17.6.2008 | 14:20
Stjörnukort fjöldamorðingjans
Ég hef verið að lesa skemmtilega bók eftir heimspekinginn Stephen Law sem heitir The outer limits, more mysteries from the philosophy files (2003). Þetta er bók fyrir ungt fólk og byrjendur í heimspeki þar sem ýmis viðfangsefni eru rökrædd. Einn kaflinn fjallar um ýmislegt sem flokka má sem dularfullt eins og geimverur, drauga, galdra osfrv.
Stjörnukort og áreiðanleiki þeirra er eitt af því sem Stephen Law ræðir. Segir hann sögu af manni sem ákvað að rannsaka stjörnukort og viðbrögð fólks við þeim. Umræddur maður auglýsti árið 1979 ókeypis stjörnukort í blaði og lét hann alla þá sem óskuðu eftir slíku fá eintak. Auk kortanna fylgdi könnun um það hvað fólki fyndist um "sitt" stjörnukort. Málið var það að allir fengu sama kortið án þess að vita af því en hann notaði kort sem gert hafði verið af stjörnuspekingi fyrir fjöldamorðingjann Dr. Petiot sem tekinn var af lífi 1947 fyrir að hafa viðurkennt að myrða alls 63 einstaklinga. Þetta var því alvöru stjörnukort en ekki gert fyrir þá sem fengu það sent.
Fólkið sem fékk umrætt stjörnukortin stóð í þeirri trú að það hefði verið gerð fyrir hvert og eitt þeirra og af þeim 150 fyrstu sem svöruðu könnuninni þá sögðu 94% að kortið sem þau fengu passaði vel við þeirra persónuleika og 90% vina þeirra og fjölskyldumeðlima voru á sömu skoðun.
Hvernig stendur á þessu?
JB
Athugasemdir
Skortur á sjálfsímynd. Fólk, sem leitar í slíka hjátrú er háð því að láta aðra segja sér hvert það er. Stjörnuspekin eins og skilaboð miðla, eru alltaf á jákvæðum nótum og gefa hugmynd um sérstöðu og persónuleg einkenni, sem allir ættu að kannast við. Allt sem sagt er í þessum fræðum á við alla, af því að manneskjan er margbrotin og ber í sér öll persónuelement í misjöfu mæli.
Þetta skýrir einnig selectíva upplifun trúaðra á ritningunum, þar sem alger blinda virðist vera á neikvæðar hliðar þeirra rita og afleiðingar. Hið illa er alltaf mannaverk og mannasetningar, þó svo að engin dæmi séu til um beina íhlutun guðs til góðs né ills.
Afneitun er merkilegur hlutur og er hluti af andlegum varnarmekanisma, sem fólk getur setið fast í. Afneitun á dauðann er til dæmis alger undirstaða trúarbragða. Við sköpum okkar veruleika sjálf, hvað sem hinn eiginlegi veruleiki segir. Svart verðiur hvítt og hvítt svart, allt eftir hentugleikum.
Margir fjöldamorðingjar telja sig hafa verið að vinna góðverk og jafnvel þjóna guði. Veruleikinn yrði þeim ofviða þar, því enginn getur viðurkennt að hann sé villidýr en ekki maður. Það er t.d. ástæða fyrir mikilmennsku sköpunarsinna, sem neita að viðurkenna að þeir séu af öpum, af einskærri sjálfumgleði og máske fórdómum gagnvart öpum.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.6.2008 kl. 17:25
Kannski má skrifa þetta á inngrónar ranghugmyndir okkar um mikilvægi okkar í lífrænu og kosmísku samhengi. Það er í raun ansi skondið að sjá hve margt fólk er algerlega sannfært um þetta mikilvægi.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.6.2008 kl. 17:28
g studeraði stjörnuspeki í mörg ár. Þetta eru ótrúlega flókin fræði og margt að taka tillit til. Ef það var eitthvað sem ekki stemdi, þá var það örugglega vegna þess að maður kunni ekki nóg í fræðunum. Þetta var líka mikið túlkunaratriði, hvaða aðtriði hafði meira að segja. til dæmis gat farið framhjá pláneta sem boðaði miklar breytingar, samtímis fór framhjá önnur pláneta sem boðaði tregðu eða stabílitet. Ef maður spáði vitlaust þarna, þá var það vegna þess að maður vissi ekki hvað var sterkara, ekki að það væri eitthvað vitlaust við stjörnuspekina. Svo er náttúrulega að sönnunarbirgðin er öfug á við alvöru vísindi, sem koma fram með teoriu sem vísindamenn reyna að afsanna. Stjörnuspekingar koma fram með teoríu sem þeir reyna svo að sanna með ýmsum rökum.
Vegna þess að stjörnuspekn er svo margþætt, er ekki auðvelt að finna astrologiska tvíbura. Þeir þurfa að vera fæddir á sömu breiddargráðu, samtímis. Þeir sem komast næst þessu eru tvíburar teknir með keisara, en þar sem þeir eru náskyldir og þar að auki alast þeir upp í sama umhverfi, er það ekki marktækt. Frænka mín fæddi sták í Reykjavík um leið og ég fæddi stelpu í Oslo. Mér skilst að þau eigi mjög lítið sameiginlegt þessi börn, þó þau séu fædd samtímis, nokkuð jafn norðarlega á hnettinum. Það vakti grun minn þá að lítið væri að marka þetta og ég er nú alveg sannfærð um að þetta sé bara rugl. Ég var tildæmis á námskeiði hjá stjörnuspekingi, en kona hans átti von á barni um svipað leyti og hann var búinn að lofa sér á námskeið í Stockholmi. hann kíkti í kort konu sinnar og sá að barnið mundi fæðast fyrstu vikuna í oktober og bókaði sig þess vegna ekki þá viku. Þetta passaði reyndar líka við sonarskoðun, en það fylgdi ekki sögunni.
Það er líka mikil hjálp í að vita að erfiðleikarnir eru tímabundnir, það er, eru búnir þegar erfið pláneta er farin framhjá, en ég var einu sinni búin að sjá fyrir svona mikla erfiðleika hjá minni fjölskyldu. Allir fjölskyldumeðlimirnir voru með einhverja erfiða plánetu í byrjun árs 1995. Ég kveið mikið fyrir þessum tíma, bjóst við dauðsfalli eða eitthverju svipuðu, en lífið var bara venjulegt og auðvitað gat ég fundið smá erfiðleika þetta tímabil eins og alltaf þegar maður leitar, en auðvitað hafði ég bara spáð vittlaust!!
Sorry Johan en ég er með Merkur í 3. húsi og á erfitt með að hætta að tala þegar ég byrja. ha ha!!
Ásta Kristín Norrman, 17.6.2008 kl. 19:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.