1.12.2007 | 19:28
Vellíðanasamfélagið og Breiðavíkurdrengirnir
Um þessar mundir eru barnaverndarlög á Íslandi 75 ára. Af því tilefni hefur tímamótanna verið minnst í dag og í gær með vandaðri dagskrá. Í dag fór ég í Háskólabíó þar sem dágskráin var á þá leið að myndin Syndir feðranna var sýnd og að henni lokinni fóru fram umræður þar sem þátttakendur voru fyrrverandi félagsmálastjóri, fyrrverandi forstöðumaður heimilisins að Breiðavík, tveir fyrrverandi vistmenn og fórnarlömb ofbeldis í Breiðavík, forstjóri barnaverndarstofu og leikstjóri myndarinnar Syndir feðranna. Kannski vita það ekki allir en Syndir feðranna segir frá þeirri ófögru reynslu sem drengirnir sem vistaðir voru í Breiðavík upplifðu. Alls voru þeir 128 talsins og er það sláandi að einn fjórði þeirra er nú látinn.
Þetta var góð dagskrá en erfið. Þarna var allnokkur hópur Breiðavíkurdrengja og tóku sumir til máls og var það á stundum átakanlegt að hlýða á þá mannvonsku sem þeir máttu þola sem börn. Aðstandendum myndarinnar ber að þakka það framtak að draga málið fram með jafn vönduðum hætti og raun ber vitni. Það var hinsvegar sláandi þegar leikstjóri myndarinnar Ari Alexander upplýsti það að aðsóknin að henni hafi verið dræm. Alltof fáir hafa lagt leið sína í bíó til að sjá hana.
Ég get ekki að því gert en eftir að hafa heyrt leikstjórann segja frá þessari dræmu aðsókn þá varð mér hugsað til þess að þjóðin vill víst frekar bíða tímunum saman eftir að komast í nýjar verslanir eins og Tojsarus og djustforkids heldur en að mæta í bíó, horfast í augu við miklar hörmungar íslandssögunnar og sýna drengjunum stuðning með mætingu sinni.
Þetta þarf víst ekki að koma á óvart. Hafa ekki einhverjir sálfræðingar skilgreint manneskjuna sem vellíðanadýr sem forðast sem mest það sem kann að valda óþægindum, hvort sem það er líkamlegum eða sálrænum? Í ljósi þess er kannski ekki að undra að fólk kýs frekar Tojsarus en Syndir feðranna? Satt en sorglegt og mætti ég óska þess að þar yrði breyting á.
Vek athygli á vefsíðu Breiðavíkursamtakanna:
http://breidavikursamtokin.is/
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Facebook
Athugasemdir
komst því miður ekki í dag en vissi af þessu. sá þó myndina hér um daginn og skrifaði einmitt um þá ferð. hef komið þarna vestur og þá var með í för maður sem hafði dvalið þarna sem drengur og honum leið ekkert sérlega vel með að gista þarna...
þykir leitt, en kemur ekki á óvart, að myndin hafi ekki fengið mikla aðsókn. fólki finnst þetta erfitt og er ekki tilbúið að horfast í augu við gamlar syndir... syndir feðranna.
en það er alltaf fullt á einhverjum útvötnuðum amerískum bíómyndum.
syndir feðranna var mjög flott gerð, passlega hrá og kom hlutunum vel til skila.
þekki einmitt sjö manns sem voru þarna á sínum tíma. það er ekki hægt að segja að þeim hafi farnast vel.
arnar valgeirsson, 2.12.2007 kl. 00:55
Ég fór á myndina fyrir skemmstu og varð fyrir afskaplega miklum vonbrigðum, því megnið af því efni sem myndin byggir á, hafði þegar verið sýnt í Kastljósi og það sem ekki hafði verið sýnt þar, bætti mjög litlu við. Ástæðan er sú að fyrri útgáfu myndarinnar var hent og byrjað upp á nýtt eftir alla þessa umræðu í vetur sem leið, ef ég hef skilið aðstandendur myndarinnar rétt. Ég held því miður að öll sú umræða sem verið hefur í þjóðfélaginu um þetta mál síðan í vetur sem leið hafi kippt svolítið fótunum undan myndinni og hún orðið svolítið eins og sprungin blaðra fyrir vikið. Þetta er virkilega þarft umræðuefni og sannarlega ástæða til að halda því vakandi, um það held ég flestir séu nú sammála.
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 11:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.