Bjóðum unglingana velkomna í predikunarstólinn en biðjumst afsökunar á orðum þeirra

Sunnudaginn 2. mars s.l. ávarpaði ungur maður, 15 ára gamall söfnuð Laugarneskirkju. Ræða hans vakti athygli og þar sagði hann m.a.:

"Góðir áheyrendur! Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Þjóðkirkjan byggir tilvistargrundvöll sinn á fáfræði og ranghugmyndum almennings um kristindóminn. Hún væri ekki lengur til nema vegna þess að starfsmenn hennar nútímavæða kristindóminn og fella hann að siðferði samtímans. Einnig virðist það í tísku hjá Þjóðkirkjuprestum að eigna kristninni allt það sem gott þykir og göfugt; telja mönnum trú um að náungakærleikurinn, nútímasiðferðið og jafnvel lýðræðið sé arfur kristninnar. Þannig erum við látin halda að við séum kristin, þótt í raun sé siðferði okkar og samviska okkur eðlislæg.

Sumir sjá kannski ekkert athugavert við þessa aðferð Þjóðkirkjunnar og finnst líka ágætt að til sé stofnun er landsmenn nota til að halda upp á merkileg tímamót í lífi sínu. En þá kemur græðgin til sögunnar. Æðsti maður þjóðkirkjunnar, biskup Íslands, hefur nefnilega ítrekað teygt sig út fyrir valdsvið sitt og látið duttlunga sína og þröngar lífsskoðanir bitna á réttindum annarra trúfélaga og þjóðfélagshópa. Nýverið kom hann í veg fyrir að öllum trúfélögum á landinu yrði veitt heimild til að gifta samkynhneigð pör. Haft var eftir honum að með slíkri heimild væri hjónabandinu kastað á sorphauga. Ég er á þeirri skoðun að athæfi biskups feli ekki einungis í sér grafalvarlega og ókristilega mannfyrirlitningu, heldur ráðist hann einnig til atlögu við sjálfa trúfrelsishugsjónina.

Þetta og fleira hefur vakið upp mikla andstöðu við Þjóðkirkjuna. Á síðasta ári skráði sig nánast heilt prósent þjóðarinnar úr henni. Samtök á borð við Siðmennt og Vantrú sækja í sig veðrið og yfirmenn Þjóðkirkjunnar verða hræddari um stöðu sína með hverjum deginum. Vinaleið Þjóðkirkjunnar í grunnskólum er ein afleiðing þessarar hræðslu, en það verkefni hefur sætt gagnrýni og þykir jafnvel stangast á við grunnskólalög og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þótt yfirvöld Þjóðkirkjunnar virðist stundum gráðug og siðlaus veit ég að innan kirkjunnar fyrirfinnst fjöldi góðs og kærleiksríks fólks sem ber velferð almennings fyrir brjósti. Þetta fólk hvet ég til að standa upp og mótmæla forræðishyggju samstarfsmanna sinna!"

Nú gerðist það síðan í gær í þessari sömu kirkju að séra Hildur Eir Bolladóttir sá ástæðu til þess að biðja söfnuðinn afsökunar á orðum unga mannsins. Hún sagði m.a. að prestar safnaðarins hörmuðu það sem hann sagði um biskup Íslands og baðst síðan afsökunar á orðum hans. Það sem ekki síst vakti athygli mína er að hún sagði að of lítið væri hlustað á unglinga og að kirkjan væri kjörinn vettvangur fyrir unglinga að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að það skipti máli að að heyra í unglingum.

Hrokinn gagnvart unglingum getur varla orðið meiri að mínu viti. Vissulega er það rétt að við þurfum að gera meira af því að hlusta á sjónarmið unglinga, en hvers virði er það ef ávallt kemur einhver siðapostuli á eftir og biðst afsökunar á því sem unglingurinn segir? Skilaboðin til unglinga eru í raun þessi frá kirkjunni: "Við bjóðum unglingana velkomna í ræðustólinn en við biðjumst afsökunar á orðum þeirra."

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dapurlegt

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 13:57

2 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

LOL, góður þessi 15 ára púki þarna, líst vel á hann. Hann hefur sennilega meira á milli eyrnanna en 10 prestar til samans. Þessi súra afturhalds miðaldarstofnun á eftir að líða undir lok þótt fyrr verði, hinsvegar er ljóst að dauðaslitrurnar verða örugglega langar, ljótar og siðlausar að hætti hússins.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 10.3.2008 kl. 15:54

3 Smámynd: Sigurjón

Þetta er hrein og bein svívirða hjá téðum presti!  Gott er að heyra að einhverjir prestar séu nógu umburðarlyndir til að hleypa gagnrýnum, ungum mönnum í ræðustól krikna landsins, en að sama skapi slæmt að heyra að annar prestur þurfi svo að biðjast afsökunar fyrir hönd mannsins...

Sigurjón, 10.3.2008 kl. 16:22

4 identicon

Ég biðst afsökunar fyrir hönd þessa prestlings, hrokin og ruglið í þessu liði er magnaður, enn magnaðra er það að íslensk þjóð sætti sig við að halda þessu liði uppi, liði sem kennir sig við kærleika þó saga þeirra sé allt annað en kærleiki, að íslensk þjóð sætti sig við að halda þessu liði uppi fyrir milljarða árlega á meða aldraðir og sjúkri lepja dauðann úr skel.. kannski það sé hið kristilega siðgæði.
Starfsheitið prestur er ekki til í minni orðabók nema sem svindlari og svikahrappur.

DoctorE (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 17:31

5 Smámynd: Toshiki Toma

Mér finnst margt vera gott að hlusta á einlæga skoðun stráksins. Hann sagði bara það sem hann hugsaði.

Hins vegar liggur ábyrgð á viðkomandi kirkju hvort það sé viðeigandi 
að láta strákinn tala í prédikunarstóli eða ekki.  

Toshiki Toma, 10.3.2008 kl. 18:12

6 Smámynd: Landfari

" En þá kemur græðgin til sögunnar. Æðsti maður þjóðkirkjunnar, biskup Íslands, hefur nefnilega ítrekað teygt sig út fyrir valdsvið sitt og látið duttlunga sína og þröngar lífsskoðanir bitna á réttindum annarra trúfélaga og þjóðfélagshópa. "

Held að Biskupinn sé nú bara að tala fyrir stórum meirihluta landsmanna. Jafnvel þótt það geti vel verið að það heyrist meira í hinum.

Persónulega skil ég ekki alveg hvað samkynhneigðum gengur til að sækja það svona stíft að "ganag í hjónband"

Hjónband er samband á milli karsl og konu. Ekki tveggja kvenna eða tveggja karla frekar en tveggja eða fleiri kvenna og eins karls eða öfugt. Það eru til önnur orð yfir slík sambönd.

Það sem skiptir höfuðmáli er að lagaleg réttarstaða þessa fólks sé sú sama bæði gagnvart maka og börnum. Þau réttindi eru í höfn að því er mér skilst og er það vel.

Nú þarf bara að hafa góða nafnasamkeppni til að finna gott og þjált orð yfir þetta því vissulega er staðfest sambúð ekki nógu þjált.

Það er vissulega gott mál og nauðsynlegt að hlusta á unglingana enda margt gott og skynsamlegt sem þaðan kemur. Hinsvegar geta þau, ekki síður en sumir fullorðnir, þurft leiðsögn um hvað er viðeigandi við hin ýmsu tækifæri.

Landfari, 10.3.2008 kl. 18:23

7 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Var þarna í fyrri messunni, sá ræðu hans.  Ég er viss um að þau voru búin að heyra hana og fannst hún í lagi.  Það hefur verið eitthvað móðursjúkt fólk sem hefur krafið þau um afsökunarbeiðni.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 10.3.2008 kl. 22:33

8 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þessi ungi maður heldur úti moggabloggsíðu.

Matthías Ásgeirsson, 11.3.2008 kl. 10:46

9 identicon

Mér þætti gaman að vita hvernig viðbrögð kirkjugesta voru, því væntanlega eru það kristnir íslendingar og fáir aðrir sem sækja messur. Sjálfri finnst mér leiðinlegt að heyra af manni sem kemur með hápólitíska ræðu inn á vettvang eins og þennan, messur eru mörgum heilagar og mikið skjól og þar á fólk að geta iðkað trú sína í friði, kirkjur eru kristnum griðarstaður. Svo langar mig að minnast á það í ljósi margra athugasemda sem komið hafa hérna fram að vantrúaðir og aðrir sem segja okkur, trúaða, hafa lítið milli eyrnanna og annað í þeim dúr þykir mér alveg mega sýna lágmarkskurteisi. Það eru t.d. fjöldamargir, og flestir miðað við mína reynslu, sem aðhyllast kristna trú sem hafa gengið í gegnum efasemdatímabil en snúið aftur til trúarinnar og það er þeirra eigið val. Það er ekki samasemmerki milli trúar og heimsku og mér er farið að leiðast það að vera kölluð illum nöfnum vegna skoðana minna sem ég á fyrir mig og er ekki að þröngva upp á einn eða neinn. Það þurfa ekki allir að hafa sömu skoðanir. Auk þess, í ljósi þess hve mikið skítkast fylgir trúarumræðunum, langar mig að spyrja: er ekki nauðsynlegt að hafa umræðuna málefnalega til að hún skili einhverju?

Það virðist eins og vantrúaðir séu sífellt að reyna að bjarga okkur ,,vitlausa kristna fólkinu".

Ég hef sagt mitt og takk fyrir það ;)

Inga (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 12:51

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Voðaleg einsýni er þetta! Þótt ýmislegt væri ágætt í því sem strákur sagði voru ummæli hans um biskupinn einfaldlega dónaleg. Flestu siðuðu fólki finnst sjálfsagt að biðjast afsökunar á dónaskap sem það sjálft hefur í frammi eða ber ábyrgð á. Maður þarf nú að vera smá hatrammur til að finnast annað, bara af því að þetta er biskupinn og maður er á móti honum.

Annars má velta því fyrir sér hvort það sé ekki einkennilegt að láta yfirlýstan trúleysingja predika í kirkju. Er það ekki bara eins og ef Pétur Blöndal yrði fenginn til að flytja landsfundarræðu hjá VG?

Þorsteinn Siglaugsson, 11.3.2008 kl. 13:00

11 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ummælin um biskup voru einfaldlega sönn.  Á sannleikurinn ekki heima í prédikun?

Svo langar mig að minnast á það í ljósi margra athugasemda sem komið hafa hérna fram að vantrúaðir og aðrir sem segja okkur, trúaða, hafa lítið milli eyrnanna og annað í þeim dúr...

Hvar segja þeir það?  Ég geri ráð fyrir að Inga sé að tala um trúleysingja almennt, en hér vil ég benda á grein á Vantrú sem fjallar um svona ásakanir: Þið eruð ekki fífl

Matthías Ásgeirsson, 11.3.2008 kl. 14:03

12 identicon

Það kemur málinu ekkert við hvort ummæli Jóhanns um biskup voru dónaleg eða ekki. Prestarnir í Laugarneskirkju buðu honum að tala og voru búin að sjá ræðuna áður en hún var flutt.

Þau gátu alveg beðið biskup afsökunar á sínum þætti, þ.e. að leyfa Jóhanni að tala í kirkjunni, en það er blátt áfram skammarlegt að biðjast afsökunar á orðum hans sem slíkum. Hann er einn ábyrgur fyrir þeim, og ég er illa svikinn ef hann stendur ekki við þau.

Þetta er sorglegt mál, prestarnir sem í síðustu viku komu fram sem víðsýnir talsmenn opinnar umræðu reynast þegar á hólminn er komið  meta velþóknun biskups meira en heiðarleika og virðingu fyrir þeim æskulýð sem sunnudagurinn fyrir rúmri viku var helgaður. Ef ég væri í Þjóðkirkjunni og þ.a.l. safnaðarbarn þeirra Hildar og Bjarna myndi ég biðjast margfaldlega afsökunar á vitleysunni og hérahættinum.

Jón Yngvi Jóhannsson (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 14:57

13 identicon

Téður piltur hefur mikið til málanna að leggja........Flottur drengur.

Spekingurinn (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband