5.9.2007 | 08:13
Hvaða búð er það sem selur hluti en samt má ekki kaupa þá?
Neytendamál eru áhugaverð. Hér kemur smá um neytendamál.
Ég fór í Office one superstore og ætlaði að kaupa tíu eintök af frönskukennskubókinni Cafe Creme til þess að nota í Réttarholtsskóla. Eins og gengur gekk ég inn í verslunina og náði í eintökin tíu. Ég byrjaði á því að velja notaðar bækur sem voru vel brúklegar, enda ódýrari og svo nýjar þar á eftir.
Þegar kom að því að greiða bækurnar var ég stoppaður af. Ungur maður gerði sig líklegan til þess að fara að leggja saman kostnaðinn þegar ung afgreiðslustúlka sem greinilega var með vakandi augu yfir öllu sá hvað í ósköpunum gekk á. Aha hugsaði hún, þarna er einhver sem ætlar að kaupa tíu stykki af sömu vörunni. Enda sagði hún án allra málalenginga að það mætti ekki kaupa svona margar bækur.
Ég var af einhverjum ástæðum ekkert í neitt sérstaklega góðu skapi og var því alveg til í smá þras þannig að í stað þess að biðjast afsökunar á þessari frekju í mér spurði hvort bækurnar væru ekki til sölu. Jú jú þær voru alveg til sölu. Þið hljótið að vera að grínast svaraði ég og bætti við, eruð þið með falda myndavél hérna inni
Farðu og spurðu Magga sagði stúlkan við samstafsmann sinn og svo sagði hún við mig að Maggi yrði spurður sem er rekstarstjórinn.
Síðan leið og beið og ég var um það bil farinn að taka þá ákvörðun að gefast upp þegar ég hitti kunningja minn sem fékk að heyra raunasögu mína. Já sagði hann, þetta er bara eins og þegar sykurinn var skammtaður vegna þess að menn voru svo hræddir um að einhverjir færu að brugga. Jú ætli ég gæti ekki framið annan eins glæp með þessum bókum.
Síðan kom ungi afgreiðslumaðurinn aftur með nýjustu fréttir af Magga verslunarstjóra sem einhversstaðar var falinn á bakvið reglustikur og stílabækur en sást hvergi sjálfur. Maggi hafði gefið þá skipun að ég mætti kaupa tvær bækur en ekki fleiri.
Ég varð undrandi og útskýrði mál mitt á þann veg að ég þyrfti fleiri en tvær bækur þar sem ég væri að kaupa þetta fyrir skóla. Hvaða skóla var þá spurt og var ekki laust við að það mætti heyra yfirheirslutón í röddinni. Réttarholtsskóla svaraði ég. Heyrðu þá verðum við að spyrja Magga var svarað.
Já já svaraði ég, ég ætla að sleppa þessu en þið skuluð endilega fara að spjalla enn frekar við Magga, ég ætla hinsvegar að fara í Griffil og kaupa bækurnar þar. Bless.
Síðan skokkaði ég yfir í Griffil og vatt mér í hillurnar og valdi 10 bækur, sex notaðar og fjórar nýjar, fór að afgreiðsluborðinu, greiddi, fékk nótu og poka, þakkaði fyrir mig og hélt heim á leið. Allir ánægðir með þau viðskipti.
Á meðan híma bækurnar í Office one superstore enn í hillunum, væntanlega sorgmæddar yfir að verða engum að gagni í nánustu framtíð.
En nemendur mínir verða án efa glaðir þegar ég kem færandi hendi með kennslubækurnar góðu.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð saga um forræðishyggju og því miður afar trúleg.
Minnir á söguna af (smá)kaupmanninum hér fyrir austan fjall sem eitthvert vorið hafði pantað tiltekinn fjölda (segjum 20, ég man ekki töluna) af girðingarrúllum. Svo kom einn bóndinn úr sveitinni og vildi kaupa 17 rúllur. Þá varð kaupmaðurinn hoppandi vondu og sagði: „Þetta endist ekki lengi ef allir ætla að kaupa svona!“
Sumir eru bara smáir í sér. - Ætli Maggi sé fundinn?
Mbkv.
Sigurður Hreiðar, 5.9.2007 kl. 08:41
Ég gæti etv skilið þetta er þú hefðir ætlað að kaupa 2000 lítra af spritti eða 2 Tonn af rottueitri, en kennskubækur í frönsku ??
Fyrir mig er þetta sterk vísbending um að verslunin sé að selja sumar vörur undir kostnaðarverði.
Fransman (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 09:30
Ég set spurningamerki við suma viðskiptahætti þessarar búðar og sem kennari hef ég persónulega reynslu af því. Markmið þeirra er víst að lækka verð á skólabókum, með því að panta inn allar bækur sem eru á bókalistum skólanna og selja þær á lægra verði en aðrir. Verðugt markmið í sjálfu sér en kannski ekki rétta aðferðin, þar sem aðrir og minni innflytjendur fara illa út úr því. Nú ef þeir tíma svo ekki að selja bækurnar þá græða þeir víst ekki mikið á þessu .
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 5.9.2007 kl. 10:38
hahaha Oh My god....stórhættulegt fólk sem kauðpir 10 frönskubækur í einu. Það verður auðvitað að passa uppá svona...Aumingja Maggi!!! Þetta er svo hallærislega asnalegt eitthvað.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 6.9.2007 kl. 19:13
gott að vita að hver skóli getur fengið tvær kennslubækur í einu hjá þeim. trúi ekki öðru en þau svari fyrir þetta. viðskiptahættir sem ég skil ekki alveg nógu vel.
tvö stykki á mann...
arnar valgeirsson, 6.9.2007 kl. 21:11
Ég er ekki að segja að þetta sé rétt hjá þeim en ég skil þetta samt líka aðeins. Sjálf vinn ég í bókabúð og hef orðið vitni af allmörgum atvikum þar sem keyptar hafa verið bækur í Office 1 og skilað í öðrum dýrari verslunum til þess að græða. Þannig að líklega hafa Office 1 sett þessar reglur svo þetta lága verð sé að skila sér til fleiri aðila og að fólk sé ekki að misnota þetta.
Kv.
Anna (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 09:42
Er þetta ekki af því að þeir aðilar sem eiga umrædda verslun flytja inn nýjar bækur sem þeir vilja frekar selja?
En ég fatta þetta ekki.....
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 7.9.2007 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.