórnleysi) af sökum óðaverðbólgu og verðtryggðra lána sem er fáánleg uppfinning. En sleppa má bílalánum, sérhönnuðum ljósum (innlit útlit) og gegnheilu parketi mín vegna auk þess sem bíll er lúxus og stöð 2 hvað er það? Ætli maður sé ekki eins "illa vinstri grænn" og fyrri ræðumenn.
Elín Sigurðardóttir, 4.10.2008 kl. 10:57
Er ekki gaman að geta núna hrokast upp yfir þessum fíflum? Það eina sem er örlítið virðingarvert á Íslandi í dag er að vera "illa vinstrigrænn"
halkatla, 4.10.2008 kl. 11:23
Já, einmitt Jóhann, það er það: illavinstrigrænn. Þess vegna er ég svona afslappaður, svona persónulega, festi mér Búsetaíbúð fyrir 17 árum og því betur settur en Elín: illavinstrigrænir miðaldra eru sennilega best settir í kreppunni (ég næ ekki alveg uppi í (eða oní) ofurlaunaliðið og arðræningjana sem tapa milljónum en eiga milljónir samt, það er lúxusvandmál). En í samninganefnd stéttarfélags hef ég hrikalegar áhyggjur af fólkinu sem er með laun fyrir neðan, hvað eigum við að segja: 200 þúsund krónur, allt niður í 130 þúsund og dugar hvorki að vera illavinstrigrænn, miðaldra né gamall. En takk fyrir þessa punkta þína.
Einar Ólafsson, 4.10.2008 kl. 16:23
ég sé ekki betur en verðtryggingin tryggi örbrigð okkar allra, þegar reikningurinn fyrir gleðskap illa frjálshyggjufólksins verður smám saman gjaldfelldur.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.