Sendiboð djöfulsins

 Frá því að umræðan um trú og skólastarf hófst hefur nokkrum sinnum verið hringt í forystu Siðmenntar. Því miður hefur verið þónokkuð um hatursfull símtöl þar sem forystu félagsins eru ekki vandaðar kveðjurnar. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að í nútímasamfélögum, sem maður hefði haldið að væru upplýst og lýðræðisleg ætti ekkert að vera sjálfsagðara en að skiptast á skoðunum um samfélagsmál og eðlilegt að ekki séu allir á sömu skoðun. En umburðarlyndið og viljinn til heiðarlegra skoðanaskipta er því miður takmarkaður. Og þegar umræðan fer á það plan að fólk fer að hringja með allskyns svívirðingar og jafnvel hótanir þá er manni ekki alveg sama. Í síðustu færslu hér á síðunni blandast ákveðin útlendingaandúð in í málið og síðasta uppákoman fólst í því að maður nokkur hringdi og öskraði og æpti, fór með trúarleg orð og sagði ítrekað Siðmennt vera sendiboð djöfulsins. Félagið hefur nú þurft að bregðast við með því að taka upp öll símtöl ef vera skyldi að svívirðingarnar yrðu að alvarlegum hótunum.

Sorglegt er ef fólk má ekki ræða umdeild samfélagsmál á Íslandi án þess að verða fyrir öðrum eins svívirðingum og jafnvel hótunum frá þeim sem eru ósammála.

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Já, ég er sammála þér, Jóhann. Femínistar eiga við sama vandamál að stríða...

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 9.12.2007 kl. 23:05

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Skil ekki hvað ergir fólk. Af bréfi Biskups að skilja, þá er siðmennt komin í bullandi samvinnu við kirkjuna um kristinfræðikennslu.  Það væri heldur að trúfrjálsir ættu að fara að senda ykkur tóninn fyrir að gerast málsvarar fyrir einhverju, sem er í óþökk skoðanabræðra ykkar. 

Jón Steinar Ragnarsson, 9.12.2007 kl. 23:20

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Í upphafi skyldi endirinn skoða segir í Biblíunni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 10.12.2007 kl. 02:52

4 identicon

Ég veit fyrir víst að meðlimir siðmenntar og þá sérstaklega hið góða og rólega fólk í vantrú hefur úthúðað prestum og kristnum á vefsíðum um út um allt, og ekki mjög falleg skrif oft á tíðum.  Sumir hafa hótað að mæta í messur presta bara til að vera með upphróp og leiðindi.

"Sorglegt er ef fólk má ekki ræða umdeild samfélagsmál á Íslandi án þess að verða fyrir öðrum eins svívirðingum og jafnvel hótunum frá þeim sem eru ósammála."

Frábært að heyra þetta..  vonandi er betri tíð í vændum og siðmennt/vantrú mun vanda sitt mál. 

Nú á dögum eruð þið svo saklaus og góð samanber drottningarviðtalið á rás 2 í gær þar sem greinilega var félagi ykkar eða allavegna skoðanabróðir spyrill.  Það eru öfgamenn í öllum hópum,  Vantrú er eins og Krossinn, bara hinum megin og margir vantrúarmenn er þeir væla yfir öfgum sjá bara sjálfan sig í mynd.

Aðskilnað kirkju og ríkis strax btw, þannig getur hún loksins orðið sjálfstæð og þá þarf ríkið að fara sinna ýmsu sem kirkjan gerir nú, sem það auðvitað mun ekki gera, sérstaklega í litlum plássum út á landi.  Ég vil einnig fá kristnifræðslu út úr skólum því hún gerir meiri skaða en gott eins og hún er í dag og þá færu loksins foreldrar kannski að sinna uppeldi barna sinna meira og fleiri prestar að vinna vinnuna sína.

Steingrímur (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 08:48

5 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Ég veit fyrir víst að meðlimir siðmenntar og þá sérstaklega hið góða og rólega fólk í vantrú hefur úthúðað prestum og kristnum á vefsíðum um út um allt"

Vantrú og Siðmennt eru ekki sama félagið.

Nú á dögum eruð þið svo saklaus og góð samanber drottningarviðtalið á rás 2 í gær þar sem greinilega var félagi ykkar eða allavegna skoðanabróðir spyrill.

Næsti klukkutími á eftir þeim þætti á Rás 2 fór í kristniboð - þar var enginn trúleysingi.  Kvartar þú undan því?

 Vantrú er eins og Krossinn, bara hinum megin

Hvernig er Vantrú eins og Krossinn?  Vantrú er á jaðrinum, en það á við alveg óskaplega mörg félög.  Þjóðdansafélagið er jaðrinum tæknilega séð. 

Matthías Ásgeirsson, 10.12.2007 kl. 08:59

6 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Steingrímur: Eigum við að dæma alla kristna menn eftir þeim örfáu sem eru með hótanir og dónaskap gagnvart Siðmennt? Er eftirfarandi setning sönn: Kristnir menn eru öfgahópur sem ræðst á þá sem eru ekki trúaðir með svívirðingum, ruddaskap og hótunum? Nei, hún er ekki sönn. Eins er ekki sanngjarnt að dæma félög eins og Siðmennt og Vantrú útfrá nokkrum einstaklingum sem haga sér illa.

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 10.12.2007 kl. 10:35

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Tek undir með þér Þuríður...halda sig við sannleikann og málefnin!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.12.2007 kl. 11:11

8 Smámynd: Haukur Nikulásson

Því meira sem ég hlusta og les um trú og trúarskoðanir þeim mun vissari er ég í því að trúmál og trúariðkun eigi að vera einkamál án afskipta samfélagsins og þar með án kostnaðar fyrir samfélagið.

Trúað fólk má vera það mín vegna, bara ekki á minn kostnað. Í trúmálum er ekkert hægt að sanna og því má segja að slíkir hugarórar fólks eigi heima með öðrum mannlegum órum... sem einkamál.

Ég vil líka leyfa mér að halda því fram að trúað fólk hefur ekki einkarétt á góðu siðferði, manngæsku eða kærleika. Þessar eigindir eru ekkert endilega trúartengdar frekar en aðrir kostir og ókostir mannskepnunnar.

Haukur Nikulásson, 10.12.2007 kl. 11:33

9 identicon

Getur verið að "umræður" á netinu séu alls ekki umræður í merkingunni samræður og/eða skoðanaskipti? Eru þetta ef til vill fremur "einræður margra"?

Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 11:50

10 Smámynd: Júlíus Valsson

Þegar höfuð kirkjunnar á Íslandi segir Siðmennt vera hatrömm samtök, hverju eigum við hinir óbreyttu þá að trúa? Hann hlýtur að hafa eitthvað fyrir sér í því máli, eða er það ekki?

Júlíus Valsson, 10.12.2007 kl. 12:14

11 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Júlíus...þessi sami biskup, höfuð kirkjunnar á 'Islandi sagði í fyrra að það að samþykkja kærleik samkynhneigðra væri að "henda hjónabandinu á sorphaugana"

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.12.2007 kl. 12:35

12 Smámynd: Júlíus Valsson

Einhvern veginn finnst mér að kirkjan eigi að vera umburðarlynd stofnun, full af kærleika og trú á mannkynið. Það virðist hins vegar vera svo í raun, að sumir þurfi og eigi skilið meiri kærleika en aðrir.

Júlíus Valsson, 10.12.2007 kl. 12:38

13 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Jóhann, ég tek heils hugar undir orð þín í þessum pistli.

Fólk verður að halda sig á málefnalegum grunni og ræða málin út frá honum, annars fer allt úr böndum og engin viðunandi niðurstaða fæst. Persónulegar svívirðingar á báða bóga eru óverjandi: Vilja menn heilagt stríð (jihad), með og á móti, í landinu? 

Greta Björg Úlfsdóttir, 10.12.2007 kl. 15:09

14 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Varðandi það að sumir eigi meiri kærleika skilinn og/eða vísan en aðrir, eins og Júlíus talar um að framan, langar mig til að vísa hér á litla barnasögu sem ég endursamdi hér um daginn: Tvíburarnir 

Greta Björg Úlfsdóttir, 17.12.2007 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband