Jólin þegar ég hélt að ég myndi deyja úr kulda (3. hluti)

Framhald frá fyrri færslu.

Daginn sem jólahreingerningin var gerð fékk ég bréf frá ömmu.  Ég var búinn að þvo loftið á húsinu dágóða stund með blautri tusku.  Sumsstaðar gat maður staðið á gólfinu og samt náð upp í loft en annarsstaðar þurfti maður að standa uppi á stól til þess að ná upp í sama loftið, þvílíkur var hallinn á þessu húsi.  Amma skrifaði með gamalli stafsetningu bréf um dýrtíðina heima á Íslandi og nægjusemina.

 

Elsku barn skrifaði hún

Kærar þakkir fyrir bréfið frá þjer og kortin, við fengum það 6. des.  Það hefur verið nokkuð fljótt á leiðinni.  Nú eru jólin að nálgast, við fórum og gerðum matarinnkaupin í dag það er nú hægt að fá keypt það er nóg af vörunum í búðunum en allt nokkuð dýrt en við þurfum ekki að kvarta við höfum nóg fyrir okkur.

Ég sit í eldhúsinu og pára þessar línur, afi fór að kaupa nýja hillu yfir handlaugina á baðinu sú gamla brotnaði.  Jæja drengurinn minn ég veit ekki hvort þú getur lesið þetta pár en ég er ekki góð í rjettritun.

Það er leiðinlegt með mýsnar hvað er með kettina geta þeir ekkert við þetta ráðið eru þeir svona latir að veiða, það er slæmt að hafa þennan ófögnuð inni í herberginu.  Ég hef lítið í fréttum að skrifa veit að mamma þín skrifar þér það helsta sem skeður í bænum.  Ég hætti þessu pári.  Vertu svo blessaður og sæll.  Guð veri með þér.  Hjartans kveðjur frá okkur.

 

Ekki liðu margir dagar áður en ég fékk aftur póst enda mikið um sendingar á þessum tíma árs.  Kortið sem ég fékk og var frá bróður mínum var þó frekar stutt og laggott.

 

Heill og sæll, ég sendi þér kort ég er ekkert að senda þér pakka, ég get sent þér gúmmískó ef þú vilt, þeir voru nú góðir í sveitinni hér heima.  Þú verður að fyrirgefa myndina á kortinu en ég fann enga með belju á sem myndi nú svo sannarlega hæfa aðstæðum þínum nú.  Hér gengur allt sinn vanagang, ég er búinn að sækja hestana, eru engir hestar hjá ykkur?  Ég hef nú ekki meira að segja ég skrifa kannski aftur.  PS  Gaman væri að vita hvað þið gefið beljunum.  Kanntu að mjólka?  Vertu bless þinn bróðir.

 

Og áfram hélt jólapósturinn að berast.  Móðir mín sendi bréf og lýsti veðrinu í Keflavík í smæstu smáatriðum undanfarna mánuði, sagði frá atvinnuleysi fiskvinnslufólks þar sem hún var þá starfandi fiskverkakona og samviskubitinu sem hún var með af því hún lagðist í flensu og komst því ekki í kirkju þar sem hún söng einnig með kirkjukórnum.  Svo endaði hún bréfið á svohljóðandi hátt:  Ég bara man ekki eftir miklu meira.  Það skeður svo ósköp lítið hér núna en ég ætla að skrifa bráðum aftur og vonum að þú hafir það mjög gott.  Mamma

Framhald á morgun en þá birtist fjórði og síðasti hluti þessarar jólafrásagnar og sagt verður frá jóla- og áramótunum sjálfum.

JB

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband