4.3.2008 | 09:29
Enginn vill mikla umferð en allir vilja eiga þrjá bíla (hlustað á umræður á íbúafundi í Bústaðahverfi)
Ég mætti á fund íbúasamtaka Bústaðahverfis sem haldinn var fyrir helgi um umferðarmál hverfisins. Nú stendur til að gera breytingar á aksturleiðum og íbúarnir höfðu ýmislegt um það að segja. Það sem stendur þó upp úr þessum annars ágæta fundi var afstaða margra (kannski flestra) sem til máls tóku en með litlum ýkjum þá fólst hún í eftirfarandi hugsun:
"Ég vil ekki marga bíla í minni götu. Ég vil að umferðin fari að mestu um aðrar götur hverfisins (sem eru þá götur nágranna minna í hverfinu). Ég vil ekki mikinn umferðarnið og ég vil ekki svifrik frá bílaumferð við heimili mitt né við leik- og grunnskóla barnanna minna. Ég vil ekki mikinn umferðarhraða í hverfinu mínu og allra síst í minni eigin götu. Ég vil hinsvegar geta komist hratt og örugglega og alveg hindrunarlaust allra minna ferða á einkabíl þegar ég vil. Og síðast en ekki síst þá finnst mér sjálfsagt að á mínu heimili séu til þrír bílar eða a.m.k. alls ekki færri en tveir."
Þegar hugsunarhátturinn er á þessa leið þá getum við alveg gleymt því að umferðarmenningin verði einhvern tímann sómasamleg.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er svolítið ýkt en reyndar alvegi lýsandi dæmi um hugsunarháttinn sem ríkir í þessum málum...og kannski fleiri þáttum sem snúa að sambúð okkar mannanna.
Einn angi af svona hugsunarhætti er þegar fólk er að pirra sig á hringtorgum,
þau tefja mann svo mikið, maður þarf alltaf að vera að hægja á sér og beygja og svona, það væri náttúrulega best fyrir mig að vegurinn gæti bara legið beinn og breiður þangað sem ég er að fara. þá þyrfti engin asnaleg hringtorg hvað þá gatnamót!! ;-)
kveðja
Bjarni Bragi Kjartansson, 4.3.2008 kl. 12:25
Þetta er ósanngjörn lýsing á fundinum.
Vissulega komu fram sjónarmið um að vilja ekki þunga umferð um umferðagötur nærri sér - en það kom ALDREI fram neitt um 3ja bíl. Hins vegar komu fram sjónarmið að bæta þyrfti almenningssamgöngur til að geta slepp bílnum!
Og að sjálfsögðu komu fram mótmæli við því að stórauka umferð um götu sem sker í gegn skólahverfi - þe. Réttarholtsveg. Þú lætur það hljóma sem hjóm eitt - þegar við erum að berjast fyrir því að minnka hættuna við skóla og leikskóla!
Þá var að sjálfsögðu enn einu sinni ítrekað að bæta þyrfti öryggi fyrir gangandi umferð um Bústaðaveg. VIÐ GRÍMSBÆ ER SVARTUR BLETTUR þar sem amk. 3 slys á gangandi vegfarendum hafa orðið á 3 árum - þrátt yfir gangbrautarljós!
Þú mátt ekki gleyma þér í réttmætri baráttu fyrir almenningssamgöngum og minni bílaumferð - með því að gera lítið úr baráttu fólks fyrir auknu umferðaöryggi!
Raunhæfari lýsingu á fundinum er að finna á: Ólafur Friðrik: 1, 2 og Réttarholtsveg í stokk!
Hallur Magnússon, 4.3.2008 kl. 16:08
Það virðist skína í geng um þessa grein að þú Jóhann búir ekki í Bústaðahverfi heldur virkar einn af fulltrúum útbæjarhverfis sem mest nýtir Bústaðaveg til gegnumaksturs. Ég var líka á þessum fundi en minnist ekki þess að neinn væri að ræða um að þurfa að komast hratt og örugglega sinna ferða en vissulega vill enginn hafa þunga umferð úr öðrum hverfum í gegnum sína götu. Umferð um Bústaðaveg og Réttarholtsveg er þegar orðin meiri og þyngri en hverfið og vegurinn þolir og að bæta enn á hana með því að auðvelda aðkomu inn í hverfið. Með lokun vinstri beygjunnar frá Bústaðarvegi inn á Reykjanesbraut verður eru allar líkur á að meginþungi þeirrar umferðar færist yfir á Réttarholtsveg þar sem þar eru fyrst og fremst íbúar Bústaðahverfis á ferð. Umferð um Réttarholtsveg hefur mér sýnst vera ærin og ekki á bætandi auk þess sem að það er mjög gagnrýnivert að beina enn meiri umferð við grunnskóla. Aðgengi fyrir börn að Réttarholtsskóla virðist vera með því verra sem gengur og gerist við skóla í Reykjavík. Stór hluti nemenda þarf að fara yfir Bústaðaveg með sinni þungu umferð, engin undirgöng eða göngubrú og einugis ein gönguljós sem gefa því miður falskt öryggi.
Sigríður (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 20:52
Góð lýsing hjá þér Jóhann, enda ekki mark takandi á íbúasamsökum. Ég hef fylgst með þessu í Grafarvogi þar sem ég bý, það kemur tóm steypa frá þessu fólki.
Sturla Snorrason, 4.3.2008 kl. 22:03
Íslendingar í hnotskurn ! Góð lýsing á okkur, viljum fá allt , en engu fórna !
Stefanía, 5.3.2008 kl. 02:14
Tek undir með síðasta kommenti er þetta ekki bara týpískt fyrir landann. Hálfgerður Ragnar Reykás mættur bara ;)
Letilufsa, 5.3.2008 kl. 06:51
Sammála, Jóhann. Þetta er stór hluti vandans.
Hallur: Jóhann sagði þetta vera lýsing "með litlum ýkjum". Ég túlka þetta þannig að einhverjar ýkjur geta verið í framsetningunni, en ekki miklar. Og varðandi þetta með þrjá bílana, þá kemur þetta fram vegna þess að ekki sé óalgengt að fjölskyldur hafa svona marga bíla. Hér að hluta verið að vitna í raunveruleikann sem flestir geta séð.
Mér finnst annars ekki að Jóhann sé á neinn hátt að gera litið úr barattu fyrir bættu umferðaröryggi.
En það er alls ekki sjálfgefið að núverandi aðferðir í umferðaröryggi duga. Margir fræðimenn hafa komist að því að bestu leiðir til að bæta umferðaröryggi sé að lækka hraða bíla, en eins og Jóhann bendir á er erfitt að fá marga bílstjóra til að samþykkja "skerðingu á þjónustu" við sinum bíl. Bílstjórum gengur ennfremur erfiðlega að skilja hversu hættuleg tæki þeir eru með í höndunum. Annað sem dugar vel er að bæta samkeppnisstöðu annars ferðamáta. Það verða bílstjórar að taka tillit, og hætta minna til að haga sér eins og þeir séu á hraðbraut. Hingað til hefur mjög mikið af starfinu með umferðaröryggi farið fram "á vallarhelming bílstjóra". En það hefur oft í för með sker skert aðgengi gangandi, farþega og hjólreiðamanna. Og þá er mikilvægt að hafa í huga að hreyfingarleysi er mun alvarlegra heilbrigðisvandamál en umferðarslysin, til dæmis samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnun, WHO. Lausnin felst etv í stóraukið jafnræði samgöngumáta og sanngjarnt mat á hvað bílana kosta samfélaginu. Gott dæmi um ágætis byrjun í að jafna stöðu samgöngumáta er samgöngustefnan sem VGK Hönnun kynnir á heimasíðu sinni. Þar sáu menn að það sé ósanngjarnt að þeir sem mæta á bíl til vinnu fá sjálfkrafa skattfrjálsa fríðindi upp á 20.000 á mánuði ( gjaldfrjáls bilastæði), á meðan aðrir ekki fá neitt á móti.
Morten Lange, 7.3.2008 kl. 17:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.