28.12.2007 | 10:44
Jólin þegar ég hélt að ég myndi deyja úr kulda (4. og síðasti hluti)
Framhald frá fyrri færslu.
Aðfangadagur rann upp bjartur og fagur en þetta var kaldur dagur og nokkuð snjóþungur þó fólk héldi því fram að þetta væri með snjóléttari vetrum sem það man eftir. Ég veit hvað ég fæ í jólagjöf frá heimilisfólkinu á bænum en það eru stórir og afskaplega hlýir kuldaskór. Þeim finnst ég vera mjög illa búinn til vetrarvistar. Þau segja að klæðnaður minn sé ekki nógu hlýr. Það er þó helst lopapeysan sem mamma prjónaði sem sleppur við gagnrýni. En skóbúnaður minn þykir vera til skammar og er ekki til þess fallinn að halda lengi í mér lífinu í þessum frosthörkum sem í hönd fara.
Í dagbók mína á aðfangadag skrifaði ég:
24. desember 1984 mánudagur
Aðfangadagur jóla. Ég fór í fjósið kl. 6 að morgni. Eftir það var lítið gert. Um kl. 3 síðdegis var mér boðið að hringja heim til Íslands en þangað hafði ég aldrei hringt frá því ég kom fyrir rúmum fjórum mánuðum. Ég fór ekki í fjósið seinnipartinn því ég sat enn við símann og reyndi að ná sambandi en það tókst ekki enda símakerfið hér afskaplega gamaldags. Línan út úr sveitinni var alltaf upptekin. Ég veit ekki hvernig skal lýsa þessu símakerfi, en þetta er einhverskonar gamaldags sveitasími þar sem við deilum símalínu með fleiri bæum og ef einhver er að tala í símann verður maður bara að bíða og fylgjast með þangað til hann er búinn og grípa þá tækifærið og hringja. Ef tólið er tekið upp og einhver annarsstaðar er að nota línuna þá heyri ég samtalið í mínu símtóli. Eftir nokkurra klukkustunda bið gafst ég upp á þessu. Hér er aðfangadagur ekki haldinn hátíðlegur eins og heima á Íslandi. Það er beðið eftir að 25. desember renni upp. Kl. 12 á miðnætti hefst jólahátíðin með guðþjónustu í kirkjunni síðan er haldið heim á bæ og snæddur jólamatur og þar á eftir er skipst á gjöfum. Við borðum því jólamatinn um kl. eitt eftir miðnætti. Það þykir mér afleitt enda er syfja farinn að sækja á mig eftir að hafa verið á fótum síðan klukkan sex um morguninn. Lai, víetnamskur flóttamaður sem dvalið hafði hér á bænum í 10 mánuði fyrir nokkrum árum kom og dvelur hér yfir jólinn. (Hann átti síðan eftir að koma sér í eitthvert klandur og vera talinn af án þess að nokkur vissi hvar lík hans væri að finna). Í jólamatinn var kjúklingur. Vakað var alla nóttina en kl. 5 var farið í fjósið til að mjólka og kl. 7 um morguninn fórum við að sofa.
Þar með voru jólin búinn. Jólin voru langt í frá eins hátíðleg og á Íslandi og voru frekar lík hverjum öðrum sunnudegi sem ávallt var haldinn heilagur sem hvíldardagur . Þau voru stutt, ein nótt og svo tók hversdagsleikinn við að nýju.
Leið síðan að gamlársdegi en þá varð ég meira en lítið undrandi. Vanur mikilli gleði heiman frá Íslandi með flugeldum og fínum mat og löngum vökum þá var ekkert af því að finna á þessum áramótum. Gamlársdagur var líkur öðrum öðrum dögum, engir flugeldar, ekki vakað frameftir, mig minnir að ég hafi farið að sofa um kl 9 á þessu gamlárskvöldi, og enginn veislumatur. Morguninn eftir þegar ég fór á fætur óskaði ég fólki gleðilegs nýs árs en enginn tók undir kveðju mína. Ég veit ekki hversvegna og ég spurði aldrei. Frostið var 20 gráður og það var ekki fyrr en að kvöldi nýársdags sem nýju ári var fagnað en á mjög svo hógværan hátt. Ekki með miklum gleðskap og látum heldur var venjubundin bænastund kvöldsins mun lengri en vanalega, ætli hún hafi ekki staðið í tæpa klukkustund og first að henni lokinni óskaði fólk hvert öðru gleðilegs nýs árs.
Þannig var jólamánuðurinn þarna á þeim tíma.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessar færslur, gaman að lesa
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.12.2007 kl. 20:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.