29.9.2007 | 14:05
Að borða kött
Hér kemur smá heimspeki til þess að takast á við um helgina. Nemendur mínir veltu eftirfarandi sögu fyrir sér í gær í umfjöllun okkar um rétt og rangt:
Lítill krúttlegur heimilisköttur varð svo ólánsamur að verða fyrir bíl og deyja. Eigendur kattarins tóku þetta að sjálfsögðu nærri sér en fengu af einhverjum ástæðum þá hugmynd hvort ekki væri í lagi fyrst svona fór fyrir kisa að hafa hann í kvöldmat. Vitandi þess að kisi væri þegar dáinn og enginn yrði fyrir skaða töldu fjölskyldumeðlimir þetta í lagi. Þeir elduðu því kisa og borðuðu.
Og nú felst helgarheimspekin í því að svara eftirfarandi spurningum:
1) Hvort er það rétt eða rangt að borða köttinn? Og hversvegna?
2) Ef þér yrði boðið í kvöldmat til fjölskyldu sem væri að elda umræddan kisa hvernig myndir þú bregðast við?
JB
Athugasemdir
mér hryllir við því að þú sért kennari og að þú teljir þetta heimspekilegar pælingar fyrir því og fyrir því að mbl.is láti þetta ógeðsfellda blogg þitt birtast á forsíðunni þegar maður er að skoða fréttirnar. Hvaða máli skiptir það hvort að kötturinn er krúttlegur eða ekki? Myndir þú borða látið barn ef þú værir svangur? Bara smá heimspekipælingar fyrir þig inní daginn og helgina....
halkatla, 29.9.2007 kl. 15:15
Skemmtileg pæling í nútíma samfélagi. Ég skil hins vegar ekki hvers vegna þú notar kött í söguna. Við borðum ekki ketti. Málið dautt
Hins vegar ef þú hefðir notað heimaling hefði málið snúið öðruvísi. Ég er úr sveit og þar voru munaðarlaus lömb alin á mjólk úr pela og voru bestu vinir barnanna, kúnna o.s.frv. Að hausti var svo öllum lömbunum smalað.....líka heimalingnum............og.................. ég ætla ekki að fara út í smáatriði þar sem viðkvæmar sálir lesa þetta. En fjölskyldan borðaði sunnudagsmatinn eins og ekkert væri það árið sem öll hin. Það var hins vegar siðlaust að velta því fyrir sér hvaða sunnudag heimalingurinn var í matinn......en hann var í matinn einn daginn, það vissu allir.........og ég get ekki ímyndað mér að nokkur hefði afþakkað matarboð alla sunnudaga það árið af því það gæti verið heimalingur í matinn.
Sá sem telur sig ekki geta borðað heimaling getur ekki þegið matarboð í sveit, tja eða keypt lambakjöt í búð.
Kristjana Bjarnadóttir, 29.9.2007 kl. 15:39
ég kom aftur til þess að segja fyrirgefðu af því að ég fékk samviskubit, ég er viss um að þú ert góður kennari vanalega en fórst útaf línunni í þetta sinn. Mér finnst það sjúkt að velta sér uppúr svona löguðu og það er svo sannarlega ekki heimspekilegt eða gott fyrir börnin sem þú kennir, en þrátt fyrir það er þetta sennilega ekki svo slæmt að það réttlæti mín fyrstu viðbrögð hér. Mér leið samt illa þegar ég sá þetta í bloggdálknum á mbl.is og skil ekki þessa þörf þína fyrir að velta þér uppúr kattaáti, skil ekki hvaðan það rugl kemur og trúðu mér, það er rugl og á ekkert skylt við raunverulegar ígrundanir um rétt og rangt. Jóhann, lifðu heill
p.s ég er ein af þessum viðkvæmu sálum sem Kristjana Bjarnadóttir ber umhyggju fyrir.
halkatla, 29.9.2007 kl. 15:57
Hafið ekki áhyggjur viðbrögð ykkar eru mjög eðlileg. Dæmið um köttinn er ekki eitthvað sem ég bjó til sjálfur það er fengið úr bók sem heitir "Do you think what you think you think" og er ætlað að sýna fólki sem er að pæla í siðfræði að ekki er alltaf hægt að færa rök fyrir siðferðilegum álitamálum með klassískum siðfræðikenningum sem nota mjög oft eftirfafandi mælikvarða:
Ekki skal gera það sem skaðar mann sjálfan eða aðra.
Ekki skal gera það sem stuðlar að óhamingju eða vanlíðan.
Nú er dæmið um köttin dæmi sem hvorki veldur skaða né endilega óhamingju. Verkefnið í þessu ógeðfellda dæmi eins og sumir kalla það felst í því að finna þau rök sem nota má til að hafna átinu eða réttlæta það eftir atvikum. Í bókinni kallast kaflinn sem þetta dæmi er í "Testing your taboos". Við höfum fullt af svokölluðum tabúum í samfélaginu sbr át á köttum en höfum við hugrekki til þess að ræða tabúin og takast á við þau á yfirvegaðann hátt? Í því felst einmitt heimspekin.
Dæmið hér á undan um heimalninginn er mjög gott. Heimalningurinn var borðaður en það tíðkast ekki að ræða um heimalninginn sem litla sæta lambið sem var vinur barnanna. En hversvegna ekki að spá í svona hluti? Með heimspekilegri ástundun erum við að reyna að skilja okkur sjálf viðbrögð okkar og hegðun. Það er nú heila málið.
Jóhann Björnsson, 29.9.2007 kl. 18:54
Aftur, þetta er skemmtileg pæling og á fyllilega rétt á sér.......en fyrirgefðu Jóhann, ég skil ekki punktinn, er hann:
eða
Ég treysti mér ekki til að rökstyðja afhverju ég borða ekki hund og kött, helst geri ég það með þeim rökum að þau eru ofarlega í fæðukeðjunni, eru sjálf kjötætur. Það er meiri eiturefnasöfnun ofar í fæðukeðjunni og því finnst mér það ekki spennandi. Þarna er ég ekki samkvæm sjálfri mér því ég hef borðað sel og það er í góðu lagi með það kjöt.
Varðandi seinna atriðið þá erum við í nútíma þjóðfélagi komin langt frá upprunanum og flestir munu líklega segja nei. Ég hins vegar er bara alin upp við þetta og borða heimalinga, uppáhaldsmjólkurkýrnar og gæðinga, allt með bestu lyst. Jafnvel þó ég viti hvað er í matinn. Það bara á ekkert að vera að velta því fyrir sér. Ef við viljum bara borða dýr sem engum hefur þótt vænt um það skulum við bara borða verksmiðjuframleidda kjúklinga. Móðir mín kenndi mér að eftir að búið væri að pakka afurðunm þá væri þetta allt kjöt og hefði ekkert nafn. Ef sveitafólk hugsaði ekki svona þá annað hvort sylti það eða væri grænmetisætur.´
Kristjana Bjarnadóttir, 29.9.2007 kl. 19:41
Er sjálf úr Vestmannaeyjum, þar sem við krakkarnir þeyttumst í niðamyrkri kvöld eftir kvöl í leit af lundapysjum, sem við svo slepptum á haf út daginn eftir. Svo var farið á þjóðhátíð og þar var reyktur lundi snæddur kaldur með smjöri af okkur öllum með bestu lyst. Og allir vissu að litlu sætu pysjurnar urðu að endingu lundar, sem veiðimennirnir okkar háfuðu á vorin. Misstum ekki matarlystina fyrir því. En hefði hún Gústa í næsta húsi boðið okkur í herlegan dinner, til að snæða heimilisköttinn hennar hann Spægó, er næsta vís að okkur hefði öllum orðið verulega illt og þverneitað. Gæludýrin okkar tengjast okkur tilfinningaböndum, og engin rök geta útskýrt það nægjanlega. Er bara svona. Maður étur ekki vini sína, þó þeir séu bara kettir. En á sama máta er ekki hægt að útskýra fullkomnlega það, hvernig er hægt að láta sér annt um ungfugla eins og lundapysjur, og bjarga lífi þeirra, en get svo snætt fullorðna lunda af bestu lyst. Voru að vísu aldrei "gæludýr" pysjurnar eins og kisurnar, og stóðu stutt við í hverri heimsókn, og fengu engin "nöfn". Vissum bara að það þurfti að bjarga þeim, alveg eins og við vissum að reyktur lundi með smjöri er herramanns matur. Tvíhyggjuhugsun sjálfsagt, en breytir ekki útkomunni.
Sigríður Sigurðardóttir, 29.9.2007 kl. 20:38
Nú ætla ég að taka allt aðra afstöðu en meðborgarar mínir sem hafa skrifað athugasemdir
1) Nú vitum við að í einhverjum löndum tíðkast það að borða hunda. Hvað er ólíkt með hundum og köttum? Af hverju er í lagi að borða hunda en ekki ketti? Reyndar eru eflaust flestir á Íslandi á móti hundaáti en þetta sýnir að siðferði er ekki algilt heldur menningartengt.
Svo er hægt að rökstyðja þetta á þann hátt að fólkinu þótti vænt um þennan elskulega heimiliskött og þau vilja minnast hann á sem fegursta hátt. Þeirra leið til þess er að éta hann. Þannig ímynda þau sér að kisan sé alltaf partur af þeirra lífi, í stað þess að vera grafinn í einhverjum garði.
2) Nei. Sama hverjar mínir röksemdir eru þá myndi ég aldrei borða greyið köttinn. Ég myndi borða kartöflurnar, grænmetið og sósuna og lofa sjálfri mér að hafa aldrei samband við þetta klik**** fólk aftur.
En ég borða lamb
Svanhvít Ljósbjörg Guðmundsdóttir, 29.9.2007 kl. 23:27
Skemmtileg umræða og skemmtilegar pælingar.
Af hverju skjótum við ekki þrestina og lóuna? En við getum skotið rjúpur. Hefur það eitthvað með það að gera að þrestirnir eru litlir og krúttlegir? Þetta er bara viðhorf okkar til dýrana, ég gæti t.d. aldrei borðað sætan kött, en ég gæti heldur ekki borðað rottu, sem eru langt í frá sætar.
Sigrún Óskars (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 01:29
Hvað er að því að borða einhvern eða eitthvað sem við tengjumst tilfinningarlegum böndum. Það er ekkert heimspekilega rangt við það að mínu mati. Ég vill nefna sem dæmi að frumbyggjar í Papplúa og Nýu Geníu borðuðu ættingja sína af virðingarskini þegar þeir dóu. Þeir hættu því þegar hvíti maðurinn sannfærði þá um að krautsfeld-jakob heilasjúkdómurinn smitaðist þannig manna á milli. Konur og börn sem borðuðu heila hinna sýktu fengu sjúkdóminn líka.
Bjöggi (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 01:40
Lóur og hrossagaukar þykja herramannsmatur víða um heim.
En mér finnst þessi umræða alveg dæmigerð fyrir það hvað nútímaíslendingurinn er kominn langt frá uppruna sínum. Hann getur nostrað við það að krydda lambalæri og stinga inn í það hvítlauksgeirum en ef hann svo mikið sem hugsar til þess að það sem hann sé með í höndunum hafi verið klippt undan lambi, jarmandi, sætu, lambi með ull og öllu, þá kúgast hann og verður bumbult.
En þetta minnir mig samt á ákveðna máltíð fyrir nokkrum árum... Þá var ég í sveit og í matinn var ljúffeng piparsteik. Til að tryggja mér seddu ákvað ég að kommenta á það hve meyr hann Brúskur væri nú og eftir það sat ég svo til einn að kræsingunum.
Sjálfur myndi ég ekki nenna að éta blessaðan köttinn, það færi allt of mikil vinna í að hamfletta hann og þar að auki þyrfti sennilega kött á mann til að tryggja öllum nægt kjöt. Ennfremur er ég ekkert allt of spenntur fyrir að éta eitthvað sem étur bæði mýs og klóakrottur.
Bobotov , 30.9.2007 kl. 09:09
Humm, ég held að ég gæti ekki borðað sósuna, hún er væntalega löguð úr soði af kettinum.
En það er ekki holt borða heimilisketti af því að fóðrið sem þeir fá er búið til úr dýraafgöngum og það stendur á kattarmatarpökkunum að það má ekki borða dýr sem borða þennan tilbúna mat. Þess vegna eru heimiliskettir ekki heppilegir til átu.
Marhnútur er ljótur og hann er ekki borðaður, skötuselur var lengi ekki borðaður út af útlitinu. Með sömu rökum ættum við að borða gæludýrin okkar af því að þau eru falleg
Rannveig (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 09:19
Virkilega skemmtileg pæling.
Já þetta er svona rétt eins og að velta því fyrir sér hvort maður ætti að nota gamla veika konu í tilraunaskyni í þágu vísindanna og mannsins eða ungan frískan apa.
En það er eins og með fyrra dæmið þá snýst þetta um viðhorf okkar til hlutanna.
En varðandi köttinn þá er ljóst að ég myndi ekki borða hann á Íslandi og myndi trúlega kæra þetta atvik ef ég yrði uppvísa af svona kattaráti. En ef ég væri í landi þar sem kettir væru étnir og ég væri gestkomandi á heimili þar sem kötturinn hefði verið þess lands heimalingur, gæti viðhorf mitt til þess að éta "heimalinginn" hugsanlega orðið annað.
Herdís Sigurjónsdóttir, 30.9.2007 kl. 10:15
Ef við gefum okkur það að það sé rétt að borða dýr á annað borð og það að við séum fær um að horfast í augun á því að við lifum í umhverfi sem stjórnast af því samfélagi og tíma sem við búum í hverju sinni þá gefur það augaleið að það er ekkert rangt við að borða köttinn frekar en að skreppa á kfc, annað er þá líklega bara hræsni. Mér finnst það skipta meira máli hvernig meðferð dýr fá á meðan þau eru lifandi.
Ef mér væri boðið í kattastöppu þá myndi ég auðvitað ekki þiggja það en það væri ekki af því að kötturinn sé krúttleg vera, einfaldlega bara af því að ég efast um að það væri gott, aldrei nokkru sinni myndi ég samt fara að líta niður á fólkið af því það velur sér óhefðbundna dýrategund sem var áður gæludýrið þeirra í matinn, þeir sem vilja borða ketti ættu bara að gera það ef þeir vilja.
Símon Karl Einarsson (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 11:47
Frábær pæling Jóhann.
Ótrúlegt hvað margir eiga erfitt með þetta. Ég vil benda á að á Papúa Nýju Gíneu (sem þú hafðir sjálfsagt bak við eyrað við samningu þessa innleggs) eru þjóðflokkar hvar einhver mesta upphefð sem vera má er að vera étinn eftir sinn dag af ættmennum og vinum sínum. Þannig verða þeir eitt með þeim framliðnu og má segja að þeir vinni ættfólki sínu einnig gagn í dauða.
Slíkt væri auðvitað óhugsandi í okkar samfélagi.
Okkar þjóðfélag í dag afmarkast af neysluhyggju í bland við norður-evrópskt kristilegt siðgæði í útvötnun (guð sé lof fyrir það:) ) sem er svo hrært út í ríkulegan skamt af tvöföldu amerísku siðgæði. Okkur getur fundist sjálfsagt mál að borða svínakjöt og kjúklinga sem aldrei hafa notið nokkurs frelsis, aðeins inni lokunnar, sem varla verður kallað annað en grimmd. Sama fólki gæti fundist alveg hroðalegur glæpur að borða heimaling, hval eða kanínu, kött hvað þá aðra látna manneskju.
Því má segja að fyrri spurningin eigi ekki við það er hvorki rétt eða rangt að éta köttinn. Það er ekki ólöglegt sem slíkt og því ekkert því til fyrirstöðu ef fólk aðhyglist þá lífsspeki að heiðra vini sína með því að éta þá.
Ég ætla því að gefa mér að fólkið sé að borða köttinn af umhyggju fyrir honum.
Seinni spurningunni get ég svarað í algerri hreinskilni þannig að ég veit ekki hvort ég myndi smakka kisa, þó svo að ég vildi að ég gæti sagt það. En ég myndi ekki æða á dyr. Sennileg votta samúð mína og narta í kartöflurnar og salatið.
Sævar Finnbogason, 30.9.2007 kl. 13:09
Tjah.. nú spyr ég Herdís...
Hvert myndirðu kæra þetta?
Er kattarát ólöglegt?
Bobotov , 30.9.2007 kl. 14:14
Sæll Jóhann. Fín pæling hjá þér. Var einmitt sjálfur að festa kaup á þessari bók (nefnir hana í næstu færslu) í fyrradag og á leiðinni að fara að lesa hana. En varðandi þetta katta/hunda át, þá sé ég persónulega ekkert að því. Ég skil samt alveg fólk sem hefur átt hund eða kött og myndi ekki borða það dýr, eða jafnvel önnur dýr af sömu sort vegna minninga um gæludýrið sitt.
En já, ég hreinlega sé ekki hvað gæti verið rangt hjá mér ef ég myndi leggja mér hund eða kött til munns. Við borðum allskyns annað kjötmeti og það er alveg í himnalagi (allavega hjá flestum). Hvað ef við myndum snúa þessu aðeins við og spurja fólk hvort því væri sama ef það myndi borða eitthvað mjög framandi dýr (gefum okkur bara lítið spendýr), jafnvel þótt það væri mjög vinsælt gæludýr í einhverju landi - jafnvel vestrænu landi eins og ítalíu.
Værum við þá til í að leggja það dýr okkur til munns vegna þess að það væri ekki þekkt sem gæludýr í okkar heimalandi eða myndum við hunsa við því á þeim forsendum að þetta væri vinsælt gæludýr einhverstaðar í heiminum?
Einu rökin sem ég sé gegn áti á vissum dýrum eru einmitt tilfinningarökin, en þá kemur á móti hvort það sé rangt hjá einhverjum ókunnugum mínum siðum að borða eitthvað sem mér persónulega finnst tilfinningalega rangt.
Fáum fjölbreytni í matargerð, borðum Snata* :)
*ekki gert til að taka alvarlega
Þorsteinn Ásgrímsson (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 16:24
Við borðum nú helst ekki hræætur er það? Gætum við þá ekki allt eins étið hvert annað?
Þetta er virkilega skemmtileg pæling og verður sennilega notuð eitthvað áfram.
kveðja frá fyrrverandi bónda sem bæði át hrossakjet og heimalninga.
Ingibjörg Friðriksdóttir, 30.9.2007 kl. 21:50
Mér varð oft hugsað til þessa máls í dag, það hrærði upp í sellunum og mundi svo ekki á hvaða síðu þetta var, en fann aftur þökk sé goggle. Ég var nú búin að gleyma því að ég hefði talað um lögbrot í þessu sambandi og er sannfærð um að það stendur hvergi í lögum að ekki megi leggja sér kattarkjöt til munns, en kettir eru friðaðir og svo eru örugglega líka heilbrigðisreglugerðir og sem mætti leita uppi...og svo er heimaslátrun ólögleg...en NB kötturinn var þegar dauður. En þar sem ég var búin að bjóða mér í mat til þeirra þá mætti segja að siðferðilegu álitaefni eigi vel við...þ.e. að segja að ekki eigi að gera það sem skaðar mann sjálfan eða aðra..og .ekki skal gera það sem stuðlar að óhamingju eða vanlíðan....
En aftur takk fyrir skemmtilegt blogg.
Herdís Sigurjónsdóttir, 30.9.2007 kl. 23:54
Jóhann, þú ert meistari! Bara þú mundir skrifa svona meistaraverk! Þetta sjálfstæðispakk sem er með leiðindi í þinn garð veit ekki hvað það er að segja og hefur greinilega ekki fariðí heimspekitíma hjá þér í Réttó.
Það er eins og það skilji ekki að þetta eru pælingar en ekki staðreyndir um þig, þú færir nú ekkert að borða börn þó þér stæði það til boða.
Fyrrverandi nemandi (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 13:36
Athyglisverð pæling sem þú varpar fram Jói og einnig athyglisverð viðbrögð bæði hjá manni sjálfum og öðrum sem hér hafa tjáð sig. Ég er samt ekki nógu steiktur í hausnum akkúrat núna til að taka almennilega afstöðu til þessara spurninga. Kem kannski seinna ef andinn kemur yfir mig.
Kej, 2.10.2007 kl. 16:48
Ekki var ég með leiðindi fyrrverandi nemandi..þrátt fyrir að flokkast sjálfsagt undir sjálfstæðispakk .
Herdís Sigurjónsdóttir, 5.10.2007 kl. 12:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.