30.9.2007 | 15:22
Að borða hund. Óbeint framhald af kattaátinu frá því í gær
Það er virkilega ánægjulegt hversu margar skemmtilegar athugasemdir komu við pælingunni um kattaátið sem ég skrifaði í gær. Margt af því sem kom fram varpaði nýju sjónarhorni á málið og ef það gerist þá er markmiði mínu með svona "helgarheimspeki" náð.
Ég hef frá því í sumar verið að lesa bækur eftir breska alþýðuheimspekinga sem eru að varpa fram allskyns pælingum í þeim anda sem birtist í gær og segja þeir að ákveðinn hópur fólks taki svona pælingar með sér á mannamót og í sumarfríið rétt eins og aðrir taka með sér krossgátur, spil og Sudoku þrautir. Kannski kem ég með fleira til umhugsunar um næstu helgi.
En í kjölfar umræðunnar um kattaátið þá rifjaðist upp nokkuð athyglisvert sem ég upplifði 1989 í Pyongyang í Norður Kóreu. Ég var þar staddur ásamt nokkrum öðrum íslendingum í boði þarlendra stjórnvalda. Vorum við í fæði á vegum infæddra og borðuðum af hlaðborði í mötuneyti. Var þetta allt saman afskaplega huggulegt og fínt, en við vissum í sjálfu sér ekki nákvæmlega hvað var í matinn hverju sinni. Maturinn hinsvegar bragðaðist mjög vel í alla staði.
Síðan þegar fer að líða að lokum dvalarinnar í Kóreu ákváðum við að fara á veitingastað til þess að fá nú að bragða á hundakjöti sem við vissum að var vinsæll matur þar í landi. Hundakjötið kom með beini og hndakjötsúpa með. Þetta var smekklega fram borið með víni og grænmeti og bragðaðist alveg prýðilega.
En þegar maturinn var kominn á borðið uppgötvuðum við það að við hefðum í sjálfu sér alveg geta sleppt því að gera okkur sér ferð til þess að bragða á hundinum góða, því við höfðum verið að borða hundakjöt af hlaðborðinu án þess að hafa haft hugmynd um það allan tímann á meðan á dvöl okkar stóð.
En hvað sem því leið nutum við flest matarins á veitingastaðnum þó maður hafi líka heyrt þá setningu að maður ætti ekki að borða vini sína.
JB
Athugasemdir
Bíð spennt eftir næstu helgarheimspeki
Kristjana Bjarnadóttir, 30.9.2007 kl. 16:30
Sæll Jóhann, Er einmitt staddur í S-Kóreu þessa mánuðina og skil mjög vel pælinguna með hundaátið. Ég er mjög takmarkaður í kóreskunni og því mjög erfitt að skilja umhverfið hér, þar sem næstum enginn talar ensku. Að fara út að borða er því venjulega algjört lotterí á það hvað maður fær. Vel venjulega bara eitthvað sem er í kringum miðju á verðskalanum og vona svo bara það besta. Þegar maður er svo heppinn eru myndir af skömmtunum og maður veit allavega hvort maður er að panta kjöt eða eitthvað annað eins og bara hrísgrjón. Aftur á móti er kjötið hér oft frekar frábrugðið því heima og maður er aldrei jafn viss og þegar maður fær t.d. íslenskt lambakjöt eða íslenska nautasteik. Hef einusinni fengið þá tilfinningu að ég hafi einmitt fengið hundakjöt, en það var ekki möguleiki að spurja fólkið á matsölustaðnum þar sem enginn talaði ensku :)
En eitt langar mig að spurja þig að, hverjar voru ástæður ferðarinnar til N-kóreu?
Þorsteinn Ásgrímsson (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 16:31
Til þess að svara Þorsteini þá vorum við sex íslendingar sem fórum á svokallað heimsmót æskufólks og stúdenta (World festival of youth and students). Þetta var heimsmót sem kommúnistaríkin héldu og sóttu þetta fjölmargir þátttakendur frá mörgum löndum. Sovétríkin og önnur austur evrópulönd áttu gríðarlega marga fulltrúa. Síðan voru fjölmargir þátttakendur frá öðrum ríkjum, ekki síst þriðja heimsríkjum. Þátttakendur voru iðulega fólk sem var á vinstri væng stjórnmálanna úr ungliðahreyfingum, verkalýðshreyfingunni og námsmannahreyfingunni. Þarna voru allskyns uppákomur, fundir og fyrirlestrar, íþróttaviðburðir og allskyns menningarviðburðir sem þátttakendur skomu með. Við íslendingarnir ásamt öðrum norðurlandaþjóðum stóðum fyrir mótmælafundi vegna ofbeldisins á Torgi hins himneska friðar sem þá áttu sér stað skömmu áður. Kóreumennirnri voru ekki sáttir við þann fund en hann var samt haldinn. Við vorum viku í ferðinni, en kóreumennirnir buðu okkur að vera lengur ef ég man rétt en ekkert okkar þáði það. Staksteinahöfundur Morgunblaðsins tók smá kast á okkur á þessum tíma í skrifum sínum og kallaði okkur róttæklinga í leit að fyrirmyndaríki í umfjöllun sinni. En ég held að við höfum frekar verið í ævintýraleit heldur en í leit að einhverjum trúarbrögðum til að boða eftir að heim var komið. Nema hvað þetta er minnistæðasta ferðalag sem ég hef farið í.
Jóhann Björnsson, 30.9.2007 kl. 18:05
takk fyrir þitt innlegg í umræðurnar við eldhúsborðið
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 1.10.2007 kl. 11:29
Sæll Jóhann,
mig langar að spyrja þig hernig hundakjötið var eldað? Ég hef oft farið til S-Kóreu og sleppi því aldrei að borða hund. Hundakjöt er dýr matur í Kóreu en það er alveg þess virði. Ég hef boðað það gufusoðið, hitaðað í skál yfir eldi eða steikt. Kóreubúar krydda matinn mikið en hægt er að deyfa bragðið með hrísgrjónum og rótsterku hrísgrjónabrennivíni. Hreint afbragð!!! Hvernig gera þeir þetta fyrir norðan?
Sigurður Þórðarson, 1.10.2007 kl. 12:03
Kej, 2.10.2007 kl. 16:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.