26.12.2007 | 11:19
Jólin þegar ég hélt að ég myndi deyja úr kulda (2. hluti)
Framhald frá fyrri færslu.
Þennan fyrsta dag jólamánuðar fór ég á fætur rétt fyrir klukkan sex til þess að mjólka kýrnar. Þó ekki væri leiðin í fjósið löng þá man ég alltaf eftir því að bóndinn á bænum setti ávallt þykkt ullarteppi yfir höfuð sitt og herðar, fór í gúmmístígvél og tuldraði eitthvað fyrir munni sér og lagði í hann. Sjálfur gekk ég í humátt á eftir honum.
Að afloknum mjöltum tveimur tímum síðar var haldið inn í bæ og snæddur hafragrautur ekki ósvipaður þeim íslenska. Þegar allir voru orðnir vel mettir var sest í hring á miðju gólfi og talað við drottinn. Húsbændur mínir voru kaþólskir og tóku trú sína ekki af neinni léttúð. Á grænmáluðum veggnum fyrir ofan frystikistuna í setustofunni var mynd af Maríu mey og Jesú Kristi eins og vestrænir myndlistarmenn hafa séð þau fyrir sér. Allstór og veglegur kross var á milli myndanna og eitthvert strá sem ég kann ekki frekari skil á hafði verið stungið á bakvið krossinn.
Bænastundir fjölskyldunnar þar sem hver og einn fór með sína þulu upphátt og lofaði einkum Maríu mey voru haldnar tvisvar sinnum á dag í tuttugu mínútur í senn. Tuttugu mínútur að morgni strax eftir morgunverð og tuttugu mínútur að kvöldi áður en farið var í háttinn. Fátt ef eitthvað gat raskað ró þeirrar stundar. Ef eitthvað óvænt átti sér stað var allt gert til þess að hætta ekki bænahaldi heldur var málunum bara bjargað á meðan bænir voru beðnar. En hvað gat svo sem gerst sem var svo óvænt að raskað gæti ró til bænahalds. Sjaldan komu gestir og ekki hringdi síminn oft. Ég man þó eftir einu tilviki þar sem sinna þurfti dálitlu viðviki á meðan á bænahaldi stóð. Bænahald var tiltölulega nýhafið þegar fólk fór að gefa hvort öðru bendingar, án þess þó að hætta bænahaldi. Það hafði sést til músar skjótast bakvið brauðrist á eldhúsborðinu. Æsingnum var ekki fyrir að fara. Húsmóðirin reis rólega upp úr stól sínum, teigði sig í köttinn sem ekki hafði orðið músarinnar var og otaði honum á bakvið brauðrist. Upphófust þarna miklar sviptingar þegar kötturinn reyndi að klófesta músinna með klóri og kvæsi sem tókst að lokum. Húsmóðirinn greip í dauða músina slengdi henni á gólfið þar sem kötturinn fylgdi fast á eftir og reif hana í sig. Á meðan á þessu öllu stóð var bænahaldi haldið áfram eins og ekkert hafi gerst. Þó að einu af sköpunarverkum drottins hafi verið slátrað þarna með köldu blóði var hann engu að síður lofaður og prísaður fyrir allt sitt sköpunarverk.
Vinnudagurinn í sveitinni hélt áfram og þegar við höfðum tekið til sagir okkar var haldið út í skóg til þess að saga við í eldinn eða til að selja í pappírsvinnslu. Ýmist var farið á dráttarvél eða þegar lengra var farið eins og þennan dag í desember var gamall blár Buick dreginn út úr skúr sem var alveg að hruni kominn og brunað eftir einbreiðum stígum skógarins.
Það var svalt í veðri þennan dag eins og endranær þegar við keyrðum inn í skóginn, þrír saman í framsætinu, húsbóndinn sem vafði ullarteppi um höfuð sér, syfjaður og lífsleiður sonurinn sem hafði hætt í skóla sextán ára gamall staðráðinn í að taka við búi föður síns ásamt mér útlendingi sem af einskærri forvitni var að kynna sér lifnaðarhætti fólks í öðru landi. Sonur bónda sem var jafnaldri minn hafði verið að myndast við að safna yfirvaraskeggi frá barnæsku. Hann hafði aldrei rakað á sér efrivörina, enda leit hún hörmulega út og er vægt til orða tekið. Þar skutust út úr húðinni eitt og eitt hár á stangli mislöng. Ég var sannfærður um að ef hann hefði rakað sig reglulega hefði hann á endanum getað fengið þetta fína þykka yfirvaraskegg ekki ósvipað því sem Friðrik Nietzsche hafði og sjá má mynd af í ýmsum heimspekibókum. Mér fannst það samt ekki einhvernveginn vera mitt að gefa góð ráð um skeggvöxt enda hafði ég ekki mikinn áhuga á honum á þessum tíma.
Trjábolirnir sem við söguðum niður voru þungir. Það var því notalegt að setjast niður og borða nestið inni í þéttum skógi við opinn eld þar sem við gátum bæði hlýjað okkur og grillað brauðið okkar. Af og til í þessum skógarferðum okkar rákumst við á byssumenn sem voru að myndast við veiðar. Sumir þeirra bjuggu í kofum einhversstaðar í skóginum, en á hverju þeir lifðu komst ég aldrei að. Yfirleitt var veiðin afar dræm eða jafnvel engin. Skepnurnar, hreindýrin stóru og litlu bambarnir höfðu fyrir löngu verið hrakin á brott vegna ásóknar bændanna. "Þetta er ekki eins og þegar afi var ungur og fór létt með að veiða hreindýr, enda nóg af þeim þá" sagði sonur bónda. Eitthvað voru menn þó að baxa við að halda í vonina og veiðimannarómantíkina sem núorðið fólst einkum í því að hafa byssu um öxl sér og spígspora síðan dágóða stund í skóginum.
Eftir dágott dagsverk í skóginum var tími til kominn að halda heim á leið þar sem mjólka þurfti kýrnar. Við settumst upp í bláa Buickinn, allir í framsætið hver öðrum sveitalegri í slitnum bláum samfestingum, þykkum brúnum frökkum, vinnuskóm með stáltá, þykkar húfur og með þvælda leðurhanska loðfóðraða að sjálfsögðu. Fjósið var heill heimur út af fyrir sig. Dýralífið var fjölskrúðugt. Fyrir utan 45 kýr var stórt og mikið naut í einu horninu, hundur, og um það bil 10 kettir til að halda rottunum í skefjum sem þrátt fyrir það gerðu sig heimakomnar í korngeymslunni. Mér stóð alltaf stuggur af þeim, kettirnir réðu illa við þær og eitt var á hreinu að út fóru þær ekki á meðan frostið var jafnmikið og raun bar vitni. Ég man sérstaklega eftir einum degi í fjósinu þegar ein kýrin sló mig allfast með halanum beint í andlitið. Gleraugun fuku af mér beint ofan í flórin. Mátti ég róta þar allnokkra stund hálfblindur áður en mér tóksta að hafa upp á þeim á kafi í kúaskít.
Framhald á morgun, þá er komið að deginum sem jólahreingerningin var gerð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.