8.9.2007 | 16:14
Síminn og sjónvarpið ónýta. Enn frekari fregnir af óborganlegum neytendamálum. Eða starfsfólk Símanns er eins og úlfurinn í ævintýrinu um kiðlingana sjö
Það er óhætt að fullyrða að neytendamál hafi átt hug minn allan að undanförnu samanber færslur liðinna daga. Það er af mörgu að taka í þeim efnum og ég held að það sé óhætt að fullyrða að ævintýrið í Office one sé nú bara barnaleikur í samburði við samskipti mín við Símann, það æðislega fyrirtæki sem hefur frelsarann sjálfann á launaskrá. En það kemur þessu máli í sjálfu sér ekki við.
En nú er um að gera að koma sér vel fyrir því sagan um Símann er ekki auðmelt, en ég ákvað að skrifa hana eftir að ég sá auglýsingu þar sem her manns fer "agresíft" um borgir og bæi til þess eins að saga niður loftnet og ryðja um koll gervihnattadiskum (hugarástand fólksins í auglýsingunni er ekki ósvipað íslendingum sem skemmta sér í miðborginni um helgar en það er líka önnur saga.)
Og hefst nú sagan.
Það er árið 1992. Ég keypti 14 tommu sjónvarpstæki í fríhöfninni á tæpar 14.000 kr. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega upptekinn af sjónvörpum né öðrum álíka hlutum en þar sem við höfðum verið um tíma sjónvarpslaus þá ákváðum við að kaupa eitt stykki. Þetta litla 14" tæki hefur verið mikil stofuprýði allar götur síðan og orðið tilefni að frjóum og skemmtilegum samræðum, ekki síst á meðal vina barnanna minna sem hefur þótt þetta tæki heldur "nördalegt".
Svo gerist það í vor, nánar tiltekið í apríl 2007 að fulltrúi tengdafjölskyldunnar hefur samband og segir að þetta gangi ekki lengur með 14" tækið. Við verðum að endurnýja (þar sem stórfjölskyldan kemur ávallt saman yfir 14" tækinu á gamlárskvöld og horfir á áramótaskaupið). Fulltrúinn sagði að það væri geggjað tilboð á flatskjám og við yrðum að fá okkur alla vega fyrir næsta gamlárskvöld.
Nú jæja veiklundaður eins og ég er lét ég tilleiðast og dröslaðist heim með risa risastórann flatskjá. Svo stórann að Bogi Ágústsson lítur út eins og ofurhetjan Hulk the incredible þar sem hann hangir á skjánum.
"Ertu hættur að vera kommúnisti" spurði kunningi minn mig eftir að hann sá skjáinn. "Nei" sagði ég, "þetta er bara svona óheppilegt hliðarskref til að friða stórfjölskylduna sem þolir ekki lengur að horfa á áramótaskaupið í 14" tæki." En það er önnur saga.
Eftir að tækið ógnarstóra var komið á vegginn var haft samband við Sjónvarp Símanns (þetta sem þeir eru alltaf að auglýsa) og óskað eftir að taka sjónvarpið inn í gegnum netið. Ekkert mál. Tæknimaður kemur og tengir og græjar hlutina, en að því loknu kemur smá babb í bátinn og það er þar sem ævintýrin fara að byrja. Það koma alltaf einhverja truflanir í útsendingunum. Tæknimaðurinn hrærir og græjar hlutina en endar síðan á að segja að þessar truflanir séu vegna þess að símalínurnar í húsinu séu orðnar gamlar. Gott og vel segi ég og er ánægður með að fá skýringu á hlutunum því ég vil einmitt laga það sem hægt er að laga í húsinu. Síðan legg ég saman tvo og tvo þeas símalínur plús tæknimaður frá Símanum inni í stofu hjá mér og ég spyr "Er þá nokkuð annað að gera en að endurnýja símalínurnar, ég er alveg til í að leggja í þann kostnað?" Þá mér að óvörum mátti sjá einhverskonar flóttaviðbrögð í andlitsdráttum tæknimannsins. Hann fer að skima eftir útgönguleið og leita að skónum sínum með augunum svo lítið beri á og segir síðan, "tja það þarf sko að tala við nágrannana um svona mál". "Já ekkert mál" segi ég, "ég skal spjalla við nágrannana og athuga hvort þeir séu ekki til í smá endurnýjun á símalínum". "Tja þetta er soldið mál" segir hann og ég svara,"ekkert mál ég er til í hvað sem er svo stórfjölskyldan geti horft á áramótaskaupið ótruflað." Ég hafði varla lokið við þessa setningu fyrr en ég heyrði orðið bless og síðan sá ég undir iljarnar á þessum tæknimanni Símanns.
Hann semsagt brást við eins og ég hefði dregið fram keðjusög og ætlað að brytja hann niður með köldu blóði. En þetta var bara fyrsti hluti sögunnar.
Og er nú komið að næsta hluta.
Þegar þarna er komið við sögu og kominn nokkurra daga reynsla á Sjónvarp Símanns þar sem ríkjandi eru miklar truflanir á mynd, hljóð dettur út í tíma og ótíma, myndin frýs og fjarstíringar virka ekki osfrv ákveð ég að hafa aftur samband við Símann til að athuga hvort ekki sé hægt að kippa þessu í lag. Það er ekki að spyrja að svöruninni í símann hjá Símanum. Silkimjúkar raddir tala þar í tólin, kurteisar, lofa öllu fögru þannig að ég upplifi mig eins og ég sé í bleiku freiðibaði þegar ég hlusta á þessar elskur (en þegar upp er staðið er kannski aðeins of mikið af froðu eins og ég mun koma að).
Jú það stóð ekki á því að fá annan tæknimann. Sá virtist við fyrstu sýn vera hugrakkari en sá fyrri sem áleit mig kaldrifjaðann keðjusagamorðingja. En hvað var að, já þessi var ekki í vanda með að útskýra það. "Þetta eru ekkert símalínurnar, það má nú vel nota gamlar símalínur" sagði hann og hélt áfram: "veistu hvað þetta er?" "Nei" sagði ég "þess vegna fékk ég þig hingað". "Þetta er sjónvarpið þitt, það er í lagi með allt frá okkur en sjónvarpið þitt er bara í rúst". "Ha" sagði ég " en þetta er nýtt sjónvarp beint úr kassanum." "Allt í lagi bless" og síðan var hann rokinn á dyr þessi öðlingur frá Símanum.
Og þá kemur næsti kafli.
Ég var þó í það minnsta ánægður með að fá eitthvert svar þó mér þætti það ótrúlegt. Þetta seinna flóttadýr Símanns hafði þá allavega látið mig fá verkefni til að vinna úr. Ég hringi þá í verslunina þar sem ég keypti tækið og sagði eins og var að Símamaðurinn hafi sagt mér að ég hafi fengið ónýtt sjónvarpstæki.
Og til að gera langa sögu stutta varð verslunarstjóranum svo mikið um þessar fréttir að hann brunaði heim til mín til að ganga úr skugga um hvað amaði að tækinu. Í ljós kom að tækið var í hinu besta standi enda vel þekkt gæðamerki. "Það er nú bara sorglegt" sagði búðamaðurinn " ef Síminn er með menn í vinnu sem hafa ekkert vit á því sem þeir vinna við". Og við það hvarf hann.
Síðan kemur sumar og ég verð latur á þessum eltingaleik við Símann enda afskaplega hvimleitt að eiga samskipti við Símann (nema kannski helst froðurnar silkimjúku sem svara í símann og lofa öllu fögru þar til maður áttar sig á að þær eru eins og úlfurinn sem hafði gleypt krítina til að þykjast vera geitamamma í ævintýrinu um kiðlingana sjö).
En ekki batnar ástandið á sjónvarpsútsendingu Símanns. Síðan á miðju sumri hringir síminn minn og þar segist viðmælandinn vera frá Símanum. Ég ætlaði næstum því að gráta af gleði, mér leið eins og mér hafi verið bjargað úr eyðimörk þar sem ég hélt að þeir hjá Símanum væru að athuga hvort þeir gætu ekki lagað útsendinguna hjá mér. En svo var ekki og ég varð heldur daufur þegar þeir spurðu mig að því hversvegna ég hafi hætt viðskiptum við Símann og hvort ekki mætti gera mér tilboð um að færa öll mín viðskipti aftur til Símanns. Ég ákvað að taka vel í mál viðmælandans og bað um að mér yrði sent tilboð um viðskipti við Símann síðan ákvað ég að reyna að þrýsta mínu máli að og sagði farir mínar ekki sléttar varðandi Sjónvarp Símanns og að ég væri fúll yfir þessu en ef viðkomandi gæti orðið til þess að sjónvarpsútsendingarnar á vegum Símans kæmust í lag þá myndi ég glaður færa öll mín viðskipti yfir til Símanns þó ég þyrfti að borga meira heldur en ég geri hjá O Vodafone.
Ekkert hefur heyrst frá þessari manneskju síðan. Ekki fékk ég tilboðið sent eins og talað var um.
Síðan gerist það að annar símasölumaður á vegum Símanns hringir nokkru síðar með alveg eins símtal og sá fyrri. Ég bregst við á nákvæmlga sama hátt og bið um tilboð plús lagfæringu á Sjónvarpi Símanns. En það er útlit fyrir að báðum þessum einstaklingum hafi verið byrlað eitur því ekkert hefur til þeirra spurst né heldur hef ég fengið umrædd tilboð send eins og lofað var. Dularfullt. Og spurning hvort það sé siðferðileg skylda mín að hafa samband við morðdeild lögreglunnar.
Síðan líður og bíður og er ég orðinn býsna boginn og það styttist í áramótaskaupið og heimsókn stórfjölskyldunnar þannig að í síðustu viku ákveð ég að prófa að hringja í Símann og freista þess að fá tæknimann, þann þriðja til að kanna hvort ekki megi laga útsendingu sjónvarps Símanns.
Og þá kemur lokakaflinn að sinni og er málið búið að vera í gangi síðan í apríl.
Silkimjúkur úlfurinn nýbúinn að borða krít svarar í símann hjá Símanum og lofar öllu fögru. "Við sendum beiðni til tæknideildar og þeir hafa samband við þig og laga þetta". "Hversu langan tíma heldur þú að það taki?" spyr ég. "Það verður innan þriggja daga" var svarað.
Síðan eru næstum því liðnar tvær vikur og ekkert hefur heyrst frá Símanum.
Það skyldi þó ekki ganga einhver bráðdrepandi farsótt innan Símanns sem virkar þannig að fólk deyr umvörpum eftir að það er búið að tala við mig.
Þannig að það er spurning hvort að Síminn ætti ekki bara að fara að halda sína eigin síðustu kvöldmáltíð og hætta síðan þessu öllu saman.
Annars beini ég því til þeirra Símamanna ef einhver er þarna enn á lífi og hefur einhvern lágmarksvilja til að aðstoða mig með Sjónvarp Símanns þá er netfangið mitt johannbjo@gmail.com og síminn minn er 8449211.
Með símakveðju
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Síminn er ekki svipur hjá sjón síðan þeir hétu Póstur og sími.
Þökkum Drottni fyrir að einokun símans er aflétt og samkeppni tekin við.
Ingibjörg Friðriksdóttir, 8.9.2007 kl. 16:40
Ég færði mig frá Símanum fyrir mörgum árum og yfir til Íslandssíma sem síðar varð Vodafone. Þegar ég hringdi til að segja upp gamla númerinu mínu voru viðbrögð úlfsins ekki kliðmjúkt saknaðarhjal heldur beinar hótanir! Ég var feginn að losna og hef ekki hugsað mér að fara þangað aftur.
Dofri Hermannsson, 8.9.2007 kl. 17:48
Já svona hafa mörg annars ágætis fyrirtæki endað eftir svokallaða "einkavæðingu" sem réttara er að kalla gróðavæðingu fyrri ríkisstjórnar sem grátbroslegur landinn kaus til ráða í meir en áratug yfir þjóðina, það er ekki síminn eingöngu heldur má einnig nefna bankana sem þjónusta bara orðið nýríka vini og vandamenn sem eru líklegir til landvinninga...já eftir situr auminginn þú, ég og allir hinir græn í framan og skiljum ekkert í þessu bulli sem er að tröllríða Íslensku samfélagi og hristum hausinn...það er að verða skelfilegt ástand þarna á skerinu og ef ekki íslenskum stórfyrirtækjum verður ekki veitt meiri samkeppni (td.erlendisfrá) þá hvað spyr ég................
Hulda (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 20:56
Ég er örugglega efst á vinsældarlista sima manna. Aldrei hef ég fengið annað en fyrirmyndar þjónustu hjá því fyrirtæki. Meira að segja þegar dóttir mín var hjá Vodafone og mátti bjóða mömmu sinni mega góðan díl, þá sló það símanum ekki við. Ég er með fullkomna sjónvarpsútsendingu, fullkomið ADSL og lágan símareikn. hvað getur maður beðið um meira. Ef ég þarf svo aðstoð með eitthvað og hringi þá gera þeir allt fyrir mig á mettíma. Semsagt ég er lukkunnar pamfíll. Mun aldrei skipta um fyrirtæki.
Ásdís Sigurðardóttir, 8.9.2007 kl. 22:14
Skemmtileg lesning , en því miður alltof sönn
Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 00:12
Núna nýlega lenti ég í því að setja upp nokkra sjónvarpsskjái í verslun í miðbænum. Sumir tengdir við tölvur en einn átti að tengjast við internetið og senda út frá BBC ofl. stöðvum. 2 vikum fyrir opnun byrjuðum við að hafa samband við símann upp á að tengja ADSL. Þessar tvær vikur voru þeir á leiðinni og mættu svo þegar það var búið að vera opið í rúma viku með svartan dauðan 42" skjá fremstan í versluninni. Símavirkinn sem fékk það hlutverk að tengja en tekið skal fram að við lögðum lagnirnar fyrir hann, átti í miklu basli með að ná mynd á skjáinn. Eftir einn dag að bogra við verkið og tala í síma sem hann gerði mikið af fékk hann svarthvíta mynd á skjáinn. Á degi 2 þegar hann var búinn að vandræðast kringum sjálfan sig í 5 tíma var ég búinn að fá nóg og vildi útskýringar á af hverju þetta gengi ekki. Hann hafði engin svör nema svona kannski........ Ég hringdi í þá sem tækið var keypt hjá og fór yfir málin með þeim, keypti nýja snúru með öðrum tengjum en símon var að nota og kristaltær og flott mynd. Þetta tók mig alls um 2 klst. en það er á tæru að símon hefur rukkað fyrirtækið um 2 daga af því að klóra sér í hausnum. Hér er svo önnur saga af viðskiptunum við þetta ÞJÓNUSTUFYRIRTÆKI!:
Þjónustuver Símans - aumasti brandarinn.....
Ævar Rafn Kjartansson, 9.9.2007 kl. 17:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.