Illugi Gunnarsson er einn þeirra sem vill mæta í skólana og flokka kennara líkt og kjötskrokkar eru flokkaðir í úrvalsflokk, fyrsta flokk, annan osfrv. Vill hann greiða laun í samræmi við flokkun sína og gangi honum vel. Í Fréttablaðinu í dag kemur þetta sjónarhorn hans berlega í ljós. Hann vill kennara metna þannig að úrvalskennarar fái góð laun og kennarar í lakari flokkum fái slakari laun. Hvernig meta skal gæðin er ekki ljóst, enda er maðurinn duglegur að þykjast hafa vit á ýmsum hlutum án þess að hafa nokkurt vit á þeim.
Ég er, kæri Illugi alveg til í það að athuga þessa hugmynd þína um flokkun kennara og raða þeim í ýmsa launaflokka ef þú ert til í að byrja á annari stétt í landinu, nefnilega alþingismönnum. Alþingismenn standa sig mismunadi vel, hversvegna ekki að flokka þá eftir frammistöðu og greiða þeim laun í samræmi við það. Byrjaðu á þinni eigin stétt og reyndu síðan að hafa vit á skólamálum.
Jóhann Björnsson kennari
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú hefur væntanlega tekið eftir því að það er þó nokkuð rætt um störf stjórnmálamanna í þjóðfélaginu. Þú veist það vonandi líka að alþingismenn þurfa að sækjast eftir endurkjöri á fjögurra ára fresti eða oftar. Kjósendur meta frammistöðu stjórnmálamanna með mismunandi hætti en þeir þurfa að standa sig að mati nægilega margra kjósenda til þess að ná endurkjöri.
Kennarar eru hinsvegar meira og minna með launin sín í áskrift og fá jafn vel borgað hvort sem þeir skila af sér góðri eða slæmri vinnu og hækka helst í launum við það að tolla nógu lengi í starfi.
Það þarf að auka gæði kennslu og til þess að það sé hægt þarf bæði gulrót og prik.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 20:45
Segðu mér hvernig skuli finna út hvaða kennarar eru ekki að skila sinni vinnu skammlaust? Komið með leiðirnar fyrst og þá verður kannski grundvöllur til að ræða saman um málið.
Jóhann Björnsson
Jóhann Björnsson, 23.9.2007 kl. 20:50
Samræmd próf.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 21:11
Á smíðakennarinn að taka sama próf og stærðfræðikennarinn og sundkennarinn að taka sama próf og náttúrfræðikennarinn og myndmenntarkennarinn að taka sama próf og heimspekikennarinn og heimilisfræðikennarinn að taka saman próf og enskukennarinn osfrv.
Já lífið er kannski ekki eins einfalt eins og ætla mætti
Jóhann Björnsson, 23.9.2007 kl. 21:25
Nei, það eru nemendurnir sem eiga að taka prófin.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 21:51
Hans. Próf eru ekki endilega besta leiðin til að mæla árangur nemenda, þar koma inn í breytur eins og prófkvíði, lestrarörðugleikar, þroski nemenda og fleira. Hvað þá að samræmd próf séu einhver mælikvarði á árangur, þau mæla ekki einu sinni endilega það sem kennarinn kennir. Hver skóli, sjáðu til, og jafnvel hver kennari getur haft mismunandi áherslur í kennslu sinni og ekkert nema gott um það að segja. Samræmd próf valda einsleitni í skólakerfinu.
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 23.9.2007 kl. 22:02
Prófkvíði og lestrarörðugleikar ættu að dreifast nokkuð jafnt yfir þannig að þessir þættir ættu a.m.k ekki að skekkja matið á kennurunum.
Lestrarörðugleika á að greina og börn að fá viðeigandi aðstoð. Prófkvíða verða nemendur að læra að eiga við einhvern tímann.
Hvað varðar einsleitni í skólastarfi þá sé ég ekki að það sé vandamál. Á hver kennari að kenna það sem honum sýnist á skólaskyldutíma og fyrir almennafé? Börn sækja skóla til þess að fá kennslu í ákveðnum hlutum og það á að fylgjast með því að kennarar veiti það sem þeim er skylt að veita.
Ekki þykir mér það vænlegt að börn sæki skóla til þess að kynnast persónulegum áherslum kennara frekar en að fá góða undirstöðukunnáttu í lestri, skrift, reikningi, tungumálum, sögu og öðrum undirstöðugreinum.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 00:00
Próf sýna þekkingu nemenda á einhverju afmörkuðu sviði. Þau eru ágæt til síns brúks á vissan hátt en þau ná aldrei að sýna á fullkominn hátt þekkingu nemandans. Ef skipta á kennurum upp í flokka eftir frammistöðu þá er alveg á hreinu að próf er ekki rétta leiðin til að gera það.
Varðandi samræmd próf þá er broslegt að menn séu ennþá að reyna að finna kosti við þau - því þeir eru frekar fáir. Báðir flokkarnir sem ráða í landinu voru með það á stefnuskránni að útrýma þessum prófum og ég vona svo sannarlega að það verði gert.
Smári Jökull Jónsson, 24.9.2007 kl. 10:21
Smá útúrdúr en þó í tengslum við bloggfærslu mína í dag: Nafnháttarsýkin hrjáir okkur mikið samanber titilinn: "Hvernig væri Illugi að greiða laun...?" og "...hvaða kennarar eru ekki að skila sinni vinnu."
Í bloggfærslu minni gleymdi ég að minnast á víðtæka notkun sagnarinnar að mæta sem notuð er í staðinn fyrir að koma eða fara. Menn "mæta" í skólana, - fara ekki á fundi eða tónleika heldur mæta á þá.
Bæta má síðan við sögnina að yfirgefa sem er oft notuð í staðinn fyrir sögnina að fara.
Menn fara ekki lengur úr landi eða úr eyjum eða sveitum heldur yfirgefa lönd, eyjar og héruð.
Ómar Ragnarsson, 24.9.2007 kl. 13:04
Það væri hægt að meta kennara bara eins og annað launafólk, með starfsviðtölum, mati samstarfsfólks og í þessu tilfelli, mati nemenda og foreldra.
Ég hygg að flestir hafi lent í því á sínum menntaferli að fá óhæfa kennara. Kennara sem voru oft búnir að vera í starfi svo árum eða áratugum skiptir og skilað af sér óviðunandi kennslu allan tímann.
Það er bara fyrirsláttur að ekki sé hægt að finna kerfi til þess að meta gæði kennslu.
LM, 24.9.2007 kl. 15:26
Mér finnst athyglisvert hversu margir eru neikvæðir gagnvart kennurum og því starfi sem unnið er í skólum. Það tala sumir eins og það séu aldrei starfsmannaviðtöl, það er talað eins og skólastjórar vísi aldrei neinum sem ekki stendur sig frá störfum. það er þvert á mót ansi oft og mikið gefið í skyn að inni í skólunum sé starfið þannig að nemendur gangi sjálfala og að kennarar séu helst bara í því að lesa kjarasamningana sína og drekka kaffi. Við vitum öll vel að þetta er ekki rétt, það er mjög víða verið að vinna vel í skólum landsins og oft við mjög erfiðar aðstæður þar sem ýmis flókin mál koma upp sem ekki gera boð á undan sér. Hversvegna er það ekki rætt? Það er spurning sem mér þætti gaman að fá að heyra svör við.
Þar fyrir utan er enginn enn kominn með svar við því hvernig meta skuli störf kennara. Flestir segja að það sé ekkert mál þannig að hægt sé að borga þeim eftir gæðaflokkum en enn hef ég ekki fengið að heyra neinar tillögur að raunhæfu mati.
Jóhann Björnsson, 24.9.2007 kl. 15:45
Hvað eiga kennarar að gera annað en að kenna nemendunum námsefnið?
Mér sýnist það full raunhæf leið til þess að meta kunnáttu barns í reikningi að prófa hvaða dæmi það getur leyst. Eins þykir mér það ekki vitlaus leið til þess að meta lesskilning að prófa hvaða texta barn getur lesið o.s.frv.
Slíkt myndi ekki leiða af sér skaðlega einsleitni. Ef foreldrar hefðu meira svigrúm til þess að velja skóla handa börnum sínum gætu skólastjórar haft mjög mikið svigrúm til að móta kennslustefnu, þ.e hvernig námsefninu yrði komið til skila. Þeir fengju hinsvegar ekki að ráða námsefninu enda er það ekki þeirra hlutverk.
Ef að fólk er ekki tilbúið að fara út í "róttækni" á borð við samræmd próf þá er hægt að notast við umsagnir foreldra. Flestir foreldrar hafa áhuga á því að börn þeirra hljóti góða menntun og ánægja þeirra með framfarir barns í einhverri námsgrein ætti að vera þolanlegur mælikvarði á störf kennara, a.m.k betri en engin mælikvarði.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 16:13
Af hverju þarf að vera að draga kennara í dilka? Ég er viss um að langflestir gera sitt besta og þeir sem standa sig ekki eiga einfaldlega ekki að kenna. Það er stórvarasamt að flokka kennara niður eftir gæðum, því allir nemendur eiga rétt á jafngóðri kennslu, ekki satt? Frekar á að leita leiða til að bæta kennsluna hjá öllum kennurum, sem er reyndar gert, t.d. með sjálfsmati skólanna, endurmenntunarnámskeiðum fyrir kennarana, o.fl.
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 24.9.2007 kl. 21:21
Og Hans. Börnin læra fleira en bara ákveðið námsefni í skólanum og það er mjög misjafnt hvernig kennararnir kenna námsefnið. Það skiptir nefnilega líka máli HVERNIG námsefnið er kennt.
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 24.9.2007 kl. 21:26
Ég vil byrja á því að þakka þér Jóhann fyrir málefnalega umræðu á þessum vefþræði þínum. Það er því miður eðli svona umræðna að farið er um víðan völl og að endingu verður umræðuefnið orðið að aukaatriði.
Það sem verið er að ræða um hér er hvernig meta skuli gæði vinnu kennara, til dæmis í grunnskólum. Flestir virðast hafa patentlausnir á takteinum en lítið hefur verið rætt um útfærslu þeirra að neinu marki. Ef umræðan á að vera eitthvað vitræn verður að líta á skólastarfið sem eina heild, þ.e. að grunnskólinn á að veita foreldrum eða heimilum barna ákveðna þjónustu sem hið opinbera greiðir fyrir. Sé það sett í samhengi sem flestir þekkja þá er það þannig að sá sem greiðir fyrir þjónustuna (eða vöruna) vill fá það sem honum ber fyrir það fé sem greitt er fyrir hana. Hann sættir sig ekki við "gallaða vöru". Heimilin (foreldrarnir) eru neytendurnir og hið opinbera seljandinn.
Ríkið greiðir fyrir að veita þessa þjónustu og þá er eðlilegt að ríkið vilji mæla árangur eða gæði þjónustunnar sem það er að greiða fyrir. Vandamálið er að ríkið hefur enga mælistiku í dag til að mæla þennan árangur nema samræmd próf. Flestir eru sammála um að slík próf séu meingölluð en á meðan ríkið kemur ekki með aðra lausn eða aðra mælikvarða þá eru samræmd próf eini kosturinn í stöðunni í dag. Málið stendur upp á ríkið.
Sé neytandinn ósáttur við þjónustuna sem hann á að fá frá seljandanum þá kvartar hann við seljandann, þá yfirleitt við einhvern yfirmann sem ber ábyrgð á þjónustunni og framleiðslu hennar. Sé um grunnskóla að ræða er yfirmaðurinn einhver af stjórnendum skólans sem kvartað er í. Þá eiga þeir að taka í taumana og leysa vandann. Eftir stendur sú spurning: "Hvers vegna er þjónustunni ábótavant sem neytandanum ber. Af hverju er varan gölluð?" Hjá hverjum liggur vandinn?
Er það hjá nemandanum sem einhverra hluta vegna á erfitt með að taka við þjónustunni og nýta sér hana?
Er það hjá kennaranum sem einhverra hluta vegna tekst ekki að matreiða þjónustuna nægilega vel fyrir nemandann svo að hann geti nýtt sér hana?
Er það hjá stjórnendum skólans sem einhverra hluta vegna tekst ekki að "framleiða" þjónustuna nægilega vel svo neytandinn sé ánægður?
Er það hjá rekstraraðilum skólans, hinu opinbera, sem ætlar sér að "framleiða og selja" úrvalsþjónustu innan ákveðins ramma sem þeir setja sér sjálfir?
Eins og sjá má af ofansögðu þá geta vandamál grunnskólanna víða legið og það er bæði ósanngjarnt og villandi að einblína eingöngu á það að kennarar og gæði starfs þeirra sé helstu vandamál skólanna. Miklu frekar ættu rekstraraðilar skólanna, þ.e. ríkið, að byrja á réttum enda við að skilgreina hvaða þjónustu þeir ætla að veita heimilunum og feta sig svo eftir þjónustuferlinu alla leið til nemandans sjálfs.
Aðalnámskrá grunnskóla sem menntamálaráðuneytið gefur út leggur línuna. Ríkið gefur að lang mestu leyti út námsgögnin. Ríkið skammtar fé til sveitarfélaganna til að reka grunnskólana. Almennt er viðurkennt að allar viðmiðanir ríkisins til þessa málaflokks séu of þröngar. Sveitarfélög setja grunnskólum ákveðinn fjárhagsramma sem almennt er viðurkennt að sé of þröngur til að hægt sé að veita þá þjónustu sem skylt er að veita nemendum. Skólastjórum er skylt að reka skólana innan þess ramma sem þeim er settur. Sé sá rammi of þröngur fjárhagslega kemur það niður á ÖLLU skólastarfinu, ekki eingöngu pyngju kennara. Þetta leiðir af sér að sú þjónusta sem heimilin eru að "kaupa" af ríkinu er lakari eða verri en þeim ber samkvæmt því sem ríkið gefur út.
Niðurstaðan er sú að heimilin fá ekki að fullu þá þjónustu sem þau eiga að fá samkvæmt því sem aðalnámskrá grunnskóla segir. Mergurinn málsins er að undanfarin ár hefur þjónusta menntakerfisins við heimilin ekki verið í takt við það sem af því er ætlað. Séu heimilin að fá verri eða lakari þjónustu er þeim ber þá eiga þau að kvarta og þá við rétta aðila. Kvarta undan þjónustunni í heild því það er hún sem er á niðurleið, ekki eingöngu einhver einn þáttur í henni.
P.s. Það er engin hætta á að grunnskólakennarar fari í verkfall á næstunni... þeir ætla ekki í verkfall fari kjaraviðræður í strand, þeir hætta og ætla að fá sér betur launaða vinnu þar sem menntun þeirra er metin að verðleikum.
Jóhannes kennari (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 21:38
Gott kvöld
Þessi hugmyndafræði Illuga alþingismanns framkallaði nákvæmlega sömu þankaganga hjá mér og nafna mínum Björnssyni. Auðvitað er það meira en lítil blekking að hægt sé á einfaldan hátt að árangurstengja laun kennara - frekar en alþingismanna.
Í færslum hér að ofan er því haldið blákalt fram að hægt sé að mæla kennara út frá einkunnum barnanna og greiða út samkvæmt samræmdum prófum nemendanna! Þurfa þá ekki kennararnir að hafa rétt til að velja sér nemendur í launaumslagið? Hvers vegna skyldi kennari vilja taka að sér hæglæsa barnið, nemandann með atferlisröskunina og svo framvegis. Svoleiðis bekkir væru augljóslega "láglaunabekkir" fyrir kennarann - ekkert upp úr þeim að hafa - og hvert værum við komin þá? Það er nefnilega þannig víðast um land að þessi börn hafa ekki í önnur hús að venda til að fá sína þjónustu en grunnskólann.
Ef launasæla kennararstéttarinnar er svo mikil sem lesa má hér framarlega í athugasemdunum - hvers vegna er þá viðvarandi kennaraskortur, sér í lagi í skólum á höfuðborgarsvæðinu? Vandinn er sannarlega sá að laun kennara eru of lág og án kennara verður engin framþróun skóla. Líkast til bara enginn skóli! Raunar minnist ég þess ekki að hafa séð neinn halda því fram að kennarar standi í vegi fyrir skólaþróun heldur man ég frá setu á grunnskólaráðstefnu sveitarfélaganna að fulltrúar sveitarfélaganna lýstu ánægju með þróun skólanna á undanförnum árum.
Að mínu mati er í þessari umræðu verið að dansa enn og aftur í kringum aðalatriðið. Nefnilega það hvers virði störf kennara eru fyrir börnin okkar, fjölskyldurnar, þjóðfélagið. Hugtakið árangurstenging launa er mjög vandmeðfarið í þessu sambandi. Enn finnst mér fátt benda til þess í umræðunni að viljinn til að setjast að borðum og semja um eitthvað raunverulegt sé til staðar.
Jóhann Ólafur Halldórsson (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 21:59
Hverslags útúrsnúningur er þetta hjá Jóhanni Ólafi, að það sé ekki hægt að árangurstengja laun því að þá vildi engin taka að sér slökustu nemendurna? Auðvitað myndu kennarar ekki skipa í bekki sjálfir og það er vel hægt að taka tillit til þess að sumir væru með sérkennslu fyrir börn með rekstrarörðugleika o.s.frv.
Ég held að flestir séu orðnir hundleiðir á að sjá íslenska nemendur koma illa út í alþjóðlegum samanburði. Á sama tíma kvarta kennarar yfir laununum sínum en reka upp ramakvein ef einhver nefnir eitthvað sem kalla má gæðaeftirlit.
Það er alveg rétt að það þarf að bæta kjör kennara en það þarf að gera það þannig að skólakerfið verði ekki þægilegur felustaður fyrir metnaðarleysingja og vesalinga.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 23:48
Útúrsnúningurinn er ekki meiri en svo að mér sýnist þú, Hans, vilja nú blanda fleiri þáttum inn í þetta launamat en samræmdu prófiunum eingöngu. Ég var að gagnrýna þá einföldun þína í færslu þinni númer tvö hér í athugasemdunum þannig að þá færumst við eitthvað á veg! Ég stend fastar en fótunum á því að árangurstenging launa kennara, byggð á mælikvarða einkunna nemenda á samræmdum prófum gengur hreint alls ekki upp. Slík leið skilar ekki betri kennurum inn í skólana og dugir ekki einu sinni til að fullmanna skólanna. Væri það nú eitt og sér bara ágætt markmið!
Árangurstengd laun í fyrirtækjum byggjast gjarnan á því að launamaðurinn hefur möguleika til að sækja sér viðskiptavini og velur sér augljóslega þá sem skapa honum sem bestar tekjur. Það hlýtur að vera nokkuð ljóst að kennari sem fær í hendurnar úrvalsbekk yrði launahærri í slíku kerfi, byggðu á einkunnum, en kennari sem fær í hendurnar bekk þar sem takast þarf á við vandamál sem hafa áhrif á kennsluna. En kennarinn getur ekki valið sér í bekkinn og á að sjálfsögðu ekki að geta það.
Hvað varðar launakerfi kennara þá dugir bara að skoða kjarasamning stéttarinnar. Líkast til sá flóknasti í íslensku atvinnulífi! Ég held að illskiljanlegur og flókinn kjarasamningur skili kennurum litlu og skólunum ekki heldur. Ég óttast að árangursteningingarkerfið yrði einfaldlega enn meiri flækja þannig að fara beri aðrar leiðir. Í skólakerfinu í dag standa yfir tilraunaverkefni þar sem unnið er eftir öðrum forsendum, öðru launakerfi og þau verða vonandi fyrirmynd betra launakerfis.
Skólakerfið má örugglega bæta eins og allt annað. Ef menn ganga út frá því að það sé skjól fyrir "metnaðarleysingja og vesalinga" þá er það í verkahring skólastjórnenda og rekstraraðila skólanna, sveitarfélaganna, að taka í taumana. Æviráðningar kennara eru ekki til í dag - þó margir haldi það.
Eitt að lokum. Hans væri kannski til í að birta okkur hinum meiri upplýsingar um þennan alþjóðlega samanburð og bágborna stöðu íslenskra grunnskólanema í þeim samanburði.
Jóhann Ólafur Halldórsson (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 19:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.