9.3.2008 | 11:35
Grunnskólakennari rændi sjoppu, bankastjóri beit viðskiptavin, húsmóðir sparkaði í karl....osfrv.
Dv greindi frá því um helgina að ung stúlka hafi orðið fyrir árás í miðborg Reykjavíkur að því er virðist eingöngu vegna þess að hún er pólsk. Ekki kemur þetta mér á óvart í ljósi þess hvernig óvild í garð pólverja og ýmissa annarra erlendra þjóðfélagshópa hefur birst að undanförnu. Í Reykjanesbæ grasserar hatrið í félaginu Ísland fyrir íslendinga og vefsíða sem sérstaklega var beint gegn pólverjum var nýlega lokað en á hana höfðu skrifað fleiri hundruð ungmenni gegn pólverjum.
Í ljósi þessarar stöðu sem er mjög viðkvæm þá hélt ég að fjölmiðlar myndu gæta sín í fréttaflutningi, en svo er greinilega ekki. Morgunblaðið í gær greinir frá hrottalegum ofbeldisglæp sem átti sér stað í Vestmannaeyjum og er er eitt það mikilvægasta sem kemur fram í fréttinni (að mati Morgunblaðsins) að hinn seki er pólskur að uppruna. Fréttin er vissulega ekki röng en það er spurning hvaða áhrif sú staðreynd að í þessu tilviki var um pólverja að ræða hafi á fólk sem er er andsnúið útlendingum.
Er Morgunblaðið með slíkum fréttum að ýta undir andúð á pólverjum? Er alltaf nauðsynlegt að greina frá þjóðerni, kynhneigð, og störfum þeirra sem fremja glæpi? Ég varpa þessu fram til umhugsunar.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:54 | Facebook
Athugasemdir
Þessi frétt í Mbl. vakti einnig athygli mína annars vegar vegna þess að dómurinn var óvenju harður og hins vegar vegna þess að þjóðerni gerandans var tekið fram. Sannarlega ýtir þetta undir fordóma. Morgunblaðið setur niður með slíkum vinnubrögðum blaðamanna.
Sem strákur vann ég eitt sumar út í Kaupmannahöfn á sjúkrahúsi. Í lok vinnudags einn föstudaginn var boðið upp á smurbrauð, bjór og snaps. Á þessum árum ríkti mikil stéttaskipting innan sjúkrahúsanna og fann yfirhjúkrunarkonan skemmtilega fyrir ábyrgð sinni sem yfirhjúkrunarkona. Hún hélt stutta tölu, og bauð upp á veitingar en sagði að hún væri nú ekki viss hvort hún ætti að bjóða mér upp á bjór, Íslendingar færu alltaf á fyllerí. Ég skaut inní að ég hefði aldrei farið á fyllerí. Við þetta innskot færðist hún öll í aukana og sagði skemmtisögur af ungum strákum sem höfðu unnið á sjúkrahúsinu. Þeir hefðu notað öll tækifæri sem gáfust til þess að detta í það. Hún settist síðan við hliðina á mér og dró athyglina að mér og spurði hressilega, ofnota allir Íslendingar bjór. Vissulega gera það einhverjir þegar þeir koma til Kaupmannahafnar,heima er ekki seldur bjór. Hins vegar færi það orð heima af dönsku kvenfólki að það væri frjálslynt í kynlífi. Ég væri nú ekki viss hvort þetta ætti við um allar danskar konur. Með bjórnum losnar oft um hömlur, sagði ég um leið og ég færði mig til um eitt sæti. Þetta vakti kátínu. Fyllerí Íslendinga var aldrei aftur rædd, en ég fékk oft spurningar um náttúrufegurðina á Íslandi.
Sigurður Þorsteinsson, 10.3.2008 kl. 06:05
Ég er alveg sammál þér í þessu. Þetta er ekki til eftirbreytni enda verknaðurinn sá sami hvort sem um "bílstjóra" eða "gjaldkera" var að ræða.
Það ber þó að geta þess sem vel er gert og skónúmer viðkomandi var var ekki gefið upp enda Mogginn áttað sig á að það skipti ekki máli.
Landfari, 10.3.2008 kl. 18:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.