18.12.2007 | 09:11
Þurfa mömmur aldrei að hugsa neitt?
Ég hef nýlokið við að kenna starfsfólki á leikskólum heimspekilega siðfræði. Mjög skemmtilegir tímar þar sem umræður um ýmis álitamál sem tengjast leikskólum og uppeldi voru rædd útfrá sjónarhorni heimspekilegrar siðfræði. Eitt af því sem við gáfum okkur góðan tíma til að skoða og ræða voru barnabækur, bæði gamlar og nýjar. Það er nefnilega líka mjög athyglisvert að skoða það sem einu sinni var lesið fyrir börnin ekki síður en það sem nýtt er.
Ein er sú bók sem við ræddum og vakti miklar umræður var Mús og kisa eftir Örn Snorrason sem prentsmiðjan Leiftur gaf út árið 1968. Það voru ekki margir þátttakendur sem könnuðust við bókina, en þó var það ekkert útilokað að hún kynni að vera til í einhverjum bókahillum.
Bókin fjallar um músafjölskyldu sem kemst ekki út úr holunni sinni þar sem köttur bíður eftir þeim fyrir utan. Ungarnir eru orðnir svangir og vilja fara að komast út og fara að þrýsta á foreldra sína sem bregðast við með athyglisverðum hætti. Það sem við ræddum í tengslum við bókina voru þau viðhorf til kynjanna sem þar koma fram, verkaskiptingu á heimilum og samskipti almennt. Hér koma nokkrar glefsur úr bókinni og samskiptunum sem þar fara fram:
Ungarnir vilja að mamma reki kisu burt en mamma svarar "...ég get það ekki." þá spyrja ungarnir: "Getur pabbi allt?" "...það segir hann, sagði músin." Svo fara ungarnir að leita að pabba og spyrja hvar hann sé og þá kemur í ljós að hann liggur innst í holunni og þegar þeir spyrja mömmuna hvað hann sé að gera segir mamman að hann sé líklega að hugsa og þá kemur þessi sena hér: "Þurfa allir að hugsa? spurðu ungarnir. Nei það held ég ekki, sagði músin. Hugsar þú mamma? spurðu þeir. Nei, ég hugsa aldrei neitt, sagði hún. Hversvegna ekki, mamma? spurðu ungarnir. Mömmur þurfa aldrei að hugsa neitt sagði músin."
Ungarnir gefast ekki upp enda orðnir mjög svangir og á endanum fara þeir til músapabba sem var í sjálfu sér ekkert að hugsa (mín túlkun) heldur lá hann annaðhvort í leti eða var þunglyndur. Ungarnir fara að pikka í karlinn og þá kemur ekki síður athyglisverð sena:
"Þú verður að gefa okkur að borða. Ég! Það er ekki mitt verk að sjá um matinn. Segið mömmu að ég hafi sagt að hún eigi að gefa ykkur að borða. Það er hennar starf ekki mitt. Segið henni að færa mér mat hingað. Ég er líka orðinn svangur. En látið mig í friði. Ég gæti svo sem náð í fæðu hand aykkur, en ég hef engan tíma til þess. Ég hef svo mikið að gera. Hvað ertu að gera? spurði minnsti unginn. Þegi þú litli karl...."
Umræður þátttakenda á námskeiðinu voru fjörugar, frjóar og skemmtilegar. Tókum við fyrir ýmsar aðrar bækur einnig s.s. Láka, Tralla, Gleðigjafann, Grimms ævintýri, Negrastrákana, Palla sem var einn í heiminum og Tinna svo fátt eitt sé nefnt. Barna og unglingabækur eru nefnilega mikil uppspretta heimspekilegra rannsókna og á því sviði er mikið verk óunnið hér á landi.
JB
Athugasemdir
Hvað á pabbinn að gera í músasögunni? Bara hugsa?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.12.2007 kl. 10:19
Ætli þetta hafi verið ádeila hjá Erni, eða bara svona bók sem endurspeglar tíðarandann?
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 18.12.2007 kl. 10:40
Þetta hljómar nú sem grímulausasta háð í mínum eyrum. Karlinn dýpst inni í holunni, aðgerðalaus...
Er músamamma ekki týpískur existentialisti - snýst málið ekki um það að gera og vera?
En kannski of flókið fyrir blessuð leikskólabörnin, ég myndi flokka þetta sem fullorðingsbók.
Bestu kveðjur,
Sonja B. Jónsdóttir (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 13:43
jú örugglega ádeila, minnir samt óþægilega á karlasamfélögin í dag...íslamistana og jafnvel menn sem "fá" sér asíukonur hér a´Íslandi. Ekki að skilja að mest af þeim hjónaböndum eru góð, en ég hef sjálf setið í Landakotskirkju við hliðina á stórum, óaðlaðandi, sterkum manni með krumlurnar yfir sína heitelskuðu. Hún var svo kúguð og svo bænarþurfi að ég vona að guð (sé hann til) hafi heyrt í henni
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.12.2007 kl. 15:26
Ég man vel eftir þessari bók og leit aldrei á hana sem annað en frábærlega fyndna frásögn. Auðvitað hefur verið ádeilubroddur í henni og mér finnst hún alls ekki henta illa til heimspekilegra pælinga. Það skiptir samt litlu máli hvort ástandið hafi einhvern tíma verið svipað einhvernsstaðar í mannheimi og því er lýst þarna í músaheimi. Bókin er einfaldlega vel skrifuð og skemmtileg.
Sæmundur Bjarnason, 18.12.2007 kl. 18:04
Áhugaverð spekúlasjón.
Huldukonan, 19.12.2007 kl. 00:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.