Læðurnar rífast og fressið malar úti í horni og segir I love it

Þegar maður fiktar í sjónvarpsfjarstýringunni i einhverju tilgangsleysi þá bregður stundum fyrir sjónvarpsstöð sem heitir ÍNN. Ég hef ekkert spáð mikið í þessa stöð en veit þó að henni svipar mikið við fyrstu sín til sjónvarpsstöðvar sem heitir Omega. Það er eitthvað sem hefur með umgjörðina að gera sem minnir mig á Ómega. Sjónvarpsstjórinn á ÍNN kemur líka dálítið fyrir sem trúboði, hann hefur höndlað einhvern sannleika og þrumar honum illa undirbúinn í loftið í beinni af miklum sannfæringarkrafti og stundum ofsa.

Þessi sjónvarpssöð var í fréttum núna nýverið þar sem sagt var frá ýmsu athyglisverðu sem þar er að gerast innandyra (kannski ekki ósvipað og gerist innan veggja sérstakra lítilla trúarsafnaða). Það var talað um tvo þáttastjórnendur (sem stýra sama þættinum) sem læður sem rífast og tala um píkurnar á sér og sjónvarpsstjórinn var hinn kátasti og hagaði sér eins og barn á skólalóð þegar slagur brýst út: "slagur slagur slagur" hrópa börnin á skólalóðinni en sjónvarpsstjórinn hrópaði hinsvegar þetta þegar slagur kvennanna tveggja braust út: "Þær rífast svakalega I love it"... og "Já já þær ræða um píkuna á sér og mikið." Og greinilegt að sjónarpsstjórinn sem í greininni er kallaður fress var í essinu sínu, hafði fundið hamingjuna og tilgang lífsins líka (sem er nú ekki lítið). (Frbl.10.05.08)

Þetta hlýtur að vera býsna geggjað sjónvarpsefni þar sem eitt meginmarkmiðið virðist vera rifrildi rifrildissins vegna. Alla vega var málunum þannig stillt upp þegar þátturinn hóf göngu sína en þá var viðtal við einn af þáttastjórnendunum sem sagði svo um þáttinn að hann ætti að vera rifrildisþáttur. Gefum einum þáttastjórnandanum orðið:

"Það verður heldur ekki staðnað viðtalsform á þessu. Þetta verða bara konur sem hafa skoðanir og þora að segja þær upphátt. Við ætlum að vera mjög opinskáar og hispurslausar í öllu sem við fjöllum um, og þetta verður vonandi líkara rifrildi en samræðum."(Fréttablaðið 18.01.2008)

Þar sem rifrildisviljinn er mjög einbeittur er ekki að undra að soðið hafi upp úr þannig að karlremubfressið sem elskar "bitsfæt" hafi þurfta að miðla málum á sama tíma og  hann elskaði slaginn.

Fréttir af rifrildi í beinni og ósætti á fjölmiðlum er frekar súrt  fréttaefni og lyftir fjölmiðlunum sem greina frá slíku ekki upp á neitt sérstakt plan. En þetta er svona dæmigert fyrir fólk sem ekki kann að skiptast á skoðunum, getur ekki verið ósammála án þess að keyra ágreininginn í rifrildi og hin verstu leiðindi sem engu skilar nema púkum eins og sjónvarpsstjóranum sem skemmtir sér yfir bullinu. Þarna skortir greinilega inn í þáttinn listina að rökræða ágreining þar sem reynt er að komast að skynsamlegri niðurstöðu í stað þess að yfirbuga andmælandann í öskrum og leiðindum. Það er virðingarvert að halda úti þætti þar sem ágreiningsmál eru rökrædd og mjög þarft mál en að sama skapi afskaplega ómerkilegt ef rifrildið á að vera aðalmálið.

Ég hef lengi kennt unglingum lífsleikni og lagt á það sérstaka áherslu að mikilvægt sé að rökræða í stað þess að rífast. Með rökræðunum er gert ráð fyrir og þykir sjálfsagt að fólk hafi ólíkar skoðanir en geti rætt þær í góðsemi án þess að það þurfi að stofna til rifrildis þar sem einn þarf endilega að standa upp úr sem sigurvegari.  Ég nefni þetta hér vegna þess að þetta er með því mikilvægara sem nokkur lífsleiknikennari getur óskað sér að nemendurnir tileinki sér. Hið undarlega er þó að einn af þáttastjórnendunum í þættinum umrædda sem á að vera "líkara rifrildi" en nokkuð annað er aðjúnt í lífsleikni við Kennaraháskóla Íslands. Ekki veit ég hvernig lífsleikniáherslurnar eru í Kennaraháskólanum en allavega ef þær einkennast af mikilvægi rifrildisins rifrildisins vegna þá eru þær mjög ólíkar áherslum þeim sem við höfum í Réttó.

Kannski að unglingarnir í Réttarholtsskóla gætu tekið lífsleiknikennarana í Kennaraháskólanum í smá kennslustund í mun á rökræðum og rifrildi? Það gæti orðið fróðlegt (þ.e.a.s. fyrir kennarana).

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ótrúlegt að þetta rugl komi frá lífsleiknikennara við KHÍ.  Ákveðnir menn mala milljónir á svona lágkúru í USA.  Leitt að við þurfum að falla í þann fúla pitt. 

Svanur Sigurbjörnsson, 13.5.2008 kl. 00:02

2 Smámynd: Stefanía

Þetta er með ólíkindum !...Hvar erum við stödd ?

Stefanía, 13.5.2008 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband