Hætti að prófa nemendurna

Í dag birtist í 24 stundum stutt grein sem byggð er á spjalli okkar Ingibjargar B Sveinsdóttur um skólamál. Hafði hún hlustað á viðtal við mig á Rás eitt um heimspeki í skólastarfi og tók hún eftir afstöðu minni til prófa og námsmats og vildi hún heyra meira. Ekki skírir greinin að fullu sjónarmið mín enda þyrfti mun meira pláss í blaðinu til að koma því öllu til skila. Miðað við þann áhuga sem fólk hefur sýnt skoðunum mínum á skólamálum væri full ástæða til að skrifa sérstaka grein og birta á öðrum vettvangi. Ekki er ólíklegt að ég geri það. En grein 24 stunda er svohljóðandi:

"Nemendur í Réttarholtsskóla sem sækja valfrjálst heimspekinámskeið hjá Jóhanni Björnssyni, heimspekingi og kennara, eru  ekki þjakaðir af prófkvíða vegna námsins eins og svo margir aðrir nemendur á þessum árstíma. Jóhann hætti nefnilega að prófa nemendurna fyrir nokkrum árum. "Mér blöskraði þegar ég hóf störf hér fyrir 6 árum yfir því hversu gríðarlega uppteknir nemendur voru af einkunnunum. Mér fannst það há kennslunni. Nemendur spurðu mig á göngunum um hvers vegna þeir hefðu fengið þessa tölu í einkunn en ekki einhverja aðra. Núna eiga þeir hins vegar til að velta upp einhverjum spurningum varðandi námsefnið þegar þeir mæta mér á göngunum," greinir Jóhann frá.

Hann gerir heldur ekki kröfu um að nemendur tjái sig í heimspekitímunum. "Í sumum skólum er ætlast til að allir taki til máls og tjái sig og svo eru nemendur metnir í framhaldi af því. Ég hef aldrei krafist þess. Hlustun og umhugsun er einnig þátttaka. Ég sannfærðist enn betur um þetta eftir að hafa verið með nemanda sem var málhaltur. Það hefði verið óréttlátt gagnvart honum að meta hann með tilliti til þátttökur í umræðu. Ég sá hinsvegar á látbragði hans að hann var virkur."

Jóhann kveðst reyna að halda prófafjölda í öðrum greinum sem hann kennir, landafræði og frönsku, í lágmarki. Og hann lætur nemendur taka þátt í gerð prófanna. "Í landafræði hef ég stundum látið nemendur búa til eins margar spurningar og þeir geta úr námsefninu. Þeir læra um leið og þeir semja spurningarnar sem þeir skila undir nafni. Ég vel síðan hluta af spurningum þeirra og nota sem grunn í prófinu."

Það er mat Jóhanns að kennarar noti í mörgum tilfellum próf sem agastýringu og hann kveðst sakna vitrænnar umræðu um námsmat. "Þegar fjöldi prófa er mikill hætta sumir nemendur að taka þau alvarlega en aðrir fyllast af streitu. Þegar lestur fyrir mörg skyndipróf í sömu viku bætist ofan á fullan vinnudag nemenda verður þessu ekki öllu sinnt. Kennarar þurfa að spyrja sig hversvegna þeir prófa og hversu oft þeir eigi að prófa."

Jóhann saknar þess einnig að skólastarf skuli ekki miða að því að stuðla að hamingju nemenda. "Það má leggja meiri rækt við það á meðvitaðari hátt. Þetta markmið vantar í námskrána. Með því að fækka prófum reyni ég að leggja mitt af mörkum.""

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæll Jóhann

Ég hef oft velt fyrir mér tilgangi prófa í skólastarfi, einkum á yngri stigum. Tel próf þar gera frekar ógagn en gagn, góður kennari hlýtur að vita stöðu nemendans án þess að þurfa að leggja próf fyrir. Það að senda ung börn heim með stimpilinn "þú getur ekki" getur ekki verið uppbyggjandi.

Eftir því sem líður á skólagöngu geta próf verið ein leið til að halda nemendum við efnið, fleiri leiðir eru til.

Próf eru stórlega ofmetin sem mælikvarði á árangur, einkum þegar haft er í huga að þau eru oft illa samin. Ég fjalla aðeins um samræmd próf í náttúrufræði í pistli sem ég birti í dag. Þar er pottur brotinn. Ég hef sagt við dóttur mína (sem er mjög metnaðarfull): "ef þú færð 10 á náttúrufræðiprófinu, þá hefurðu gert eitthvað vitlaust". Þetta segi ég af því að það hafa undanfarin ár verið svo margar villur í prófunum.

Takk fyrir.

Kristjana Bjarnadóttir, 26.4.2008 kl. 16:45

2 identicon

Próf eru nánast þarflaus í einstaklingsmiðuðum kennsluháttum..kv gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 17:15

3 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Athyglisvert. kv. B

Baldur Kristjánsson, 26.4.2008 kl. 19:01

4 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

mín skoðun er sú að próf eru athugun á hæfileikum til að muna orðrétt upp úr bók, ekki því hvernig maður kann efnið ... að því sögðu held ég áfram að baksa við að læra utanbókar gömul próf úr lífeðlisfræði og frumulíffræði í á fyrsta ári í hjúkrunarfræðideild háskóla íslands

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 27.4.2008 kl. 11:12

5 Smámynd: Zaraþústra

Það er margt sem þarf að endurskoða við núverandi kerfi.  Í fyrsta lagi er það of einsleitt.  Það verður að auðvelda til muna fjölbreytileikan í menntakerfinu.  Kennsluaðferðir í dag eru ekki annað en gamall vani sem enginn dregur í efa. Spyrjum okkur til dæmis:

Er virkilega gagn í heimavinnu? Ýmislegt bendir til þess að flest öll heimavinna sé annað hvort gagnlaus eða hafi neikvæð áhrif á einkunnir.

Er mætingakerfi í framhaldsskólum virkilega gagnlegt? Er það ekki á ábyrgð nemandans að stunda námið af skyldurækni?

Er áfangakerfið virkilega gagnlegt?  Af hverju þurfa allir að læra það sama?

Stundum velti ég því fyrir mér hvort Akademían hafi verið besti skóli allra tíma og síðan þá hafi allt versnað.   Ég held að ef við myndum eyrnamerkja ákveðna fjárhæð öllum nemendum á skólaaldri sem myndi fylgja þeim í hvaða skóla sem þau velja og við myndum auðvelda til muna stofnun einkaskóla, þá gætum við aukið fjölbreytileika og eftirvill losnað úr viðjum vanans.  Það er alveg út í hött að halda að það sé gagnlegt að kenna öllum það sama og alveg eins.  Af hverju er ekki hægt að fá stúdentspróf í leiklist og dans?  Það er hægt að spyrja svona endalaust.

Zaraþústra, 27.4.2008 kl. 15:43

6 Smámynd: Zaraþústra

Laissez-Faire, ég tók ekki eftir svari þínu fyrst.  Það ætti ekki að hanna menntakerfi þannig að tilgangurinn helgi meðalið.    Lærdómur í sjálfum sér er gagnlegur og nóg fyrir suma.  Þeir sem vilja komast til metorða og keppa á atvinnumarkaði geta af eigin rammleik valið sér hentug fræði til að læra og keppt aðra eins þenkjandi.  Það drepur enga samkeppni að sleppa því að leggja próf fyrir menn, forstjóri fyrirtækis veltir því ekki fyrir sér hvort þú fékkst 6 í ÍSL303.  Sumum nægir að keppa við sjálfan sig og ég held sú aðferð hafi dugað mörgum andans mönnum í gegnum tíðinna.

Zaraþústra, 27.4.2008 kl. 15:58

7 identicon

Sæll frændi, er svo hjartanlega sammála þér með námsmatið. Hef reynt þetta á eigin skinni og nemenda s.l. ár og fæ aulahroll við tilhugsunina eina. Flott hjá þér að vekja máls á svo miklu hitamáli. Góður

Jonna frænka (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 22:21

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Góð hugsun.  Illa samin próf geta reynst verri en engin því þau geta dregið svo mikið úr áhuga nemandans að hann verði fráhverfur námi og reiður út í skólakerfið.  Það er mikill vandi að semja góð próf og það þyrfti að taka verulega til í þeim efnum víða, sérstaklega á efstu skólastigunum.  Takk.

Svanur Sigurbjörnsson, 29.4.2008 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband